Pláss heimagallerí

Nú þegar íbúðaverð í Reykjavík hefur rokið upp úr öllu valdi, og stórfyrirtæki, sem einhverjir vilja meina að tengist beint þeirri þróun, ryðja sér til rúms á óhugnanlegum hraða sem sykurfeður menningar og lista á Íslandi, er hressandi að kíkja á sýningu í nýju heimagalleríi í miðbænum.

Bæði listin og áhorfendur eru á góðum stað í heimahúsinu, fyrirkomulagið sækir fyrirmynd sína alla leið aftur til hellamálverkanna, og er þetta nýja gallerí kærkomin viðbót í fjölbreytta flóru íslenskra sýningarrýma.
Fátt þykir mér skemtilegra en heimagallerí, nema þá kannski að liggja uppi í rúmi. Opnanirnar eru oft hálf vandræðalegar, manni líður eins og maður sé að krassa einkapartý, en endar svo á spjalli í eldhúsinu. Fólk er opnara og óformlegra, og sýningarnar snertanlegri. Helgi Þorgils hefur starfrækt gallerí Gang um áratuga bil heima hjá sér og lagt þannig af mikilli gestrisni og hugsjón ómetanlegt framlag til íslenskrar myndlistar og sögu. Systkinin Oddný Eir og Uggi Ævarsbörn ráku um skeið heimagalleríið Dandruff Shroud and Space í Brooklyn. Varð ég þess heiðurs aðnjótandi að sýna þar og var sú sýning mér hin eftirminnilegasta og lærdómsríkasta. Bæði listin og áhorfendur eru á góðum stað í heimahúsinu, fyrirkomulagið sækir fyrirmynd sína alla leið aftur til hellamálverkanna, og er þetta nýja gallerí kærkomin viðbót í fjölbreytta flóru íslenskra sýningarrýma.

Þau Ragnhildur Jóhannsdóttir og Jóhann Ludwig Torfason stofnuðu og reka nú sýningarrýmið Pláss á heimili sínu að Skeggjagötu 2 og um þessar mundir má berja þar augum skemmtilega samsýningu sem opnaði á þeim lukkudegi 24. september. Kristín Ómarsdóttir, Sigurður Ámundason, Margrét Rut Eddudóttir og Ásgrímur Þórhallsson tefla saman verkum sínum á eftirminnilegan hátt og kryfja tilveruna með teikningum sem eru jafn ólíkar að stíl og þær eru vel inn rammaðar.

hugras_plass_kristin_omars
Kristín Ómarsdóttir

Það er með ólíkindum hversu vel góðum skáldum heppnast með myndformið
Skáldið Kristín Ómarsdóttir glímir hér við hefðbundið frásagnarform teikningarinnar og hefur betur. Það er með ólíkindum hversu vel góðum skáldum heppnast með myndformið, má þar nefna Pulitzer vinningshafann Elizabeth Bishop og mæla með því að fólk kynni sér myndlist hennar hið snarasta. Kristín skapar veröld í hverju verki, maður verður forvitinn um hvað er að gerast í þessum heimum. Hefur maður stigið inn í ópíumdyngju hér? Það er eitthvað á seyði sem hefur hlotið almennt samþykki og ég beiðist inngöngu. Konur og hafmeyjar neyta og njóta. Ótrúlega falleg eru blómin til minningar um látinn ástvin, og mitt uppáhalds verk í sýningunni er I have conceived a deep love for you. Ef engir gammar hafa keypt það ennþá þá falast ég hérmeð opinberlega eftir verkinu í skiptum fyrir heimatekið slátur.

hugras_plass_kristin_omars2
Kristín Ómarsdóttir

Kristín vinnur útfrá tilbúnum eða sönnum sögum sem hún vinnur fyrir sjálfa sig, og það er meðal annars þess vegna sem maður tengir strax við verkin. Hér er ekki verið að leiðbeina manni eftir skipulögðum göngustíg, heldur er manni stungið beint í samband við hugsanir og tilfinningar manneskju og rökleysu hennar.

Tölvusamkrull hefur haslað sér völl sem gildur meðlimur í félagi viðurkenndra listmiðla

Tölvusamkrull hefur haslað sér völl sem gildur meðlimur í félagi viðurkenndra listmiðla og skildi engan undra.
Tölvuverk Orlan þekkjum við öll að góðu utan úr heimi en margir telja að Ásmundur Ásmundsson sé fánaberi tölvukrulls-mynda á Íslandi. Hann má þó búa sig undir að verja titil sinn því hér er komin inn á sviðið sterkur myndlistarmaður, Margrét Rut Eddudóttir, sem beitir sér af engu minni krafti en hin tvö fyrrnefndu í að kryfja samfélagið, ögra viðteknum gildum og velta fyrir sér stöðu hins líkamlega á tækniöld. Hér er aftur stungið í samband en ólíkt teikningum Kristínar virðist myndefninu, kvenlíkamanum, stungið í samband við einhverja óljósa uppsprettu utan myndar. Martraðarkenndur súrrealismi.

hugras_plass_margret2
Margrét Rut Eddudóttir

Teikningar Sigurðar Ámundasonar eru fullar af örlæti og leikgleði. Ég horfi á myndirnar og lendi í tröllaheimum, um leið er ég í vatni og hluti af vatni sjálf. Teiknimynda-tvívíddar tæknina hefur Sigurður gert að sinni og maður fær á tilfinninguna að teikningarnar vefji sig sjálfar útúr honum án þess að vera planaðar fyrirfram. Einhverjir myndu kannski sjá áhrif frá Mugg í línunni. Æðislegur hraði og snöggur spuni fangar athygli manns og dregur mann nær í leit að vísbendingum um hvað er að gerast þarna inni í teiknirokinu. Á einum stað sé ég óræðan líkamshluta, á öðrum sé ég tennur og ég held áfram.

hugras_plass_sigurdur_amundason
Sigurður Ámundason og Ásgrímur Þórhallsson

Síendurtekningin og þráhyggjan í verkum Ásgríms Þórhallssonar vann heldur betur á
Orðið sem myndlist, texti sem teikning – hæfileikaríkur teiknari – einhverskonar heimild eða rannsókn. Blettirnir á blaðinu, uppbleyttir stafir horfnir og „mistök” sem verða partur af verkinu gera það að hlut sem maður vill helst snerta og handfjatla til að skilja. Einhverskonar hreyfing og work-in-progress tilfinning fylgir teikningunum og kannski vegna þess hvað þær eru marglaga; vatnslitadropar leka yfir stafi, skrifað er yfir endurteknar blek- eða vatnslitastrokur. Síendurtekningin og þráhyggjan í verkum Ásgríms Þórhallssonar vann heldur betur á eftir því sem ég skoðaði þau nánar.

hugras_plass_asgrimur
Ásgrímur Þórhallsson

Pappírinn bólgnar af hugmyndum eða ölvast, einhvers staðar í miðri atburðarrás frýs augnablikið eða stirðnar. Hér eru á ferð tvívíðir og ólíkir myndastyttuleikir fjögurra teiknara. Ég hvet fólk að koma við í Plássinu á sunnudagsröltinu.

Pláss Heimagallerí er staðsett að Skeggjagötu 2, 105 Reykjavík.
Opið miðvikudaga og sunnudaga milli klukkan 14-17, eða eftir samkomulagi.

Mynd ofan við grein: Margrét Rut Eddudóttir

Um höfundinn
Þórdís Aðalsteinsdóttir

Þórdís Aðalsteinsdóttir

Þórdís Aðalsteinsdóttir er myndlistarmaður. Hún útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands 1999 og með MFA úr School of Visual Arts í NY 2003. Þórdís býr og starfar í New York og Reykjavík.

[fblike]

Deila