Sagan af Sóleyju Rós og Halla

Á tvískiptum hvítum palli á miðju sviðinu í Tjarnarbíó standa Sóley Rós, ræstitæknir, og Halli, maður hennar. Þau vilja segja áhorfendum frá reynslu sinni og miklum missi. Á pallinum eru tveir stólar, kringlótt borð og tré í potti eins og í spjallþætti í sjónvarpinu en sagan sem er sögð er ekkert léttmeti.

Frábær leikur

Sólveig Guðmundsdóttir leikur Sóleyju og ER Sóley – hún leikur hana svo vel að unun er á að horfa. Hún leggur Sóleyju Rós bæði til kokhreysti og viðkvæmni, öfga sem aldrei eru keyrðir of langt og ómótstæðilegan húmor að auki. Sveinn Ólafur Gunnarsson leikur Halla, sem kemst lítið að þegar Sóley er á sviðinu, en leikur lengst af þögult hlutverk á móti henni með svipbrigðum sem segja meira en nokkur texti. Hann var óborganlegur. Leikritið er fyrst og fremst saga Sóleyjar en öfugt við hana getur hann ekki sagt sögu sína – ekki einu sinni samstarfsmönnum sínum. Samleikur þeirra Sveins Ólafs og Sólveigar var mjög góður og nákvæmur en við sáum það líka í samleik þeirra í býsna ólíkum hlutverkum í leikritinu Illsku í Borgarleikhúsinu þar sem hún lék menntakonuna Agnesi og hann djöfullega nýnasistann Arnór.

hugras_soley_raestitaeknir2

Barnið

Sóley er alþýðukona, töffari og Hvunndagshetja sem bæði í eigin augum og annarra heldur öllu gangandi. Hún leggur metnað í að vera góður starfsmaður, skulda engum neitt og vera ekki með neitt væl. Mest leggur hún þó upp úr því að vera góð móðir fyrir börnin sín þrjú. Það er burðarásinn í sjálfsmynd hennar. Halli á eitt barn fyrir og þau ætla að koma sér upp einu barni saman en í þetta sinn fer það illa.

Eftir að persónan og saga hennar hefur verið kynnt tekur við sú saga sem Sóley vill segja en það er sagan af barnsmissi þeirra Halla og reynslu hennar af Fæðingardeild Landspítalans. Þegar Sóley byrjar að segja þá sögu, sem greinilega klýfur heim hennar í tvennt, eru stólar og borð fjarlægð af pallinum, helmingar pallsins dregnir sundur og úr verður sjúkrastofa með tveimur rúmum. Ég ætla ekki að rekja sögu Sóleyjar því að hún er samslungin persónunni sem Sólveig býr til á sviðinu og hafði djúp áhrif á alla í salnum. Sjáið það sjálf.

 
Kulnun

Starfsfólk í heilbrigðiskerfinu, læknar og hjúkrunarfræðingar og annað starfsfólk, hefur margoft varað við því að starfsálagið á ríkisspítalanum sé óbærilegt. Þau hafa margsagt að það bjóði mistökum heim og valdi kulnun í starfi. Starfsfólkið hefur líka bent á að ef það fái ekki lögboðinn frítíma komi það niður á fjölskyldulífi, það nái ekki að hvílast og nærast, andlega og tilfinningalega. Næsti bær við er einmitt áður nefnd kulnun í starfi og tómlæti sem menn skammast sín fyrir fyrst en forherðast svo þegar lengra líður. Margt heilbrigðisstarfsfólk er að reyna að snúa þessari þróun við en þegar mistökin hafa verið gerð snúa menn bökum saman.

Sjúklingurinn sem er hræddur, reiður, aumur og ofurseldur – hvað getur hann gert? Gunnþórunn Guðmundsdóttir segir í pistli í leikskrá: „Engu að síður er það enn þannig að sumar raddir eru taldar mikilvægari en aðrar, hafa meiri vigt, heyrast víðar, er hlustað á af meiri athygli.“ Sóley Rós og Halli hafa ekki menntun, peninga eða sjálfstraust til að stefna heilbrigðiskerfinu. En Sóley getur sagt sögu sína og borið þar með fram ásökun sína: Einhver hefði átt að hlusta …

hugras_soley_raestitaeknir4

Einlægni

María Reyndal leikstjóri og Sólveig Guðmundsdóttir unnu leikritið upp úr viðtölum við Sóleyju sjálfa, 42 ára ræstitækni, móður og ömmu á Akureyri. Leikgerðin er afar vel gerð og einlægnin er aðalsmerki sýningarinnar. Rödd Sóleyjar Rósar verður skýr og sannfærandi í textanum, hún er jarðbundin og stéttvís og þegar hún hafnar í stolti sínu útfararstyrk fyrir barnið, segir hún okkur um leið hvað líkkistan kostar. Hún kostar næstum vikulaun verkakonu. Þau Halli ætla að komast yfir sorgina og fyrirgefa en leikhússgestum verður fullljóst að Sóley Rós getur engu gleymt og ekkert fyrirgefið.

Eftir sýninguna voru umræður sem Steinunn Ólína stýrði skörulega. Augljóslega höfðu áhorfendur orðið fyrir miklum áhrifum af sýningunni enda vekur hún óteljandi umhugsunarefni. Ein konan sagðist deila reynslu Sóleyjar en aldrei hafa talað um hana þó hún stæði sér ljóslifandi fyrir hugskotssjónum enn þann dag í dag. Menn sögðu líka að þeir vildu óska að heilbrigðisstéttirnar sæu þetta leikverk og það vona ég líka – það er ekki dæmandi heldur vekjandi.

[line]
Höfundar leikverks: María Reyndal og Sólveig Guðmundsdóttir.
Leikarar: Sólveig Guðmundsdóttir og Sveinn Ólafur Gunnarsson
Leikstjórn: María Reyndal
Ljósa – og sviðshönnun: Egill Ingibergsson
Myndbönd: Pierre Alain Giraud
Búningar: Margrét Einarsdóttir
Tónlist: Úlfur Eldjárn
Hár og förðun: Diego Batista
Framkvæmdastjórn: María Heba Þorkelsdóttir

Ljósmyndir: Steve Lorenz

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar

[fblike]

Deila