Eitthvað fyrir alla – líka fyrir fíla

hugras_bleiki_fillinn_litilÍslenski fíllinn er samstarfsverkefni Þjóðleikhússins og Brúðuheima hins margverðlaunaða Bernds Ogrodniks og er leikstýrt af Ágústu Skúladóttur. Bernd hefur í nógu að snúast en hann semur handritið, ásamt Hildi M. Jónsdóttur, auk þess sem hann sér um brúðugerð og brúðuleik, tónlist og sjálfa leikmyndina. Það var því vel við hæfi að það var hann sjálfur sem trítlaði niður tröppurnar sem liggja upp að leikhúsloftinu og bauð gesti hjartanlega velkomna á sýninguna. Ungir áhorfendur virtust sérlega ánægðir með svo vinalegar móttökur. Salurinn er bæði lítill og dimmur en þröngt mega sáttir sitja og eftir ábendingu frá Bernd hömuðust fullorðnir gestir við að raða sér og sínum þannig upp að ekki skyggði á neinn og allir sæju vel á sviðið. Þegar ró var komin í salinn brá Bernd sér baksviðs og sýningin hófst.

Ayodele er svo heppin að hún kynnist kríu einni sem segir henni frá útópíunni Íslandi þar sem allt flæðir í vatni – allir geta drukkið eins og þeir vilja auk þess sem nóg sé af grasi.
Sagan hefst í Afríku og fyrstu senurnar eru án orða. Tónlistin sem ómar gefur til kynna hvar í heiminum við erum stödd og sá hluti sviðsmyndarinnar sem notaður er í þessum senum er óneitanlega hefðbundið „afrískur“ að sjá, hvort sem er náttúran eða vísanir í afríska myndlist. Sögð er sagan af því hvernig tveir fílar hittast við vatnsból, fella hugi saman og eignast lítið barn – hana Ayodele (Vigdís Hrefna Pálsdóttir). Þurrkar herja á Afríku, vatnsbólið þornar upp og foreldrar fílsungans deyja. Eftir stendur Ayodele munaðarlaus og þarf að leita að nýju vatnsbóli. Í þessum hluta leikritsins eru ekki notaðar eiginlega brúður heldur það sem helst mætti kalla dúkkulísur og leikið er með ljós og skugga til að skapa rétta stemningu en Ólafi Ágústi Stefánssyni tekst þarna einkar vel upp. Þetta er fallegur en hægur kafli í verkinu og mjög svo vel virku fylgisveinar mínir voru farnir að iða ansi mikið þegar inn á neðri pall sviðsins þrammaði loksins Ayodele, fagmannlega stjórnað af Bernd, og hóf upp raust sína.

hugras_bleiki_fillinn3

Ayodele er svo heppin að hún kynnist kríu einni (Lára Jóhanna Jónsdóttir) sem segir henni frá útópíunni Íslandi þar sem allt flæðir í vatni – allir geta drukkið eins og þeir vilja auk þess sem nóg sé af grasi. Hún leggur af stað í leiðangur en ferðalagið reynist henni erfitt og þegar hún er við það að gefast upp á að synda til Íslands fær hún far hjá vingjarnlegum hvali (Ragnheiður Steinþórsdóttir) sem stefnir á Íslandsmið. Ayodele er uppnumin við komuna í Paradís og sér að allt sem krían hafði sagt henni, er satt: Nóg er bæði að bíta og brenna, hér ætti henni sannarlega að líða vel. Íslensku dýrin eru hins vegar ekki ánægð með þennan framandi gest. Kindurnar finna henni allt til foráttu og flæma fílinn upp á fjöll sem hefur þá leit sína að hinum alvísa ref sem getur veitt henni góð ráð. Með í för eru svo tvær mýs (Snorri Engilbertsson og Oddur Júlíusson), hrafn (Ólafur Egill Egilsson), kýr (Tinna Lind Gunnarsdóttir) og hestur (Stefán Hallur Stefánsson) en þetta eru vinir Ayodele og vilja henni allt hið besta. Á langri leið upp snarbratt fjallið sýnir Ayodele sig og sannar þegar henni tekst, sérstöðu sinnar vegna, að bjarga kind í sjálfsheldu. Í framhaldi af því fær hún blessun hinna fúlu kinda og refurinn vísi blessar dvöl hennar á Íslandi.

Sem betur fer eru persónur leikritsins sumar drepfyndnar, án þess hefði boðskapurinn örugglega kaffært frásagnargleðina.
Íslenski fíllinn er ekki alls ekki flókin saga og er örugglega ekki ætlað að vera það. Engu að síður ber hún mikinn boðskap sem tengist umhverfisvanda jarðarinnar og flóttamannavandanum. Afstöðu Íslendinga, og raunar allra sem búa við svipuð forréttindi og við, er lýst mjög vel og sögu sem þessa er auðvelt að nota í samræðum við unga leikhúsgesti til að ræða ýmis samfélagsmein. Sem betur fer eru persónur leikritsins sumar drepfyndnar, án þess hefði boðskapurinn örugglega kaffært frásagnargleðina.

hugras_bleiki_fillinn

Íslenski fíllinn er skemmtilegt leikrit og persónurnar eru það líka. Ayodele er ljúf hnáta og áhorfendur finna ósjálfrátt til með henni. Hrafninn, leiðsögumaður hennar á Íslandi, er óneitanlega fyndnasta persóna leikritsins auk þess sem mýsnar eiga sína spretti. Áhorfendum líkar hins vegar verst við hinar grautfúlu kindur sem koma illa fram við Ayodele. Raddir leikbrúðanna eru leiknar af bandi, sem kom ágætlega út þrátt fyrir einstaka hnökra. Bernd stýrði brúðunum af mikilli leikni og ekki skemmdi fyrir að hann sjálfur var hluti af sýningunni með látbragði sínu og svipbrigðum. Þannig varð það aldrei ankannalegt að hann skyldi sjást fyrir aftan sviðið eða vera augljóslega að stýra brúðunum heldur fékk maður á tilfinninguna að hann væri jafnvel einn af leikurunum.

Vissulega þurftu þeir tíma til að komast inn í söguna og ná taktinum í sýningunni en þegar það var komið sátu þeir gjörsamlega heillaðir.
Brúðurnar eru allar undurfagrar en skemmtilegastar þóttu mér kindurnar sem voru íklæddar íslenskum lopapeysum í sauðalitunum með hefðbundnum íslenskum mynstrum. Sviðið sjálft er sannarlega stórbrotið þrátt fyrir að vera lítið. Það eru ekki notaðir margir leikmunir fyrir utan sjálfa sviðsmyndina sem var einföld og látlaus, að mestu í dempuðum litum, og ákaflega heillandi. Sviðsmyndinni gat Bernd „snúið“ áfram þannig að hún breyttist eftir því sem leið á leikritið. Að auki var hluti hennar á hjörum bæði til vinstri og hægri og þannig hægt að „opna“ hluta sviðsins og loka þegar við átti.

Íslenski fíllinn er lágstemmt leikrit í hægum takti, óralangt frá ógnarhröðum klippingum, neonlitum og æðisgenginni tónlist nútímabarnaefnis. Það hefur eflaust verið freistandi fyrir leikstjórann að færa sýninguna í nútímalegra form, ef svo má segja, en ég er fegin að Ágústa Skúladóttir lét ekki undan þeirri freistingu. Það verður þó að viðurkennast að ég hafði áhyggjur af því að ógnarspenntir samferðarsveinar mínir yrðu leiðir og óþreyjufullir, því sjálfri fannst mér sýningin full hæg á köflum. Svo var þó ekki. Vissulega þurftu þeir tíma til að komast inn í söguna og ná taktinum í sýningunni en þegar það var komið sátu þeir gjörsamlega heillaðir. Að sýningu lokinni risu þeir á fætur, hrópuðu húrra, klöppuðu sem mest þeir máttu og þustu svo með öllum hinum börnunum að heilsa upp á Bernd og skoða leikbrúðurnar.

Um höfundinn
Helga Birgisdóttir

Helga Birgisdóttir

Helga Birgisdóttir er doktorsnemi í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands en doktorsverkefni hennar fjallar um barnabókmenntir. Helga hefur skrifað greinar, haldið fyrirlestra og kennt námskeið á sviði nútímabókmennta, einkum þó á sviði barnabókmennta og afþreyingarbókmennta.

[fblike]

Deila