Að brýna klærnar

Sigurbjörg Þrastardóttir
Óttaslegni trompetleikarinn og aðrar sögur
JPV útgáfa, 2016
Það að vera fyndinn er vanmetið í stigveldi listrænna eiginleika og kosta. Frægt er að gamanmyndir hljóta nær aldrei Óskarsverðlaun í Bandaríkjunum og helstu listamönnum menningarsögunnar stekkur varla bros öldum saman. Þá má einnig halda því fram að fáar listgreinar eldist jafn illa og gamanleikurinn, hvort sem átt er við form skáldsögunnar, leikhússins eða kvikmyndarinnar. Þannig upplifi ég til að mynda kímnigáfu 19. aldar og 18. aldar, eins og hún birtist  í skáldskap, sem nær lokaðan heim, svo ekki sé minnst á hlátrasköll fyrri alda, hvort sem um er að ræða baktínska karnívalið og Rabelais eða gamanleiki Forn-Grikkja. Harmleikjum, hetjusögum, raupi og lýrískum hugleiðingum, félagslegu raunsæi og melódrömum farnast einhverra hluta betur sýnist mér, almennt séð. Það er ráð að hafa þetta í huga næst þegar „ærslagamanynd“ (e. screwball comedy) frá gullöld Hollywood ber fyrir augu því ljóslega tókst þar að fanga eldingu í flösku – eða í hökuskarðið á Cary Grant í tilviki mynda á borð við Bringing up Baby (1938) eða His Girl Friday (1941).

Óttaslegni trompetleikarinn og aðrar sögur eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur er marglaga verk og ýmsum kostum búið en er þó fyrst og fremst dýrlega fyndið textasafn
Á þetta er minnst vegna þess að gamansemi er vanalega víðsfjarri í íslenskum samtímabókmenntum, framan af held ég að fagurbókmenntahugtakið hafi hvílt eins og einhvers konar mara eða komplex á alltof mörgum rithöfundum (Hallgrímur Helgason var lengi eins og hrópandinn í eyðimörkinni í þessu samhengi) og svo fóru allir einhvern veginn bara að skrifa glæpasögur. Handbók um hugarfar kúa eftir Bergsvein Birgisson er hugsanlega fyndnasta skáldsaga íslenskrar bókmenntasögu, enda hvarf hún án þess að skilja eftir sig nokkur ummerki í umræðunni. Auður Ava Ólafsdóttir getur verið óskaplega fyndin en sem betur fer fyrir bókmenntaframa hennar hér á landi samtvinnar hún gamansemina öllu jafnan allskonar heimspekilegum og trúarlegum hugleiðingum. Mér finnst Steinar Bragi oft vera mjög fyndinn, en nokkuð deildar meiningar hafa verið um það meðal þeirra sem ég ræði bókmenntir við, og ekki allir á því að það sé viljandi. Nýja smásagnasafnið Allt fer kveður slíkar raddir í kútinn, sem betur fer.

Á þetta er minnst vegna þess að Óttaslegni trompetleikarinn og aðrar sögur eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur er marglaga verk og ýmsum kostum búið en er þó fyrst og fremst dýrlega fyndið textasafn, gamansemin leiftrandi, leikandi og skapandi.

„svört kímni brýnir klærnar“

Óttaslegni trompetleikarinn samanstendur af 36 sögum eða örprósum, stundum er um dæmisögur að ræða og – vitanlega – þá svífur andi gamansögunnar yfir vötnum. Umfang sagnanna er á bilinu frá stakri miðlungsefnisgrein upp í þrjár, fjórar síður, með rausnarlegum spássíum og hausum og fótum. Raunar er vandgert að skilgreina skrifin nánar en kynningarkáputextinn aftan á bókinni, og þetta gerist ekki á hverjum degi, er furðu naskur og býður upp á prýðisgóða lýsingu á eðlisþáttum og skapgerðareinkennum textans: „Hér leikur Sigurbjörg Þrastardóttir sér með ólíkar raddir og sögusvið sem spegla veruleikann frá óvæntu sjónarhorni. Dýr og menn bregðast við örlögum sínum í grátlegum og broslegum sögum þar sem svört kímni brýnir klærnar.“ Eins og áður segir finnst þessum lesanda hlátursstrengurinn mun sterkari í gegnum bókina en sá grátlegi – en svört er kímnin svo sannarlega.

Ennfremur er það rétt að „dýr og menn“ deila sögusviðinu og raunar má segja að sögusviðinu sé skipt nokkuð bróðurlega milli kynja og tegunda. Tólf prósar greina frá eða eru sagðir frá sjónarhorni karlmanna. Tólf prósar greina frá eða eru sagðir frá sjónarhorni kvenna og tólf aðrir greina frá eða eru sagðir frá sjónarhorni dýra. Efnisyfirlitið undir lokin gerir grein fyrir þessu en ég verð að viðurkenna að löngu áður en ég kom að því var ég farinn að krota „kk“ eða „kvk“ í hausinn á upphafssíðu (stundum einu síðu) sagnanna – og framanaf má stundum sjá „?“ en það væru þá dýrakaflarnir.

Jökulsárljónin

Skoðum ólíkar hliðar og birtingarmyndir húmorsins í bókinni, svörtu kímninnar sem er heldur betur með klær í „Jökulsárljónin“: „Jökulsárljónin eru innan við tugur og öll af sama stofni. Sagt er að þau nærist á dauðum selum. Auðvitað gætu þau ekki nærst á lifandi selum, það segir sig sjálft, nema þá helst ef þau snæddu nógu lítið af sérhverjum sel til þess að hann héldi áfram að vera lifandi selur.“ (36) Aðleiðslan hér er að eins konar fimm aura brandara („Auðvitað gætu þau ekki nærst á lifandi selum“), líkt og gefur að líta hér, „Morð var framið í Drápuhlíð í gær“ (64) og hér: „Rangeygði danskennarinn hefði vel getað átt áfallalausan feril ef hann hefði ekki líka þjáðst af holdsveiki.“ (84)

En þetta eru ekki „bara“ dæmi um klassískan brandarahúmor heldur eru þetta ljómandi vel heppnuð dæmi um klassískan brandarahúmor
En þetta eru ekki „bara“ dæmi um klassískan brandarahúmor heldur eru þetta ljómandi vel heppnuð dæmi um klassískan brandarahúmor, og réttlæta textabrotin þannig tilvist sína án þess að hafa nokkuð fyrir því. Til viðbótar er umræddur tónn oft bara uppstefið, heilu tónverkin byrja jú alltaf á einni nótu.

Hugum aftur að Jökulsárljónunum, en frásögninni af þeim var hvergi nærri lokið: „Jökulsárljónin draga vissulega heiti sitt af lóninu, en hvers vegna þau völdu það er önnur spurning. Til eru þeir sem telja að þessu hafi ráðið einstakt rímeyra þeirra (lón/ljón) en það dreg ég í efa.“ (36) Kenning sögumanns er önnur:

Aðrir álíta að þau hafi séð fyrir þann vaxandi ferðamannastraum sem setur svip á svæðið og bíði einfaldlega færis. Á hverju? spyrja enn aðrir, en ég tel það einsýnt. Ljónin bíða þess að meðalfjöldi ferðamanna á dag verði slíkur að enginn gefi því gaum þótt einn til þrír hverfi sporlaust. Ég segi einn til þrír, því miðað við fjölda ljóna myndi einn túristaskrokkur á dag varla duga. (36–37)

Með svona liprum hætti kynnir Sigurbjörg til sögunnar ferðamannaæði líðandi stundar og hér í bakgrunninum eru hryllingssögurnar sem fjölmiðlar hafa sagt af túristum í innviðum og útnárum landsins, auk þeirrar fráleitu staðreyndar að fjöldinn á víst að ná tveimur milljónum í ár. Og áfram er sagan af Jökulsárljónunum rakin, allt fram að (Roald) dahlískum stingandi endalokum.

Dópballöður og dauður fugl

Persónugalleríið er fjölbreytt. Áðurnefndur danskennari sem svo ógæfusamur er að vera holdsveikur, nútímalegur hjarðsælusmali (björgunarsveitamaður), trúður sem tekur af sér búninginn að kveldi fyrir framan baðspegilinn, líkt og kona sem lætur kyngervið falla í gólfið, Júdas dúkkar upp en þegar hann svíkur Jesús og beinir rómversku hermönnunum að garðinum nafntogaða þá sendir hann þá til Skallagrímsgarðs í Borgarnesi (87) í staðinn. Við kynnumst nautabananum fræga í Búðardal sem bókstaflega baðar sig í guðsgjöfum, að því undanskildu að hann býr í Búðardal og vinnur á gröfu og banar ekki nautum. Ekki má heldur gleyma íslenska dópballöðusöngvaranum sem á í nokkrum erfiðleikum með að laga sér-mexíkóska (eða Suður-Ameríska) listgrein að íslenskum veruleika. Loksins slær hann þó í gegn með lagi um þrjár ólíkar tegundir af kókaíni (geri ég ráð fyrir), og er það ekki síst þjóðlegt viðlagið sem hefur slegið í gegn hjá krökkunum:

Og Kjartan bara: Í alvöru?
Og Bolli bara: Nei, nei …
Og Guðrún bara: Víst!
Og Bolli bara: Já, en…
Og Guðrún bara: Jú, jú
Og Kjartan bara: Döh …

Þetta hefur mælst furðanlega vel fyrir, í ljósi þess að ég hef aldrei lesið Laxdæla sögu. En mér er sagt að þetta sé nokkurn veginn nákvæmt. (43)

Önnur saga er sett fram sem skólaritgerð um örlög Geirfuglsins, sem hörmuð eru mjög, en svo sett með óvæntum hætti í persónulegt samhengi af nemandanum:

Geirfuglinn var góður sundfugl og gat kafað í allt að korter í einu (þ.e. lengur en selur). Hann hræddist fátt og gat jafnvel ráðist með gogginum að óboðnum gestum. Hann hagaði sér vel í hjónabandi, hafði ágæta heyrn, ráma rödd og fitan hélt á honum hita. (Að sumu leyti minnti hann mig á langafa minn Aðalstein eftir að hann fór á elliheimili. Afi var uppstökkur og feitur, fór stundum í sund og heyrði það sem hann vildi heyra).

En geirfuglinn var, því miður fyrir sjálfan sig og okkur hin, ófleygur. Það var þess vegna auðvelt fyrir Sigurð Ísleifsson og Jón Brandsson árið 1844 að læðast að síðasta geirfuglinum í Eldey og kyrkja það. […] (Það hefði á svipaðan hátt komið sér vel fyrir langafa minn Aðalstein að vera fleygur þegar elliheimilislæknirinn gekk að sjúkrarúminu hans með hjartastuðtækið sem varð síðan hans bani […]) (44–45).

Ekki er nóg með að hér að ofan gefi að líta bestu dýralýsingu sem ég hef rekist á um langt árabil („Hann hagaði sér vel í hjónabandi, hafði ágæta heyrn, ráma rödd og fitan hélt á honum hita.“) heldur er jafnframt magnað hvernig tekst að kalla fram tóntegund barnaskólaritgerðarinnar, blanda henni saman við fínstillta kímnigáfu höfundar („Hann hagaði sér vel í hjónabandi“!) og lyfta svo öllu saman í nýjar hæðir gamansemi með því að kynna Aðalstein til sögunnar, sem ekki aðeins endurnýjar oftsagða söguna af síðasta geirfuglinum heldur ljær henni óvænta tilfinningalega vídd.

Óttaslegni trompetleikarinn og aðrar sögur eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur er óvenjuleg bók, ég þekki ekkert samkynja verk, en hún er jafnframt sýnidæmi um sjaldséð fyrirbæri, unað og gleði í texta. Þetta er bók sem fólk á eftir að þurfa að venjast því að annað fólk sé að lesa fyrir það upp úr.

Um höfundinn
Björn Þór Vilhjálmsson

Björn Þór Vilhjálmsson

Björn Þór Vilhjálmsson er dósent í almennri bókmenntafræði og kvikmyndafræði. Sérsvið hans eru skörun og samræða kvikmynda og bókmennta, tækni og menning, nýmiðlar af ýmsum toga, og íslensk kvikmyndasaga. Sjá nánar

[fblike]

Deila