Endurupptaka óhjákvæmileg

Guðmundar- og Geirfinnsmálin hafa hvílt eins og óuppgerð fjölskylduleyndarmál á íslensku samfélagi allt frá því rannsókn þeirra hófst og dómar féllu í þeim á 8. áratugi liðinnar aldar.
Málin eru hér kennd við fjölskyldu þar sem íslenska samfélagið var á þessum tíma einsleitt og einfalt að allri gerð, fjölmenning og alþjóðavæðing voru enn framandi fyrirbæri hér. Við vorum samstæð þjóð á afskekktri eyju í ballarhafi og horfðum í forundran og ótta til ýmissa fyrirbæra sem þróuðust hratt úti í hinum stóra heimi.

Margt er breytt frá þessum tíma en fleira má breytast. Meðal annars verðum við alltaf að vera á varðbergi gegn óttakenndum fordómum í samfélaginu. Af þeim ástæðum er okkur hollt að rifja þessi mál upp þar til farið hefur verið niður í saumana á þeim málatilbúnaði sem stofnað var til á sínum tíma.

Upprifjunin

Ítrekað hafa þessi mál komið til umræðu, ekki síst í tengslum við ítrekaðar beiðnir um endurupptöku, og orðið kveikja að ýmiss konar verkum. Má þar nefna bækur um málið í heild, sem og ýmsa sem við sögu komu í því, einkum Sævar Marinó Ciesieelski og Erlu Bolladóttur. Má þar nefna Stattu þig drengur eftir Stefán Unnsteinsson um Sævar og Erla góða Erla eftir Erlu sjálfa. Þá er að geta heimildamyndarinnar Aðför að lögum sem Sigursteinn Másson og Kristján Guy Burgess gerðu 1997 og Hvarfa, athyglisverðs leikverks Rúnars Guðbrandssonar og Lab Loka vorið 2013 sem sýnt var í samvinnu við Þjóðleikhúsið í Kúlunni og hinum gamla dómssal hæstaréttar en þar voru dómar kveðnir upp yfir sakborningunum. Nú síðast hefur Ómar Ragnarsson svo gefið út næsta einkennilega „játningar“-sögu sem vísar óbeint til málsins.

Viðamikil úttekt á málinu var loks gefin út á síðasta ári, Sá sem flýr undan dýri.

Óvægin úttekt

Jón Daníelsson
Sá sem flýr undan dýri
Mýrún, 2016
Yfirferð Jóns Daníelssonar á rannsókn og dómum í málunum tveimur sem spruttu í kjölfar þess að Guðmundur Einarsson hvarf í upphafi árs 1974 og Geirfinnur Einarsson undir lok þess er mjög óvægin.

Í bókinni rekur Jón hvernig einhver umfangsmestu réttarhöld 20. aldarinnar voru höfðuð gegn hópi ungmenna sem á þessum tíma stóðu nærri jaðri samfélagsins. Þau höfðu vissulega gerst sek um minni háttar afbrot en hefðu að hans mati sloppið með skilorðsbundna dóma hefðu þau notið verndar réttarríkisins og aðeins verið dæmd fyrir þau brot sem á þau sönnuðust. Á hinn bóginn færir Jón rök að því að þau sex sem dæmd voru fyrir mannshvörfin hafi mátt þola fullkomið geðþóttavald og óheft frelsi lögreglu og fangavarða til að beita þau andlegum þrýstingi og líkamlegum pyntingum án þess að þau nytu neins teljandi stuðnings verjenda. Hann telur líka að hinum óvægnustu aðferðum hafi verið beitt til að knýja fram framburði og játningar sem ýmist hafi verið óáreiðanlegar eða beinlínis falskar. Telur hann aðferðirnar við rannsóknina svartan blett á réttarfarssögu okkar. Sýnilega halda dómar sem á slíkri rannsókn byggja ekki vatni. Telur Jón því að vísa hefði átt málinu frá dómi. Þá var réttarkefið sjálft næsta frumstætt á þessum árum vegna óljósra skila milli lögreglu, ákæruvalds og dómstóla. Engin ástæða er til að draga þessa heildarmynd Jóns Daníelssonar í efa.

Gagnrýni Jóns beinist einkum að þeim þremur mönnum sem að rannsókn málsins unnu. Það kann að vera snöggur blettur á verki hans þar sem setja má rannsókn málanna í víðtækara félagslegt samhengi.

Rörsýn og þjóðfélagsaðstæður

Hvað svo sem líður einstökum fullyrðingum Jóns Daníelssonar um framgöngu lögreglunnar og ályktunum hans af þeim er enginn efi á því að aðferðirnar sem beitt var við rannsókn málanna á 8. áratugi aldarinnar sem leið væru taldar í hæsta máta ófaglegar nú, brytu í bága við almennt réttarfar og fælu í sér hrein mannréttindabrot. Hugsanlegt er á hinn bóginn að hann persónugeri vandann um of og geri hlut rannsóknarmannanna þriggja of slæman.

Þeir hafa ugglaust verið blindaðir af því sem oft er nefnt „rörsýn“ og gengið út frá allt of þröngu og skökku sjónarhorni. Það er á hinn bóginn ljóst að þeir unnu undir miklum félagslegum og pólitískum þrýstingi. Ef til vill er sanni nær að þeir hafi einfaldlega bugast af þeim kröfum um lausn málsins sem að þeim beindust en stjórnvöld fluttu loks inn þýska rannsóknarlögreglumanninn Karl Schütz til að binda endahnút á rannsóknina.

Af þessum sökum hefur sá sem þetta ritar lengi litið svo á að knýjandi nauðsyn beri til að taka þessi mál upp að nýju
Á 8. áratugnum stóð íslenska samfélag á þeim þröskuldi að vera að tapa ímynduðu sakleysi sínu. Reykjavík var að verða stórborg, ávana- og fíkniefni voru í auknum mæli að ryðja sér til rúms og unglingamenningin að verða um margt harðari en verið hafði. Eldri kynslóð og valdhafar sem upplifðu sig í vörn gegn margháttuðum þjóðfélagshræringum sem gengu yfir um sama leyti litu greinilega svo á að þau stæði ekki einvörðungu vörð um völd sín og hagsmuni heldur grunngildi samfélagsins. Hið nýja samfélagi skyldi bælt niður með öllum tiltækum ráðum. Hin ákærðu í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum voru kjörin fórnarlömb í því uppgjöri. Vera má að Jón Daníelsson hafi á réttu að standa þegar hann í upphafi bókar sinnar fullyrðir að leitun hafi verið að þeim Íslendingi sem ekki hafi verið „[…] fyllilega sannfæður um sekt sakborgninganna“ um það leyti sem dómur var kveðinn upp yfir þeim og þau því verið fullkomlega einangruð og útskúfuð úr íslensku samfélagi. Ég leyfi mér þó að fullyrða að ekki leið á löngu þar til alvarlegar efaemdir um allan málatilbúnaðinn fóru að vakna meðal þeirra sem enn voru ung á þessum árum.

Af þessum sökum hefur sá sem þetta ritar lengi litið svo á að knýjandi nauðsyn beri til að taka þessi mál upp að nýju — auðvitað til að rétta hlut hinna ákærðu, lífs og látinna, sem urðu fyrir barðinu á valdhöfum en ekki síður til að hreinsa blett af íslenska réttarríkinu sem á þessum tíma varð leiksoppur í átökum ólíkra kynslóða. Það er enn ekki orðið of seint þótt vissulega sé hver að verða síðastur þegar um þessi mál er að ræða. Þessa félagspólitíska sjónarhorns gætir vissulega í riti Jóns Daníelssonar en hefði mátt vega þar þyngra.

Skilyrði endurupptöku

Lög um meðferð sakamála setja endurupptöku mála skýr mörk. endurupptökunefnd er heimilt að vera við beiðni þar að lútandi ef fram koma ný gögn sem ætla má að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk; ef ætla má að lögregla, ákærandi, dómari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða háttsemi í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin eru; ef verulegar líkur eru leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í máli hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess eða ef verulegir gallar hafa verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.

Við getum sem samfélag ekki lengur búið við þá áleitnu tilfinningu að framin hafi verið hér réttarmorð í tíð núlifandi fólks.
Í bók sinni hefur Jón Daníelsson fært fram sannfærandi rök fyrir því að flestum þessara skilyrða sé í raun fullnægt í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum. Fallist endurupptökunefnd sú er nú starfar ekki á að málin séu endurvakin á grundvelli fyrrgreindra ákvæða stendur eftir sú félagspólitíska nauðsyn til endurupptöku sem bent var á hér framar. Er þá ekki annað sýnna en löggjafinn verði að grípa til sérstakra ráðstafana til að mögulegt sé að rétta í málunum að nýju, annað tveggja með lagabreytingum eða sérstökum lögum. Við getum sem samfélag ekki lengur búið við þá áleitnu tilfinningu að framin hafi verið hér réttarmorð í tíð núlifandi fólks.

Lokaorð

Vera má að auðveldar reynist fyrir hvítflibba útrásar- og Hruntímans að fá mál sín endurupptekin og þá á grundvelli hreinna formsatriða. Þeir hafa enda á að skipa vaskri sveit lögmanna sem sumir hverjir hafa jafnvel starfsreynslu úr hæstarétti. Slíkir menn forðast aftur á móti að láta kusk af málum í líkingu við mannshvörfin á 8. áratugi aldarinnar sem leið falla á frakkaboðunga sína.

Um höfundinn
Hjalti Hugason

Hjalti Hugason

Hjalti Hugason er prófessor í kirkjusögu við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Hann hefur stundað rannsóknir á ýmsum sviðum íslenskrar kirkjusögu og kirkjuréttar en auk þess ritað um trú, samfélag og menningu á ýmsum vettvangi. Sjá nánar

[fblike]

Deila