Ljósmyndasýning Jóns Kaldal á Þjóðminjasafni Íslands.

Ljósmyndasýning á Þjóðminjasafni

[pullquote type=”right”]Portrett Kaldals og Kaldal í tíma og rúmi
Þjóðminjasafn Íslands
24. sept – jan. 2017[/pullquote]Sýning á verkum Jóns Kaldal á Þjóðminjasafninu er staðsett á jarðhæð og er tvískipt: Portrett Kaldals eru sýnd í Myndasal og sýningin Kaldal í tíma og rúmi á Veggnum.

Þegar gengið er inn á sýningu Kaldals tekur á móti grátt, svart og hvítt rými. Engir aðrir litir á veggjum, gólfi eða lofti. Hvort það teljast litir eða ekki-litir, það er önnur saga. Svarthvítar tjáningarríkar ljósmyndir opna inn í liðna tíma með listrænu auga ljósmyndarans. Allar eru þær eins innrammaðar með hvítt passe-partout í svörtum fíngerðum römmum. Myndirnar eru misstórar. Á einum af aðalveggjum salarins er myndunum raðað í stærðarröð frá þeirri stærstu til minnstu og svo aftur til stærstu – skemmtilegt atriði. Á öðrum veggjum er myndum raðað sem mósaík upp, niður og til hliðar og stundum eru myndirnar paraðar tvær og tvær. Snyrtileg umgjörðin er öll hin skipulagðasta og í horni rýmisins fyrir enda salar er merkilegur hlutur; ljósmyndavélin sem flestar myndirnar voru teknar á. Grátt háglansandi gólfið endurspeglar myndirnar og gler rammanna endurspeglar rýmið eða áhorfandann.

Ljósmyndasýning Jóns Kaldal á Þjóðminjasafni Íslands, gömul myndavél.

Sýningarskrá er engin. Á móti kemur að ýmsar lykilupplýsingar eru prentaðar á veggi salarins. Skemmtilegt hefði verið að hafa QR kóða beint inn á rafræna útgáfu efnis eins og sjá má á áhugaverðum skáldabekk Hljómskálagarðsins sem vísar snjallsímanotanda beint á upplesin ljóð stórskáldsins Jónasar Hallgrímssonar. Engin bók er til sölu en hún er í vinnslu segir starfsmaðurinn í móttöku Þjóðminjasafnsins. Bókin Kaldal – Aldarminning kom hins vegar út fyrir tuttugu árum þegar öld var frá fæðingu ljósmyndarans.

Ljóðrænustu portrettverkin á sýningu Kaldals eru mörg hver af konum.
Augljóst er að kynjakvóti var ekki í hávegum hafður á þessum tíma, ef litið er yfir salinn, enda ekki í samræmi við tíðarandann þá. Flestar myndir Kaldals á sýningunni eru portrettmyndir af þjóðþekktum íslendingum í karlkyni, einkum listamönnum og fræðimönnum auk bænda og presta, sem flestir ef ekki allir eru komnir undir græna torfu. Jón Kaldal á það sameiginlegt með hinum þýska August Sander (1876-1964) að hafa skapað merkilega heimild um sína samtímamenn. Sander kallaði lífsverk sitt í ljósmyndun Maður tuttugustu aldarinnar en hann ljósmyndaði íbúa heimabæjar síns Westerwald nálægt Köln.

Ljóðrænustu portrettverkin á sýningu Kaldals eru mörg hver af konum. Myndir af eiginkonu ljósmyndarans, Guðrúnu Kaldal, eru einstaklega hugljúfar og fallegar og minna á fegurð Endurreisnarkvenna, meðal annars í verkum Leonardo da Vinci. Myndin af Hönnu Þórðardóttur (um 1923-1925) ber einstakan blæ. Klæðin og anatómían, formfegurð og mýkt þess, hárgreiðslan, stelling handarinnar eru ljóðræn á Endurreisnarlegan hátt en um leið tímalaus því klæðin eða hárgreiðslan eru ekki tengjanleg við afmarkað tímabil. Mjúkur fókus fígúrunnar sem svo hverfur inn í skuggann minnir á sfumato Leonardós.

Ljósmyndasýning Jóns Kaldal á Þjóðminjasafni Íslands.

Myndirnar fremst á sýningunni af alskeggjuðum eldri mönnum eru tilfinningaríkar og djúpar eins og lífsreyndur svipur þeirra.
Í ljóðrænni myndum Kaldals horfir fígúran gjarnan í aðra átt, upp, niður eða til hliðar og er stundum teygð í stellingum. Myndirnar fremst á sýningunni af alskeggjuðum eldri mönnum eru tilfinningaríkar og djúpar eins og lífsreyndur svipur þeirra. Titilverkið, sem prentað er á boðskortið sem sent var út, minnir á sjálfsmyndina sem Leonardo da Vinci teiknaði á gamalsaldri. Þar snýr þó andlit Leonardos örlítið til hliðar en maðurinn í mynd Kaldals horfir beint fram. Bakgrunnurinn hjá Kaldal er gjarnan svartur eða dökkur og einangrandi eins og í verkum Albrecht Dürer.

Margir hafa séð verk eftir Jón Kaldal án þess að gera sér grein fyrir höfundi ljósmyndarinnar. Flestir kannast við ljósmyndina af höfundi Tímans og vatnsins, Steini Steinarr, og margar ljósmyndir af Jóhannesi Kjarval og Halldóri Laxnes. Ein mynd er einstaklega sterk, það er myndin af Finni Jónssyni listmálara. Hann horfi fram en samt ekki, alvörugefinn en ákveðinn. Stellingin er óvenjuleg og undin. Finnur varð 100 ára en lést árið 1993. Þær myndir sem ekki eru af tilteknum nafngreindum einstaklingum bera gjarnan einföld heiti á borð við kona, stúlka, kisa, koss fyrir pabba og eru ljúfar og hlýjar. Kaldal missti foreldra sína og bróður fyrir 10 ára aldur og var sendur í fóstur til föðurbróður síns og missti fáum árum síðar fóstru sína. Dauðinn og ljósmyndavélin eiga ýmislegt sameiginlegt en með henni hefur Kaldal fangað, stílíserað og túlkað mögulegar minningar tímans og fært okkur.

Ljósmyndasýning Jóns Kaldal á Þjóðminjasafni Íslands.

Vert er að mæla með að bregða sér á sýninguna og glöggva sig á verkum ljóslistamannsins.
Á sýningunni er þó ekki einungis um myndir af fólki að ræða. Annar áhugaverður vinkill á starf ljósmyndarans fléttast inn. Hér er um myndir af rýmum að ræða; heimili, skólar, sundlaug, verslanir. Áhugaverð innsýn í heim horfinna tíma. Hér bregður fyrir ýmsum húsgögnum sem þá voru ný og vinsæl í bland við eldri. Stundum eru myndirnar mannlausar en stundum ekki. Sá hluti sýningarinnar er vel afmarkaður og hálf falinn; gæti næstum gleymst að skoða þann hluta. Um einn vegg er að ræða hægra megin við inngang sýningarinnar sem nefnist einmitt Veggurinn. Hér eru margar lykilupplýsingar prentaðar á vegg sem vert er að glöggva sig á. Auðvitað væri þægilegt að hafa sýningarskrá í höndum sem taka mætti með heim en frá sjónarhóli tuttugustu og fyrstu aldar samfélagsþegns er þessi lausn umhverfisvænni – enginn pappír fer til spillis.

Vert er að mæla með að bregða sér á sýninguna og glöggva sig á verkum ljóslistamannsins.
Sýningin stendur fram í janúar 2017.

Ljósmyndir við grein: Hulda Hlín Magnúsdóttir

Um höfundinn
Hulda Hlín Magnúsdóttir

Hulda Hlín Magnúsdóttir

Hulda Hlín er listmálari og listfræðingur. Hún útskrifaðist með MA gráðu í listfræði frá Háskólanum í Bologna árið 2006 en hafði áður lokið námi í málaralist í Listaakademíu Rómar. Hulda Hlín hefur haldið einkasýningar, annast sýningarstjórn og tekið þátt í samsýningum auk þess að fást við ritstörf á sviði myndlistar. Meginrannsóknarsvið Huldu Hlínar er merkingarfræði hins sjónræna með áherslu á liti. Sjá nánar

[fblike]

Deila