Einstakt tækifæri til að kynnast handritunum

Þessa dagana stundar stór hópur víðs vegar að úr heiminum nám í Árnastofnun og Landsbókasafni til að kynnast íslenskum handritum frá fyrstu hendi. Hér eru á ferðinni rúmlega 60 nemendur á árlegu námskeiði Alþjóðlega sumarskólans í handritafræðum, sem haldinn er til skiptis í Reykjavík og Kaupmannahöfn. Skólinn var stofnaður árið 2004, og er nú þrettánda starfsár sumarskólans sem er samvinnuverkefni Árnastofnunar í Reykjavík, Den Arnamagnæanske Samling í Kaupmannahöfn og Landsbókasafns Íslands-Háskólabókasafns.

Mynd af nemendum við skrifborðin sín

Guðrún Nordal, forstöðumaður Árnastofnunar, hefur kennt útgáfu dróttkvæða við handritaskólann undanfarin ár eða þegar hann hefur verið haldinn á Íslandi og segir að um mikilvægt ræktunarstarf sé að ræða. „Aðsóknin er mikil og við fáum til okkar góða nemendur sem sýnir þá miklu grósku sem er í kennslu og rannsóknum á íslenskum miðaldabókmenntum víða um heim. Hópurinn sem ég var að kenna í gær var mjög öflugur.“ Markmiðið sé að koma upp hópi með þekkingu á handritavinnu og gefa nemendum tækifæri til að vinna beint með frumheimildir. „Hér geta þau verið inni á söfnunum þar sem handrit eru varðveitt og það er mjög einstakt því það er ekki víða hægt. Við það fá þau mun meiri skilning á gerð og varðveislu handritanna og því hvernig textar hafa geymst um aldir.“

summerschool3Í skólanum gefst nemendum kostur á að kynnast handritunum, þeir læra að lesa þau, fræðast um gerðir handrita og átta sig á samhengi þeirra, en fá líka fyrstu innsýn í útgáfu þeirra. Og þetta eru ekki bara handrit frá 13. og 14. öld heldur ekki síður yngri handrit, allt til 19. aldar. Mörg þeirra eru varðveitt í Landsbókasafni Íslands-Háskólabókasafni. „Skólanum er skipt í þrjú stig: grunnnámskeið, millistig og svokallaðan „master class“ þar sem nemendur fá tækifæri til að vinna saman að fyrstu tilraun til útgáfu texta. Það geta verið alls konar textar og frá ýmsum tímasummerschoolbilum; sögur, kvæði eða rímur, sem hafa aldrei verið gefin út áður og gaman er að beina athygli að. Þetta eru bæði gamlir textar og nýlegri, en nú eru nemendur til dæmis að vinna við íslensku riddarasöguna af Fástusi og Ermengá. Þeir halda svo oft áfram að vinna með handritin eftir að skólanum lýkur og það hefur verið gaman að fylgjast með því hvernig upp úr því hefur sprottið rannsóknarsamstarf.“ Afrakstur slíkra verkefna hefur birst á ritrýndum vettvangi, m.a. í tímaritunum Griplu og Opuscula.

Margir verða mjög snortnir að komast svona nálægt sjálfu upphafinu, ef svo má segja, og fá að vinna með frumgögnin, enda er það dálítið sérstakt.
Í náminu er sem sagt byrjað á grunninum og svo byggt ofan á og flestir nemendur mæta þrjú ár í röð, þótt aðrir hafi undirstöðu og geti farið beint á miðstigið. „Fólk er yfirleitt í meistara- eða doktorsnámi og hefur valið sér að leggja stund á miðaldafræði, en grundvallarforsenda til að geta tekið þátt er kunnátta í tungumálinu. Þetta er fyrsta tækifærið fyrir suma að vinna með frumheimildir sem er auðvitað mikilvægt í rannsóknum á fyrri tíma bókmenntum. Hingað kemur líka stundum fólk sem hefur verið að vinna í fræðunum um hríð en misst af tækifæri til að læra um handrit á þennan hátt. Margir verða mjög snortnir að komast svona nálægt sjálfu upphafinu, ef svo má segja, og fá að vinna með frumgögnin, enda er það dálítið sérstakt. Nemendur kynnast jafnframt öllum þeim vandamálum og áskorunum sem því fylgja, sérstaklega þegar textar eru geymdir í mörgum handritum, frá ólíkum tímabilum, og þá getur reynst flókið að gefa þá út. Þau kynnast því mörgum hliðum handrita og fá fræðslu frá kennurum frá ýmsum löndum.
Síðast en ekki síst skapast hér stórkostlega skemmtilegt samfélag milli stúdenta frá ólíkum löndum sem læra að vinna saman.
Síðast en ekki síst skapast hér stórkostlega skemmtilegt samfélag milli stúdenta frá ólíkum löndum sem læra að vinna saman. Það finnst mér hafa heppnast gríðarlega vel og það að leiða þau saman er ekki síst mikilvægt. Þetta er stíft viku námskeið. Einn daginn fá þau reyndar að fara í ferðalag en annars eru þau bara í skólanum og það er gefandi og mikilvægt að vinna svo mikið saman. Fólk hittist ár eftir ár og við sjáum að það myndast mikilvæg tengsl, einnig milli nemenda og kennara.“

summerschool02

Frumkvæðið að skólanum kom frá erlendum nemendum sem spurðust fyrir um hvort hægt væri að bjóða upp á slíkt námskeið um norræn handrit, og var hugmyndinni tekið fagnandi í Kaupmannahöfn og í Reykjavík. Reynslan hefur sýnt að þörfin var svo sannarlega rík. Stjórn skólans er í ár í höndum Margrétar Eggertsdóttur rannsóknarprófessors og í hópi kennara eru fyrri nemendur við skólann, sem eru í dag fullgildir fræðimenn og starfa við háskóla víða um lönd. Sú staðreynd sýnir mikilvægi þessa ræktunarstarfs kannski allra best.

Fræðasviðið hefur eflst á síðustu árum og aukinn áhugi er á íslenskum miðaldafræðum
Guðrún segir að þótt erfitt sé að meta árangur skólans á nákvæman hátt sé augljóst að það haldist í hendur við aukinn áhuga á íslenskum miðaldafræðum. „Á alþjóðlegum fornsagnaþingum taka þátt æ fleiri ungir fræðimenn, sem oftar en ekki hafa sótt skólann eða námsbrautina Medieval Icelandic Studies við Háskóla Íslands sem sett var á fót árið 2006 – tveimur árum eftir að handritaskólinn var stofnaður. Ég átti þátt í upphafi þess náms og það hefur verið ævintýri líkast að fylgjast með hve því hefur vaxið fiskur um hrygg. Fræðasviðið hefur þannig eflst á síðustu árum og þetta styður mjög við hvert annað. Þá er mikilvægt að hafa í huga að okkur sem geymum frumheimildir ber skylda til að miðla þessum arfi, ekki síst til upprennandi útgefenda og fræðimanna. Sú miðlun skilar sér í öflugum hópi fræðimanna víða um heim. Grunnvinna við útgáfu eykur skilning á textanum sjálfum og samhenginu í handritunum, hvernig þau eru varðveitt og hvers konar gripur handrit er – og hlýtur því að dýpka fólk sem rannsakendur.“

[fblike]

Deila