Það sem þú gerir skiptir máli

Jane Goodall braut blað í sögu vísindanna þegar hún lagðist í rannsóknir á félagslegri hegðun og atferli simpansa í Tanzaníu fyrir meira en hálfri öld. Hún sýndi, í einfölduðu máli, fram á, þvert á það sem viðurkennt var, að simpansar hefðu og sýndu tilfinningar og að þeir væru með mismunandi persónuleika, rétt eins og menn. Rannsóknir hennar eru því afar mikilvægur hluti af rannsóknum og skilningi á þróun mannsins.
jane_national_geographic
National Geopgraphic 1965

Þegar ég var barn birtust fréttir um Goodall í blöðum og tímaritum, myndir af henni og öpum, ýmist bavíönum eða simpönsunum, kannski þeim Fifi og Flo, og í sjónvarpinu voru sýndar fræðslumyndir. „Jane Goodall og villtu aparnir“, var til dæmis á dagskrá Ríkissjónvarpsins sunnudagsins 20. október 1974, heimildarmynd um ferð á slóðir simpansa árið 1960. Hér má sjá myndband með upprifjun tímaritsins National Geographic.

Það var því magnað að sjá Jane Goodall stíga á svið í stóra salnum í Háskólabíó 15. júní síðastliðinn. Húsið var troðfullt og gott betur hálftíma áður en fyrirlesturinn hófst og fólk streymdi enn að.

Þetta var fólk á öllum aldri, allt niður í kornabörn sem sátu í fangi foreldra sinna. Spennan var næstum áþreifanleg þegar klukkan varð fimm, gestir boðnir velkomnir og frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, var kynnt á svið. Henni var vel fagnað og mitt femíníska hjarta sló svolítið hraðar í gleðinni yfir því að hlusta á Vigdísi ávarpa Goodall – tvær magnaðar konur, næstum jafnöldrur. Brautryðjendur. Fleiri stigu á stokk en gestir biðu eftir Goodall sjálfri sem loks var kynnt til leiks og hún hljóp, bókstaflega, 82 ára, upp tröppurnar á sviðið.

Jane Goodall og frú Vigdís Finnbogadóttir. Ljósmynd: ©Kristinn Ingvarsson
Jane Goodall og frú Vigdís Finnbogadóttir. Ljósmynd: ©Kristinn Ingvarsson

Jane Goodall er einstaklega góður ræðumaður. Fyrirlestur hennar var í raun frekar einfaldur, það er að segja, hún segir langa sögu af viðburðaríku vísinda- og ævistarfi sínu á einfaldan hátt en það er einmitt þessi einfaldleiki sem gerir það að verkum að orð hennar ná til okkar. Við munum þau og þannig kemst boðskapur hennar til skila.

Jane Goodall. Ljósmynd: ©Kristinn Ingvarsson
Jane Goodall. Ljósmynd: ©Kristinn Ingvarsson

Goodall sagði frá því hvernig hún var strax sem barn mikill dýravinur, vildi eiga dýr (og átti dýr) og fylgjast með atferli þeirra. Hún var forvitin og athugul og fékk frelsi til þess að vera hún sjálf í því efni, og getur ekki nógsamlega þakkað móður sinni sem ýtti frekar undir forvitni barnsins. Hún las allar bækur sem hún komst yfir um dýr og lét sig dreyma um að starfa með dýrum, verða dýralæknir, en að því hlógu margir. Hún var stúlka og fyrir henni átti að liggja að ganga inn í hefðbundið hlutverk kvenna uppúr 1950. Hún lærði til ritara, eins og stúlkur gjarnan gerðu, en bauðst svo að heimsækja vini í Kenya og þangað fór hún árið 1957.

Luis og Mary Leakey. Mynd fengin að láni hér.
Louis og Mary Leakey. Mynd fengin að láni hér.

Vegna áhuga síns og þeirrar þekkingar sem hún þá þegar hafði á náttúru og dýralífi var hún kynnt fyrir steingervinga- og fornleifafræðingnum Louis Leakey, en hann og kona hans, Mary Leakey, voru þá þegar vel þekkt (og nú goðsagnir) fyrir rannsóknir sínar á þróun mannsins. Leakey-hjónin réðu hana til starfa í þrjá mánuði, til að fylgjast með atferli simpansa. Og þá var ekki aftur snúið.
Frá þessu sagði Goodall, uppgötvunum sínum, hvernig Leakey kom henni beint inn í doktorsnám við Cambridge-háskóla svo hún fengi þá gráðu sem nauðsynleg var til að vinna að frekari rannsóknum og fá styrki. gorillas_in_the_mist_smÞess má geta hér, svona í framhjáhlaupi, að Leakey sá hæfileika í fleiri ungum konum á þessum tíma, og hvatti þær og studdi til rannsókna á prímötum. Þar á meðal Diane Fossey, sem var þekkust fyrir rannsóknir sínar á górillum í fjalllendi Rúanda. Hún er einmitt önnur goðsögn, annað nafn sem er minnisstætt úr æsku. Ævi Fossey voru gerð skil í áhrifamikilli bíómynd (með Sigourney Weaver í aðalhlutverki) fyrir nokkrum árum en hún var myrt árið 1985, á dvalarstað sínum meðal górillanna í Rúanda. Þær, og landsvæði þeirra hafði hún varið með kjafti og klóm og greiddi fyrir dýru verði.

En aftur að Goodall. Frá upphafi hefur hún lagt sig fram við að miðla rannsóknum sínum og þekkingu. Því má lesa um lífshlaup hennar, rannsóknir og baráttu fyrir náttúruvernd, í einhverri þeirra mörgu bóka sem hún hefur gefið út, í viðtölum og á vefsíðum. Sú saga verður ekki rakin hér.

Það er aftur á móti boðskapur Goodall, kjarninn í fyrirlestri hennar, sem skiptir meginmáli. Nefnilega að við mannfólkið sem byggjum þessa jörð tökum okkur á og leiðum hugann að velferð dýra og náttúruvernd.
Það er aftur á móti boðskapur Goodall, kjarninn í fyrirlestri hennar, sem skiptir meginmáli. Nefnilega að við mannfólkið sem byggjum þessa jörð tökum okkur á og leiðum hugann að velferð dýra og náttúruvernd – að við sitjum ekki hjá meðan skógar, lungu jarðar, eru ruddir og fjölmargar dýrategundir sviptar lífsgrundvelli sínum. Goodall sagði einmitt frá því í fyrirlestrinum hvað henni hefði brugðið við að sjá að stórum svæðum í skógum Gombe í Tanzaníu, heimkynnum simpansanna sem hún hafði rannsakað hvað mest, hafði verið eytt. Og hún sagði frá því þegar hún um miðjan níunda áratug síðustu aldar fór sem vísindamaður á ráðstefnu um apa í Afríku en fór af henni sem aktífisti, aðgerðasinni. Á þessari ráðstefnu rann upp fyrir henni hve mjög væri gengið á náttúruna í þessari stóru heimsálfu og hve mjög öpum (og öðrum dýrategundum) hefði fækkað. Síðan þá hefur hún starfað ötullega, einkum í gegnum stofnun sína, Jane Goodall Institute, að náttúruvernd og dýravernd; að virðing sé borin fyrir náttúrunni og dýrum jarðar. Og ekki veitir af því við lifum á tímum hnattrænnar hlýnunar og höfum ekki hugmynd um hvort börnin okkar og barnabörn muni búa við lífvænlegar aðstæður – og við (í hinum vestræna heimi) erum á kafi í neyslu þar sem skepnur eru fjöldaframleiddar við hræðilegar aðstæður svo við getum haldið áfram í ofgnóttinni.

Aðalsalur Háskólabíós var fullur og varpa þurfti dagskránni fram í anddyri fyrir þá sem ekki komust inn.
Aðalsalur Háskólabíós var fullur og varpa þurfti dagskránni fram í anddyri fyrir þá sem ekki komust inn. Ljósmynd: ©Kristinn Ingvarsson
Ekki fallast hendur, sagði Goodall við okkur sem hlýddum á hana, þegar þið horfið út í heim og baráttan sýnist vonlaus og við mengum sem aldrei fyrr.
Ekki fallast hendur, sagði Goodall við okkur sem hlýddum á hana, þegar þið horfið út í heim og baráttan sýnist vonlaus og við mengum sem aldrei fyrr. Ekki gefast upp þótt ríki, borg eða sveitarfélag geri ekki skyldu sína því okkar litlu skref, það sem við gerum hvert og eitt þegar við flokkum ruslið, sleppum því að nota bílinn, borðum kannski minna af kjöti eða veltum fyrir okkur hvort við viljum kaupa jarðarber flutt inn á mengandi hátt frá Spáni eða ræktuð á Flúðum, skiptir máli. Það skiptir máli af því þarna úti er fleira fólk sem hugsar í smáum skrefum og saman myndum við heild.

Það sem ég tók með mér af þessum fyrirlestri var þakklæti fyrir að hafa fengið að hlusta á eina af goðsögnum æsku minnar, konu sem braut blað. Og að hafa fengið áminningu um að það sem ég geri skiptir máli.

Hér má sjá myndband sem Goodall sýndi í lok fyrirlestursins, þar sem hún fær faðmlag þakklætis. Simpansinn Wounda var nær dauða en lífi, en náði heilsu og er hér sleppt út í náttúruna á Tchindzoulou eyju.

Ljósmynd ofan við grein: Sóley Stefánsdóttir

Um höfundinn
Erla Hulda Halldórsdóttir

Erla Hulda Halldórsdóttir

Erla Hulda er dósent í kvenna- og kynjasögu við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands.

[fblike]

Deila