Sígild nútímasaga

Það er leitun á jafn vel skrifuðu og marglaga verki og Horft frá brúnni eftir Arthur Miller. Það var skrifað í endanlega gerð árið 1956 og segir frá harmleik hafnarverkamannsins Eddie Carbone og fjölskyldu hans í New York.

Film noir

Stefan Metz setur upp þetta fræga verk Millers og leikmyndina gerir Sean Mackaoui. Þeir velja að ramma leikritið inn í stíl „film noir“ kvikmyndarinnar með sinni sterku og afgerandi notkun á ljósi og skuggum. Þetta er afskaplega vel heppnað því að „film noir“ er meira en dökkar kvikmyndir, stíllinn hefur fleiri og margþættari merkingarauka.

hugras_horft_fra_brunni2

„Film noir“ hugtakið þekkja margir í dag en það varð þó fyrst þekkt og útbreitt uppúr 1970. Þá var það notað um amerískar kvikmyndir frá fjórða og fimmta áratugnum en kvikmyndaframleiðendur þess tíma hefðu orðið langleitir ef einhver hefði kallað myndir þeirra þessu nafni. Það var sem sagt búið til eftir á og notað til að reyna að ná utan um innbyrðis ólíkar kvikmyndir sem voru oft svart-hvítar og oft „undirlýstar“ – og því kallaðar „dökku kvikmyndirnar“.

hugras_horft_fra_brunni3

Þetta er afskaplega vel heppnað val því að „film noir“ er meira en dökkar kvikmyndir, stíllinn hefur fleiri og margþættari vísanir.
Þessar kvikmyndir höfðu líka myrka drætti í efnistökum, þær fjölluðu um baráttu góðs og ills, byggðu á andstæðum, voru melódramatískar og erótískar. Um leið grófu þær oft undan eigin andstæðubyggingu því að konurnar voru sterkar, dularfull tálkvendi sem höfðu vald yfir körlunum í krafti kynþokka sem þær notuðu til að stjórna þeim. „Film noir“ kvikmyndirnar sýndu þannig gjarna óskýr félagsleg og sálfræðileg mörk. Mörk milli fantasíu og veruleika urðu líka oft óljós. Myndirnar virkuðu því stundum annarlegar og tvíræðar á áhorfendur og grófu þannig undan borgaralegu velsæmi.
Mörgum þóttu þær ruddalegar og grimmar. Allt þetta fellur gríðarlega vel að leikriti Arthur Millers.

horft-fra-brunni-2

Valinu á „film noir“ stílnum er fylgt út í ystu æsar í sýningunni. Leikmyndin er eins og kvikmyndasett, veggirnir eru flekar og framhliðar, hringsviðið er hugvitsamlega notað en hér er raunsæi ekki í fyrirrúmi. Eins og gefur að skilja skiptir lýsingin meginmáli. Ólafur Ágúst Stefánsson á heiðurinn af henni. Hér er ekkert verið að læðast með veggjum heldur er lýsingin dramatísk, lág ljós gegnum þoku, skuggavarp notað á áhrifaríkan hátt, frítt standandi kastarar á sviðinu/í settinu sjálfu, sterk stílfærsla og myndlist. Hljóðmynd Elvars Geirs Sævarssonar var sömuleiðis vel gerð og minnti bæði á sjötta og sjöunda áratuginn og dramatíkina í þessari sögu frá hafnarhverfinu við Brooklyn brú.

Girnd

horft-fra-brunni-4Hafnarverkamaðurinn Eddie Carbone (Hilmir Snær Guðnason) opnar hús sitt fyrir tveimur ungum frændum konu sinnar, Beatrice (Hörpu Arnardóttur). Þeir eru bræður, ólöglegir innflytjendur frá Sikiley og sá yngri verður ástfanginn í „dótturinni“ á heimilinu, hinni undurfallegu Katrínu (Láru Jóhönnu Jónsdóttur), sautján ára. Hún er frænka Beatrice og fósturdóttir þeirra Eddie. Og nú getur harmleikurinn hafist.

Arthur Miller var með grískan harmleik í huga þegar hann skrifaði verkið. Hann notar sögumann, lögfræðinginn Alfieri (Arnar Jónsson) sem ávarpar áhorfendur eins og kór í hamleikjunum sem bendir þeim á alvöru leiksins. Þrisvar varar hann Eddie við og þrisvar varar Bea, kona hans, hann við. Það er vaxandi þungi í viðvörunum en ekkert getur stöðvað þennan góða og heiðarlega hafnarverkamann í því að fylgja þránni sem mun leiða þau öll í glötun. Hann segist aðeins vilja það besta fyrir Katrínu, hann horfir frá brúnni til betri lífsskilyrða – en í raun getur hann ekki unnt nokkrum manni að fá Katrínu.

Strákar og stelpur

Í frægri sýningu belgíska leikstjórans Ivo van Hove á Horft frá brúnni í Young Vic í hitteðfyrra var leikið á hvítum gólffleti, áhorfendur höfðu ekkert annað en textann og mjög líkamlegan leik leikaranna sem sýndu hinar frumstæðu þrár og óskir sem knýja verkið áfram. Katrín var í þeirri uppfærslu gerð afar meðvituð um ungæðislegan kynþokka sinn og vald sitt yfir stjúpföðurnum. Í uppfærslu Stefans Metz er Eddie látinn vera eldri en Arthur Miller gerir ráð fyrir og slitnari. Katrín er aftur á móti gerð barnslegri, meira fórnarlamb, og þar með verða sifjaspellin skýrari og myndin af sambandi þeirra Eddies jafnframt svart-hvítari. Ég hefði heldur kosið meiri tvíræðni og flóknara samspil þeirra tveggja – en túlkun Metz gengur alveg upp í sýningunni.

hugras_horft_fra_brunni5

Lára Jóhanna bjó til heillandi Katrínu, tætta og togaða milli stjúpföðurins og hins fallega og nútímalega Rodolfo (Snorri Engilbertsson) sem Eddie skilur alls ekki. Hann skilur hins vegar Marco (Stefán Hall Stefánsson) hinn stóra, þögla og sterka mann sem á það eina markmið að forðast vandræði og senda peninga til Sikileyjar þangað til hann getur snúið heim aftur. Núna, sextíu árum síðar, hafa aðstæður breyst og ólöglegir afrískir flóttamenn koma unnvörpum til Sikileyjar í leit að betra lífi.

Á eftirstríðsárunum urðu miklar uppstokkanir í hugmyndum um karlmennskuna og feðraveldið átti mjög undir högg að sækja.
Rodolfo vill njóta lífsins, dansa, elska Katrínu og verða amerískur. Á eftirstríðsárunum urðu miklar uppstokkanir í hugmyndum um karlmennskuna og feðraveldið átti mjög undir högg að sækja. Margir af ungu strákunum vildu ekki verða feður heldur elskhugar, þeir vildu ekki verða fyrirvinnur eins og Eddie og Marco. „Hann er ekki eðlilegur,“ segir Eddie aftur og aftur við Alfieri. Og það eru sannarlega hinsegin undirtónar í þessu verki, skuggarnir djúpir eins og í svo mörgum af leikritum amerísku ný-klassíkurinnar.

hugras_horft_fra_brunni6Stelpurnar vildu heldur ekki verða eins og mæðurnar, ekki púlskepnur með barnaskara, heldur elskaðar af sjálfum sér og öðrum, glaðar og frjálsar. Katrín sýnir Beu frænku sinni æskuhroka og veit vel af afbrýðisemi hennar. Harpa Arnardóttir bjó til afskaplega fallega persónu úr Beatrice, rólega og klóka en staða hennar er býsna vonlaus, hún er bundin Eddie og velur hann fram yfir allt en hann hafnar henni fyrir Katrínu. Katrín þykist ekki skilja hana og Eddie er andsetinn. Í þeim eldi farast allir á einhvern hátt.

Horft frá brúnni er afskaplega vel skrifað leikrit, margslungið og býður upp á margs konar túlkanir og það gerir uppfærsla Stefans Metz og föruneytis hans líka.

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar

[fblike]

Deila