Mynd af Sigurði Sigurjónssyni sem leikur Ove

Hrörnar þöll …

Sænska höfundinn Frederik Backman grunaði lítið hvílíka sigurför gamli fýlupokinn Ove ætti eftir að fara, fyrst í metsölubók, svo í bíómynd og nú í leikriti. En það gerði Ove og nú er hann kominn á svið Þjóðleikhússins í túlkun Sigurðar Sigurjónssonar og þýðingu Jóns Daníelssonar.

Gamall og nýr sannleikur

Í hinu forna kvæði Hávamálum segir: Hrörnar þöll/sú er stendur þorpi á./Hlýr-at henni börkur né barr./Svo er maður/sá er manngi ann./Hvað skal hann lengi lifa?

hugras_ove_1

Þessi meira en þúsund ára speki er kjarninn í sögu Ove. Hann er ekkill á eftirlaunum sem saknar konu sinnar sárt og finnur sér engan tilgang í lífinu. Hann ákveður því að stytta sér aldur en allt í einu fær hann engan frið til þess. Í raun vill Ove ekki deyja en hann telur sig enga vini eiga og getur alls ekki tjáð kvöl sína. Þegar upp er staðið reynist það guðsgjöf þegar hin magnaða persneska Parwani flytur í húsið á móti með sína stóru og stækkandi fjölskyldu og byrjar að skipta sér af lífi Ove. Hún minnir hann á konuna hans, Sonju, og fær hann smám saman til að samþykkja lífið og kærleikann. Þá hlúa bæði börkur og barr að gamla stofninum. Þetta er einföld saga en mjög falleg.

Maður sem heitir Sigurður

Bjarni Haukur Þórsson leikstýrir Sigurði Sigurjónssyni sem leikur Ove og öll hlutverk þeirra sem koma við sögu hans. Á fyrsta tilveruskeiði Ove, þegar hann var ekkert nema hryssingurinn, var framsögnin hröð og óskýr og blæbrigði týndust en um leið og breytingarferlið var hafið náði Sigurður utan um Ove og hreif áhorfendur með í sorg hans og gleði. Óhjákvæmilegt er að taka undir það með Silju Aðalsteinsdóttur að þessi leikari er þjóðargersemi.

hugras_ove_3

Einfaldleiki

Leikmynd Finns Arnar Arnarsonar var hið einfalda og staðlaða sænska millistéttarhús sem umgjörð um Sonjulaust líf Ove, eins og tilbúið undir tréverk, nakin og skrautlaus skel. Hljóðmynd Kristjáns Sigmundar Einarssonar og Franks Hall var látlaus, sjálfspilandi píanó skapar nærveru einhvers sem eitt sinn lék á þetta hljóðfæri, en er nú ekki lengur til staðar. Í forgrunni var saga Ove.

Miðað við fögnuð áhorfenda á frumsýningu er hér komið (fyrsta) kassastykki Þjóðleikhússins í vetur.

hugras_ove_2[line]LJósmyndir: Hörður Sveinsson

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar

[fblike]

Deila