Þegar neglt var fyrir sólina

Blái hnötturinn er nú leikinn fyrir fullu húsi í Borgarleikhúsinu en þetta er ekki í fyrsta skipti sem sagan er sett á svið. Leikritið var fyrst sýnt í Þjóðleikhúsinu árið 2001 auk þess sem sagan var sviðsett í Toronto árið 2005, við miklar vinsældir, og hefur einnig verið sýnt í Finnlandi og Þýskalandi auk fjölda áhugaleikhúsa um heim allan.
Sjálf bókin, með textum Andra Snæs Magnasonar og dásamlegum myndlýsingum Áslaugar Jónsdóttur, kom fyrst út árið 1999 og hefur síðan þá verið gefin út á fjölda tungumála víðs vegar um heim og hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga. Blái hnötturinn er því orðinn sautján ára gamall reynslubolti en er ekki af baki dottinn og hefur áreiðanlega aldrei verið litríkari eða líflegri en einmitt nú á fjölum Borgarleikhússins.

Leikgerð Bergs Þórs Ingólfssonar víkur ekki í neinum aðalatriðum frá upprunalega ævintýrinu sem gerist á óræðum tíma, lengst úti í geimnum á hnetti sem hýsir aðeins börn. Þessi börn eru sérstök fyrir þær sakir að að æskubrunnurinn í hjörtum þeirra er ótæmandi, þau eldast ekki, heldur eru „dæmd“ til eilífrar æsku og þar sem engir fullorðnir eru til að skipta sér af þeim gera þau það sem þau vilja, þegar þau vilja. Börnin lifa af gæðum náttúrunnar og það undursamlegasta sem þau vita er þegar fiðrildin í Ljósafjalli vakna til lífsins, fljúga út í sólskinið og elta sólina í heilan dag.

Fullkomið samfélag á fullkomnum hnetti

Samfélagið á Bláa hnettinum er eins fullkomið og verið getur – það er sönn útópía en svo vill til að orðið útópía merkir ‘ekki-staður’ eða ‘staðleysa’, og afneitar þannig eða dregur í efa eigin tilvist. Útópían er fyrirmyndarríki þar sem allir þegnarnir una glaðir við sitt og í tilviki Bláa hnattarins er um að ræða frumstæða paradís þar sem enginn hefur bitið í hinn forboðna ávöxt. Börnin una sér vel með það sem þau hafa og því eru engar sorgir, stríð eða reglur sem setja á þau hömlur.

Frjálsræði og hamingja útópíunnar kemur vel fram í búningum, sviðsmynd og látbragði leikaranna ungu. Fyrir ofan sviðið og allt í kring hanga eins konar glitrandi og sindrandi skrautborðar sem glampar á og þeir virðast skipta um lit eftir því hvaða ljós eru látin á þau falla og með hvaða hætti. Færanlegur og upphækkaður pallur er svo á sviðinu sjálfu. Í hann hefur Ilmur Stefánsdóttir leikmyndahönnuður látið stinga rúnnuðum prikum í öllum regnbogans litum sem virðast hafa fengið tie-die-meðferð. Pallurinn og prikin gegna margvíslegu hlutverki í leikverkinu og hinir lipru leikrarar stökkva, hanga og ganga á þeim eins og ekkert sé – og eins og orðið „öryggi“ sé ekki hluti af orðaforða íbúa Bláa hnattarins.

Það kemur áhorfendum því ekkert á óvart að þessi börn skuli rota seli, troða ofan í nestispokann sinn og borða svo með bestu lyst, fullkomlega hamingjusöm.
Búningarnir, sem María Th. Ólafsdóttir á heiður af, gefa það svolítið til kynna að búningakista leikhússins hafi sprungið með miklum látum. Það lítur að minnsta kosti ekki út fyrir að nokkur fullorðinn hafi valið fötin á blessuð börnin. Búningarnir eru litríkir og ósamstæðir en um leið afskaplega fallegir og sýna glögglega hversu vel María er að sér í heimi barnamenningar því í búningunum er að finna ótal vísanir í barnasögur og kvikmyndir. Hreyfingar barnanna eru frjálslegar, grófar og óheftar. Þau ganga, stappa og hlaupa, sletta til handleggjunum, faðma hvert annað og knúsa óhrædd og ófeimin. Það kemur áhorfendum því ekkert á óvart að þessi börn skuli rota seli, troða ofan í nestispokann sinn og borða svo með bestu lyst, fullkomlega hamingjusöm. Hinu útópíska skeiði lýkur hins vegar þegar fullorðinn maður, Gleði-Glaumur, kemur til hnattarins og með í för eru tæknin, sölumennskan og gróðafíknin.

Blái Hnötturinn

Á sérkostatilboðskjarnaverði

Koma Gleði-Glaums á Bláa hnöttinn fer ekki framhjá börnunum. Klunnalegt geimfarið, sem minnti mig á risastórt gervihjarta, þeytist niður á hnöttinn með miklum látum og út úr því valhoppar hrottalega skemmtilegur fullorðinn maður sem að eigin sögn er sá allra hressasti sem nokkru sinni hefur stigið fæti á hnöttinn.

Björn Stefánsson leikur Gleði-Glaum með miklum látum og allar fetturnar, bretturnar og trixin sem hann leikur á sviði fengu mig til að hugsa að hann hlyti að vera gerður úr gúmmíi, að minnsta kosti að hluta. Hann er raunar eins og teiknimyndapersóna, óeðlilegur en heillandi og síbreytilegur – og þvílík búningaskipti hef ég sjaldan séð. Á örskotsstundu þeytir Björn sér í og úr búningum og breytir karakternum eftir því sem við á. Hann er landkönnuður eina stundina, skrifstofumaður með stresstösku þá næstu, túristi á sólarströnd, gulllitaður gleðipinni og meira að segja uppdressuð stælpía á pinnahælum. Gleði-Glaumur minnti mig á ýmsar þekktar persónur úr sjónvarpi og kvikmyndum. Cruella de Vil úr 101 Dalmatíuhundi kom til hugar þegar hann tiplaði um á sparikjól og hælaskóm og ég var sannfærð um að körfuboltabúningurinn og hárkollan sem hann skartaði í einni senunni væru byggð á bandarísku fígúrunni Gulrótarhaus eða Carrot top.

Börnin vilja meira, þau vilja alltaf geta flogið og halda því til fundar við Gleði-Glaum sem segist geta leyst úr vandanum, og það kostar „bara eiginlega ekki neitt og minna en það“.
Gleði-Glaumur býður börnunum einstakt tilboð á miklum kjarakjörum – að láta alla drauma þeirra rætast og segist geta – á sérkostatilboðskjarnaverði með afslætti á útsölu – kennt þeim að fljúga. Börnin taka tilboðinu en geta aðeins flogið á meðan sólin skín. Um leið og skyggja tekur hlunkast þau niður á jörðina og húka þar rígföst eins og vængslitnar flugur. Í fyrsta sinn á ævinni hafa börnin ekki nóg og náttúran er þeim andsnúin – sólin skín ekki um nætur. Börnin vilja meira, þau vilja alltaf geta flogið og halda því til fundar við Gleði-Glaum sem segist geta leyst úr vandanum, og það kostar „bara eiginlega ekki neitt og minna en það“.

Í yfirgengilega hressu atriði neglir Gleði-Glaumur nagla í sólina í skiptum fyrir brot af æsku barnanna, sem hann sogar út úr þeim með risastórum ryksugubarka. Svo, fyrir bara oggupons af æsku, teflonúðar stuðstjórinn börnin svo þau þurfi aldrei að þvo sér og fiðrildaduftið, sem gerir þeim kleift að fljúga, skolast ekki af þeim. Áhorfendur skynja það vel hversu falskur Gleði-Glaumur er, en saklaus villibörnin gera það ekki. Og nú, í fyrsta skipti, eiga börnin í viðskiptum og sníða náttúruna að löngunum sínum. Frumstæð paradísin hefur misst aðdráttarafl sitt og börnunum verður sama um allt og alla nema sig sjálf.

Draumurinn verður að martröð

Sagan af Bláa hnettinum er gríðarstór gleðisprengja og börnin tuttugu og tvö mynda einstaklega góða heild á sviðinu. Söngatriðin eru mjög eftirminnileg en ekki hvað síst sitja eftir í minningunni stóru hópatriðin þar sem börnin syngja og dansa. Blandað er saman ýmsum dans- og söngvastílum og sérstaklega fannst mér takast vel upp að hafa allt í bland, hipp hopp, stomp, steppdans og jafnvel afró, en þessar frekar grófgerðu danstegundir rímuðu vel við óheft villibörnin og það féll vel að sýningunni að svo frjálsleg börn skuli tjá sig í dansi og söng. Hamingjunni gátu þau sannarlega komið til skila til áhorfenda en þau standa sig ekki síður vel þegar draumaveröldin verður að martröð.

Blái Hnötturinn

Um leið og börnin selja æsku sína til að gera lífið skemmtilegra breytast þau sjálf úr einhverju góðu í nokkuð slæmt. Þau verða sífellt frekari, dónalegri og heimtufrekari og eftir því sem þau fá fleiri drauma uppfyllta eignast þau nýja og eru því aldrei ánægð. Útópían snýst smám saman í andstæðu sína, dystópíuna. Aðrir íbúar hnattarins þjást svo villibörnin geti verið hamingjusöm. Hinum megin á hnettinum, þar sem sem sólin er hætt að skína eftir smíðastörf Gleði-Glaums, búa börn. Eilíft myrkur hefur lagst yfir þá hlið hnattarins og börnin lifa við sult og seyru. Hulda og Brimir fljúga óvart til hinnar myrku hliðar en þá verður litríkt sviðið dimmt og kuldalegt með aðstoð ljóss og skugga og drungalegar skuggaverur og óhugnanleg kvikindi þjóta um sviðið.

Maður fann næstum kuldann streyma af sviðinu og þær voru óteljandi tilfinningarnar sem bærðust í brjóstum Huldu og Brimars, og endurspegluðust í andliti og líkamstjáningu hinna ungu leikara, þar sem þau horfðust í augu við afleiðingar gjörða sinna
Hulda og Brimir kynnast börnum sem eru hrædd, köld og svöng og sjá aldrei til sólar. Maturinn er að verða búinn og ekkert er framundan nema dauðinn en þau reyna engu að síður að koma auga á fegurðina í heiminum. Maður fann næstum kuldann streyma af sviðinu og þær voru óteljandi tilfinningarnar sem bærðust í brjóstum Huldu og Brimars, og endurspegluðust í andliti og líkamstjáningu hinna ungu leikara, þar sem þau horfðust í augu við afleiðingar gjörða sinna, afleiðingarnar sem þeirra eigin gleði og hamingja hafði á líf annarra íbúa hnattarins.

Börnin ólánsömu aðstoða Huldu og Brimi við að komast heim til sín og þegar þangað er komið reyna þau að fá félaga sína til að sjá villu síns vegar. Það gengur erfiðlega að sannfæra þau um hversu mikið þau áttu áður og hverju þau hafa glatað í viðskiptum sínum við Gleði-Glaum en það tekst að lokum, sem betur fer. Þá þarf að stoppa Gleði-Glaum en hvernig það tekst til og hvert framhaldið verður skal látið ósagt hér.

Blái Hnötturinn 2

Hamingjan

Einfalt er að túlka Gleði-Glaum sem tákngerving markaðarins, kerfisins og spillingarinnar og börnin sem tákngervingu hinna manneskjulegu gilda sem spillt er með einsleitu kerfinu þannig að afdrif barnanna á myrkvuðu hliðinni skipta þau engu máli. Að minnsta kosti ekki það miklu máli að þau vilji láta eitthvað af sínum gæðum frá sér fara svo hin börnin geti haft það jafn gott og þau. En Blái hnötturinn er ekki aðeins saga um framkomu okkar við annað fólk heldur um meðferð okkar á jörðinni. Okkur er kennt að við getum ekki hirt endalaust af fiðrildadufti og rekið nagla eftir nagla í sólina án þess að það hafi afleiðingar fyrir einhvern einhvers staðar í heiminum. Umhverfið er á okkar ábyrgð og á það minnir Blái hnötturinn okkar. Þá má kannski túlka villibörnin sem ímynd þess sakleysis sem er svo mikilvægt að varðveita, þess sakleysis sem kann að meta heiminn eins og hann er en ekki eins og við gætum breytt honum.

Uppfærsla Borgarleikhússins á Bláa hnettinum er einstaklega vel lukkuð. Sviðsmynd, lýsing, búningar og leikgervi, leikur, söngur og dans mynda glæsilega heild sem lætur engan ósnortinn en það eru þó hinir ungu leikarar sem snerta flesta hjartastrengi.
Augljóst er að sagan endurspeglar ótta við samtíma okkar og framtíð. Samtíma sem tekur efnisleg gæði fram yfir andleg og beitir öllum brögðum við að koma hverju sem er í verð. Samtíma sem er stjórnað af markaðsöflum sem skeyta ekkert um tilfinningar eða mannleg gildi. Í þessu ljósi má túlka villibörnin sem tákn vonarinnar, sem vonina um bjartari framtíð og vonina um að við mennirnir getum breytt okkur. Börnin standa fyrir það sem þarf til að bjarga heiminum og Gleði-Glaumur það sem spillir honum.

Uppfærsla Borgarleikhússins á Bláa hnettinum er einstaklega vel lukkuð. Sviðsmynd, lýsing, búningar og leikgervi, leikur, söngur og dans mynda glæsilega heild sem lætur engan ósnortinn en það eru þó hinir ungu leikarar sem snerta flesta hjartastrengi. Krafturinn í hópnum er hreint út sagt ótrúlegur og þótt þau hafi misst dampinn örlítið þegar leið á fyrri hluta sýningar mættu þau tvíefld til baka eftir hlé. Hópurinn vinnur fallega saman og þau nutu sín ákaflega vel í hópatriðunum. Það vantaði stundum upp á að framsögn væri nógu skýr en slíkar aðfinnslur drukkna í húrrahrópum og lófaklappi yfir fögrum söngnum, hvort sem var í hópsöngsatriðum eða þegar dásamlegur einsöngur ómaði um salinn. Takk fyrir mig.

Ljósmyndir: Grímur Bjarnason

Um höfundinn
Helga Birgisdóttir

Helga Birgisdóttir

Helga Birgisdóttir er doktorsnemi í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands en doktorsverkefni hennar fjallar um barnabókmenntir. Helga hefur skrifað greinar, haldið fyrirlestra og kennt námskeið á sviði nútímabókmennta, einkum þó á sviði barnabókmennta og afþreyingarbókmennta.

[fblike]

Deila