Hallgrímur Helgason
Lukka
JPV útgáfa, 2016
Með Lukku hefur Hallgrímur Helgason skrifað bók sem fangar nándina, hlýjuna og fegurðina í sambandi manns og hunds, hann hefur með öðrum orðum skrifað bók sem er verðug viðfangsefninu.
Nítjándu aldar ljóðskáldið William Wordsworth fór jafnan í langa göngutúra um Vatnahéruðin frægu í Norður-Englandi. Einveran í náttúrunni var drifkraftur þeirra hugrænu ferla sem hann taldi liggja ljóðagerð til grundvallar og gönguferðirnar þannig í vissum skilningi undirliggjandi í eiginlegu manifestói rómantísku stefnunnar, innganginum að Lyrical Ballads sem hann ritaði ásamt félaga sínum Samuel Coleridge. Charles Dickens, samlandi Wordsworth, gekk tuttugu kílómetra á hverjum degi og þótti ekki mikið um, eins konar upphitun fyrir það lítilræði að skrifa nokkrar miðlægustu skáldsögur enskrar tungu. Þriðji Englendingurinn, Will Self, notaði ekki bifreiðar um langt skeið heldur fór allra sinna ferða fótgangandi, nokkuð sem kom blaðamönnunum sem sátu um þessa eitt sinn vonarstjörnu breskra bókmennta í opna skjöldu. Fólk á ákveðnum aldri sem bjó í Mosfellsdalnum minnist þess enn í dag að hafa séð árrisult nóbelsskáldið spranga inn eftir Helgadal með tíkinni hvern einasta dag. Gönguferðir og skáldskapur eru með öðrum orðum tengdari en ætla mætti í fyrstu. Og inn í þessa hefð skrifar Hallgrímur Helgason sig með nýrri ljóðabók, Lukku, en ljóðin eiga það öll sammerkt að hafa orðið til (í einhverjum skilningi) í göngutúrum Hallgríms með tíkinni sinni Lukku, eða í kringum hundahald.

En um leið afhelgar Hallgrímur rómantíkina sem svífur yfir vötnum hjá karlskáldunum hundelsku sem talin eru upp hér að ofan, hugmyndina um ljóðræna stillu og nánd við náttúruna sem tengja má Wordsworth og hugrenningatengslin við hina kviku borgarvitund sem Will Self kallar fram; afhelgar eða tekur ofan í töðuna kannski frekar:

Ég elti hana út í hélugras að morgni
á inniskónum í slopp
hanskaður þunnum plastpoka

Næturfrostið nartar í bera hæla
og minnir á þá staðreynd
að nú eru líka óvinir að vakna
um allan bæ

Á meðan ég bíð eftir að hún klári
sé ég þá fyrir mér tölta fram
með ólundarsvip eftir blaðinu
tilbúna að tæta hlutina í sig
af litlum diskum með morgunkaffinu

Beygi mig svo yfir afraksturinn
og geri merka uppgötvun

Hamingjan er heitur saur í hendi
heitur saur á nístingsköldum morgni (8)

Hundaeigendur kannast við að vera „hanskað[i]r þunnum plastpoka“ og bíða eftir að dýrið sinni þörfum sínum, sömuleiðis hvernig þessar sömu þarfir landa manni misjafnlega vel klæddum og vöknuðum út í hið séríslenska veðravíti sem ríkir lungann af árinu. Ljóðmælandi er reyndar illa stemmdur, á eða telur sig eiga óvini og hugsar nokkuð stíft til þeirra – hér verða skilin milli höfundarins og hundarins óljósari, greina má jafnt hunds- sem og mannlega eiginleika í þessum ólundarlegu og tannhvössu andstæðingum – en uppljómunin, hin póetíska epifanía, að hamingjan sé heitur saur í hendi, er ögrandi á prakkaralegan hátt. Þetta er hugsun sem ómögulegt er að samþykkja, frumstæð, eða frumbernsk, og í samhengi bókarinnar má jafnframt segja að hundasaurinn hrindi lesanda strax í upphafi úr þægindarýminu (ívitnað ljóð er meðal þeirra fyrstu), veki hann í öllu falli til aukinnar meðvitundar um að Hallgrímur hyggist beita natúralisma, a.m.k. á köflum. En eftir að saurinn er öruggur í hendi getur ljóðmælandi vissulega staulast aftur inn og kannski aftur upp í rúm að lúra. Þar kann hamingjan svosem að vera.

Ljóðabók Hallgríms kallast ekki aðeins á við göngutúrahefðina í bókmenntum heldur skrifar hann sig með Lukku inn í sjálfa hundasagnahefðina, þematískan streng í bókmennta- og menningarsögunni sem rekja má allt aftur til Forn-Grikkja. Eins og frægt er ræðir Plató hunda allmikið í Ríkinu (360 f.k.) enda voru hundar að hans mati heimspekilegustu dýrin. Kemur það til af því að seppi flaðri ávallt upp um eiganda sinn og taki honum fagnandi, og breytir þá engu þótt meðferð eigandans sé vond, en beri ókunnugan mann að garði gelti hann og sýni tennurnar. Þarna, útskýrir Plató, sýnir hundurinn sinn innri heimspeking, hann elskar þekkinguna (eigandann) en hatar hið óþekkta.

Fegursta erfiljóði Byrons lávarðs lýkur á hendingunni „Svo varða megi verund vinar rísa steinarnir / aðeins einn ég átti – og hér hvílir hann“ en það er ort í minningu Boatswains, hunds lávarðsins, og nefnist „Áletrun á minnisvarða um hund frá Nýfundnalandi“. Hlutur íslenska sveitahundsins í bókmenntum tuttugustu aldar er mikill (og lengra aftur mætti auðvitað skima) og það skilaði sér m.a. inn í kvikmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, Börn náttúrunnar, þar sem það síðasta sem Þorgeir gamli (Gísli Halldórsson) gerir þegar hann bregður búi í upphafi myndarinnar er að aflífa hundinn sinn í fallegu og átakanlegu atriði þar sem sagt er skilið við lífshátt heillar ævi. Þorgeir skilur þarna við vin sinn, en ekki húsdýr eða búfénað.

Í kvikmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, Börn náttúrunnar, lætur Þorgeir gamli (Gísli Halldórsson) það vera sitt síðasta verk þegar hann bregður búi að kveðja kæran vin.
Í kvikmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, Börn náttúrunnar, lætur Þorgeir gamli (Gísli Halldórsson) það vera sitt síðasta verk þegar hann bregður búi að kveðja kæran vin.

 Samband mannsins við þessa merkilegu skepnu hefur enda verið viðfangsefni ótal bóka, greina og sjónvarpsþátta. Fátt hef ég þó lesið á íslensku sem fangar margflókna innviði þessa „ástarsambands“ jafn vel og greinina „Hundar og fólk“ eftir Margréti Tryggvadóttur, fyrrum þingmann,sem birt var á Herðubreið í fyrra. Þar segir meðal annars:

Hundar hafa í gegnum aldirnar aðstoðað menn við veiðar með því að þefa uppi bráð, elta og drepa og/eða sækja hana, hjálpað til við skepnuhald og búskap, haldið meindýrum frá mat og eigum fólks, tryggt öryggi fjölskyldunnar, heimilisins og bústofnsins, dregið sleða, gætt barna, fundið týnt fólk, nýtt matarleifarnar og varað fólk við náttúruhamförum svo eitthvað sé nefnt. […] Rannsóknir sýna að fólk sem á hunda er hraustara en aðrir og því líður betur. Það sefur og hvílist t.d. betur því hundur á heimilinu veitir mun meiri og dýpri öryggistilfinningu en nokkurt öryggiskerfi. Það hefur að meðaltali lægri og heilbrigðari blóðþrýsting og rannsóknir sýna að blóðþrýstingur lækkar og fólk róast þegar hundi er strokið. Það er í betri líkamsþjálfun því það fer í göngutúr daglega og er líklegra til að stunda heilnæma útivist. Börn sem alast upp með dýrum hafa sterkara ónæmiskerfi og fá síður ofnæmi. Fólk sem á hunda þjáist síður af þunglyndi og víða um heim eru hundar notaðir í meðferðarskyni.

Engin önnur tegund er eins næm á mannlega hegðun og líðan. Þegar hundur horfir á mannsandlit horfir hann meira á hægri hluta þess. Hægri hluti andlits okkar sýnir að jafnaði sterkari svipbrigði en sá vinstri. Þetta gerist ekki þegar hundar horfa framan í aðra hunda eða dýr. Hundar, líka litlir hvolpar sem aldrei hafa hitt fólk, skilja bendingar manna. Kannski þykir einhverjum það ekkert merkilegt en úlfar gera það ekki og heldur ekki mannapar, okkar nánustu frændur.

Það sem Margrét tínir þarna til skýrir kannski að einhverju leyti af hverju nýjasta bók Hallgríms er eins og hún er, skírð í höfuðið á tíkinni hans og það sem meira er, hvernig hún miðlar því hvernig skynjun hundaeiganda á heiminum er öðruvísi en þeirra sem ekki njóta þeirrar gæfu að eiga fjórfættan vin. Fyrir það fyrsta má sjá að ljóðmælandi er reglusamur, að eiga hund ýtir undir heilsusamlega lifnaðarhætti. Maður þarf að staulast á fætur á morgnanna því ólíkt manni sjálfum er fjörkálfurinn með feldinn svo fullur af orku að mesta furða er að hann haldist í einu lagi. Sama líforka knýr á um að hundaeigandinn fari að minnsta kosti í tvo hressilega göngutúra á dag, meiri hreyfing en flestir fá í nútímasamfélagi.

Að ganga með hundi er ennfremur ekki eins og að treysta á tvo jafnfljóta til að koma sér milli staða í sínu daglega amstri. Eins og miðlað er í ljóðunum á fyrri göngutúrinn sér gjarnan stað áður eða í þann mund sem íbúar húsanna í kring, hverfið og borgin eru að vakna og svo aftur þegar borgarniðurinn hefur hljóðnað og fólk dundar sér í rólegheitunum inni hjá sér, vel sýnilegt vegfarendum í upplýstum herbergjunum. Sjálfur átti ég hund í fjórtán ár og fór að líða eins og ég þekkti tónlistarspekúlantinn og plötusafnarann í Þingholtunum sem byggt hafði við hús sitt fallegt og stórt herbergi til að hýsa safnið sitt, því þar sat hann gjarnan á kvöldin að grúska og hlusta þegar Edison og ég áttum leið fram hjá. Hjá Hallgrími verður röltið með Lukku tilefni margskonar hugrenninga um fólk, nágranna þeirra og ekki síst íslenska skammdegið, kuldann og myrkrið. Miðað við að skynjunarvettvangurinn er malbik og steypa og borgarlífið hefur Lukka skemmtilegt yfirbragð náttúruljóðabókar:

Og gatan sindrar
sem nýskúrað steinteppi
heim að harðsvörtum sófa á dekkjum (65)

/

Við göngum meðfram Miklubraut
í nýföllnum snjó

Ein af greinum grenitrés
skagar út á gangstíginn
margfingruð og búin litlum snjóskafli
svo minnir á útrétta hönd
manns við borð á veitingastað
sem bíður eftir að sér verði rétt saltið
nema hvað á handarbaki hans
er hraukur af hvítu ryki (76)

/

Hér voru svell í vetur
nú er túnið gegnsósa
og vellur upp vatn í hverju skrefi

Veturinn er haf sem sekkur í jörð (94)

Í fallegu ljóði er dregin upp mynd af því hvernig önnur hönd, helmingi minni en ljóðmælandans, bætist við til að klappa hundi, þannig að þar eru þau þrjú, tíkin, ljóðmælandi og dóttir hans, og tilfinningunni sem óinnvígðir segjast aldrei geta skilið, það hvernig hundurinn er fjölskyldumeðlimur á djúpstæðan hátt, er miðlað með hárfínum hætti. Hallgrímur hefur skrifað bók sem er verðug viðfangsefninu. Hann fangar nándina, hlýjuna og fegurðina í sambandi manns og hunds. Eftirfarandi andvarpsljóð er þar gott sýnidæmi, en Hallgrímur skilur sinn kæra vin og veit að andvarp hunds hefur aðra merkingu en hjá mönnum, það þýðir að verið er að fara að slaka. Það er við hæfi að við ljúkum þessari umfjöllun á lukkulegu andvarpi.

Feldgljáinn færist
undan hendinni sem strýkur

Augu lygnast aftur
af mannavöldum

Andvarp þenur búkinn
og líður síðan út
í sérhvern lið

og áfram út í rýmið
eins og blíðuhringir á vatni

Innan þeirra er frí
frá öllu fyrir utan

Lífið er ólíkt betra
eftir að ég eignaðist þetta
andvarpstæki (80)

Um höfundinn
Björn Þór Vilhjálmsson

Björn Þór Vilhjálmsson

Björn Þór Vilhjálmsson er dósent í almennri bókmenntafræði og kvikmyndafræði. Sérsvið hans eru skörun og samræða kvikmynda og bókmennta, tækni og menning, nýmiðlar af ýmsum toga, og íslensk kvikmyndasaga. Sjá nánar

[fblike]

Deila