Lifðu í spurningunni

Þórdís Gísladóttir
Óvissustig
Benedikt, 2016
Það fyrsta sem ber fyrir augu lesenda Óvissustigs, nýjustu ljóðabókar Þórdísar Gísladóttur, er eftirfarandi texti. Um er að ræða eins konar aðfararorð að ljóðabókinni:

Óvissustig
(Uncertainty Phase)

Óvissustig einkennist af atburðarás sem er hafin
og ætla má að geti leitt til þess að öryggi fólks og/
eða byggðar sé stefnt í hættu. Á þessu stigi hefst
samráð milli almannavarna og þeirra stofnana
sem málið varðar. Athuganir, rannsóknir, vöktun
og mat er aukið. Atburðurinn er skilgreindur
og hættumat framkvæmt reglulega til að meta
stöðuna hverju sinni.

Af heimasíðu Almannavarna

Skírskotanir titilsins – sem eru fjölmargar, enda titillinn afskaplega glúrinn, alveg eins og titill ljóðabókarinnar sem Þórdís sendi frá sér árið 2014, Velúr – eru hér jarðbundnar og settar í tiltekið samhengi, jafnvel mætti segja að hert sé á þeim. Lífinu vindur fram í heild sinni á einu samfelldu óvissustigi, áhyggjuefnin eru fjölmörg og hætturnar einnig. Almannavarnir myndu í þessu samhengi standa fyrir öll þau kerfi, stofnanir, siðalögmál, opinber valdatæki og samskiptavenjur (og lengi mætti hér telja) sem saman mynda yfirborð og gangverk hins nútímalega samfélags, og þá ekki síst hina öruggu velsæld sem einkennir lönd Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku, þá einföldu staðreynd að við sem búum til dæmis á Íslandi getum farið ferða okkar um Reykjavík og eigið land nokkuð óhult, verið sæmilega örugg um gæði matarins sem við kaupum, og að bankastjóri stingi ekki af um miðja nótt með allt spariféð okkar (allavega að það síðastnefnda gerist ekki mjög oft). Á það er hins vegar stundum minnst að þegar óvænt áföll senda lífið út af sporinu sé hið svokallaða „öryggisnet“ hvorki sveigjanlegt né sérlega öruggt, og að samfélagið – Almannatryggingarnar – fúnkeri best þegar mótbyr er ekki of mikill og allir meira og minna samþykkja leikreglurnar. Ef kærastanum þínum fyrrverandi er hins vegar alveg sama um nálgunarbannið, ef Jón Ásgeir ákveður að nota sína fjölmiðla í prívat hagsmunabaráttu og eigendur allra hinna fjölmiðlanna fylgja eftir, ef alvarlegur sjúkdómur greinist, ef bankastjóri stingur í raun og veru af með alla peningana; þegar atburðir af þessu tagi ríða yfir þá er merkilegt hversu lítið virðist stundum hægt að gera.

Það hljómar vel að „athuganir, rannsóknir, vöktun og mat [verði] aukið [og að] atburðurinn [sé] skilgreindur og hættumat framkvæmt reglulega til að meta stöðuna“, en hvað ef þetta er bara ekki satt? Ef þetta væri satt væru almannavarnir fyrir löngu búnar að grípa inn í spillinguna á Alþingi, loka fjölmiðlum sem leikendur úr hruninu stýra, sjá til þess að auðæfin úr hafinu fjármagni eðalheilbrigðis– og menntakerfi, leggja af Framsóknarflokkinn, hækka laun hjúkrunarfræðinga og leikskólakennara, og sjá til þess að allt sem hægt sé að gera til að sporna gegn hnattrænni hlýnun sé gert. Augljóslega á ekkert slíkt við raunverulegt starf þeirrar stofnunar sem nafninu samkvæmt á að gæta öryggishagsmuna þegnanna, og ekki að undra. Hrunleikendur, kvótaeigendur, hið spillta Alþingi o.s.frv. – þeir og það sem nefnt var sem ógn við öryggi fólks og byggða hér að ofan stýra beint og óbeint stofnunum eins og Almannavörnum.

Ávarp

Óhætt er að segja að ljóð Þórdísar endurspegli einmitt mjög skeptíska og gagnrýna sýn á ríkjandi orðræður stofnana og valdhafa. Ljóðið „Skilaboð til embættismanns“ er þar gott dæmi:

Herra ríkislögreglustjóri,
þú getur tekið ákvörðun og aflétt óvissustigi,
róað þjóðina og óttaslegna ferðamenn,
sagt að byggðalínan standi styrk,
sent vakthafandi viðbragðsaðila heim í heitt bað.

En ég veit betur.
Í lífi okkar ríkir samfellt óvissustig,
fannfergi í höfðinu,
éljahraglandi í hjartanu,
óveður í maganum.

Ég læt ekki blekkjast
þótt flestir virðist
sigla lygnan sjó. (10)

skogarhlid-14

Fannfergi í höfði konunnar

Ljóðið hér að ofan endurspeglar jafnframt gagnrýnið viðhorf í garð karllægrar samfélagsskipanar. Raunar mætti ganga skrefinu lengra og segja að gagnrýni af því tagi myndi einn af sterkari þráðum bókarinnar.

Leiðarstef í ljóðinu „Áhyggjur“ er yrðingin „ég hef áhyggjur“ (20, 21); í öðru ljóði segist ljóðmælandi oft hafa legið andvaka og hugleiðir vökunætur fortíðarinnar. Í þriðja ljóðinu, „Sannleikur“, segir (með tilvísun til titilsins): „Hann er auðvitað truflandi / en ég ætla samt að segja þér hann“ (12) og eftir fylgir beisk og eitruð úttekt á kvenlegu hlutskipti þegar lífinu vindur fram ávallt á forsendum „stórgripanna“, það er karla.

Hún á ekki að gráta
því þá verða stórgripirnir reiðir,
hún á ekki að hlæja,
þá verða þeir ennþá reiðari,
hún á ekki að orða aðstæðurnar,
hún á ekki að greina frá líðan sinni,
þá hættir hún að vera leyndardómsfull.

Hún á að vera volgur og mjúkur hitapoki
og ekki tala of mikið
óþarfa mas finnst stórgripunum þreytandi. (12–13)

Google býður upp á fjöldan allan af leyndardómsfullum konum.
Google býður upp á fjöldann allan af leyndardómsfullum konum.

Að þagga konur hefur verið ein helsta iðja karlmanna í gegnum tíðina en stundum hafa konur getað, líkt og Helga Kress hefur bent á í samhengi við Íslendingasögurnar, fundið mótleiki á borð við hlátur, að hlæja að stórgripinum getur verið beitt. En það er skammgóður vermir, „byssurnar“ sem minnst er á í síðasta erindi ljóðs Þórdísar eru eftir sem áður í þeirra eigu, valdið er og hefur verið þeirra, kúgunarvaldið og skilgreiningarvaldið. „Þá hættir hún að vera leyndardómsfull“ segir hér að ofan og er þar vísað til þess hvernig konur geta glatað eftirsóttum eiginleikum ef þær klæðast ekki kyngervi sínu með nægilega sannfærandi hætti, eru ekki nægilega undirlátar eða trufla með einhverjum hætti ríkjandi viðhorf, en þau fela meðal annars í sér að það sé ákjósanlegt að konur séu „leyndardómsfullar“ – að hluta til væntanlega vegna þess að sá leyndardómsfulli (sú leyndardómsfulla) þegir mestanpart og heldur sig til hlés.

En með því að halda sér ekki til hlés heldur þvert á móti með því að taka til máls – og kannski ekki síst með því að taka sér (af)stöðu ljóðmælandans og spyrja, greina og gagnrýna – sýna ljóðin að „óvissustig“ titilsins getur einnig verið frelsandi, a.m.k. undan „traustri“ og „hlutlausri“  þekkingu (röklegri, karlmannlegri, kaldri og greinandi) feðraveldisins og „húmanískri“ hugmyndafræði þess. Hvað það varðar er útgönguleiðin einmitt að gera orðin sem Rainer Marie Rilke beinir til ungs ljóðskálds að sínum eigin og „lifa í spurningunni“.

Um höfundinn
Björn Þór Vilhjálmsson

Björn Þór Vilhjálmsson

Björn Þór Vilhjálmsson er dósent í almennri bókmenntafræði og kvikmyndafræði. Sérsvið hans eru skörun og samræða kvikmynda og bókmennta, tækni og menning, nýmiðlar af ýmsum toga, og íslensk kvikmyndasaga. Sjá nánar

[fblike]

Deila