Líflegt samspil í Listasafni Íslands

Sýningin Kvartett í Listasafni Íslands var, eins og nafnið gefur til kynna, samspil fjögurra listamanna. Þeir eru Gauthier Hubert (f. 1967), Chantal Joffe (f. 1969), Jockum Nordström (f. 1954) og loks Tumi Magnússon (f. 1957).
Listamennirnir eru afar ólíkir en gegnumgangandi þráður sýningarinnar var að verk þeirra kallast á við listasöguna. Sýningarstjórar voru Halldór Björn Runólfsson, forstöðumaður Listasafns Íslands og Birta Guðjónsdóttir, listfræðingur. Þau segja verkin nýmaníerísk, með vísun í 16. aldar stílinn maníerisma (e. mannerism) sem hefur þau einkenni að ýkja form, gjarnan líkamans, og skapa spennu í myndfletinum fremur en raunsæja framsetningu.

Mynd 1 (sama sjónarhorn og IMG_3700 (sjá viðhengi)): Hér sést skemmtilegt samspil listamannanna í Listasafni Íslands. Fjærst sést Ár hundsins (2015) eftir Jockum Nordström, á gólfinu má sjá afmyndaða hauskúpu Tuma Magnússonar og næst okkur sjáum við Portrett af fyrirsætu sem sat um stundarsakir fyrir á árunum 1957 til 1963 hjá spænska málaranum Pablo Ruiz Picasso (2014) eftir Gauthier Hubert.
Hér sést skemmtilegt samspil listamannanna í Listasafni Íslands. Fjærst sést Ár hundsins (2015) eftir Jockum Nordström, á gólfinu má sjá afmyndaða hauskúpu Tuma Magnússonar og næst okkur sjáum við Portrett af fyrirsætu sem sat um stundarsakir fyrir á árunum 1957 til 1963 hjá spænska málaranum Pablo Ruiz Picasso (2014) eftir Gauthier Hubert.

Sýningunni var skipt upp í fjóra hluta líkt og í tónverki þar sem hver listamaður á sinn kafla. Hinum belgíska Gauthier Hubert líkja sýningarstjórarnir við andante kafla (ítalska fyrir „á gönguhraða“). Verk hans eru fjörug og óvanaleg og samanstanda að mestu af portrett-málverkum og er vísunin í listasöguna afar sterk. Dæmi um þetta portrettmyndir af „gleymdum“ gyðjum Picassos, eins og þær myndu líta út í dag. Verkin eru stríðnisleg, bakgrunnurinn litríkur og tónar við fatnað og hár fyrirsætanna á skemmtilegan hátt og andlit þeirra eru afmynduð á kúbískan hátt. Tvö verka Huberts á sýningunni eru hluti af seríu sem byggir á teikningu eftir Hans Holbein yngri frá 16. öld af aðalsdömunni Önnu Meyer. Það sem heillaði Hubert er staða módelsins og vakti það forvitni hans hvað stúlkan væri að horfa á. Fyrra verkið úr seríu Huberts er lítið olíumálverk sem ber titilinn Anna Meyer, 502 years old. Þá reiknaði Hubert út hversu gömul Anna Meyer væri orðin ef hún væri á lífi, eða 502 ára gömul. Hubert stillir henni upp á sama hátt og í teikningu Holbeins og klæðir hana upp í sama klæðnað.

Nálgunin er einnig eftirtektarverð því áhorfandinn er settur í þá stöðu að hann er það sem Anna Meyer horfir á. Hubert tekst að skapa þá skynjun að það virðist sama hvar staðið er í salnum, manni finnst alltaf eins og Anna Meyer horfi á mann.
En í stað ungrar, uppstrílaðrar konu sjáum við hálfgerða múmíu, sköllótta, ófrýnilega og klæðnaður hennar orðinn morkinn. Hitt málverkið í seríunni er þó af annarri Önnu Meyer. Sú er svissneskur flautuleikari sem Hubert fann þegar hann aflaði sér gagna um sextándu aldar aðalsdömuna Önnu Meyer. Það er hnyttinn útúrsnúningur og tekur Hubert viðfangsefnið og snýr upp á það, bæði með því að sýna Önnu Meyer 502 ára gamla og í samtímanum. Nálgunin er einnig eftirtektarverð því áhorfandinn er settur í þá stöðu að hann er það sem Anna Meyer horfir á. Hubert tekst að skapa þá skynjun að það virðist sama hvar staðið er í salnum, manni finnst alltaf eins og Anna Meyer horfi á mann. Þetta á í raun við um allar portrettmyndir Huberts á sýningunni; augnaráð fyrirsæta hans er stingandi og áleitið.

Málverk af dökkærðri konu með ungan krakka í fanginu
Chantal Joffe dregur fram myndefni sitt á lifandi hátt með litríkum, grófum pensilstrokum og ýktu andlitsfalli. Hér sést verkið Cass með Marnie (2014).

Framlag hinnar bresku Chantal Joffe voru glaðleg olíumálverk með persónulegu ívafi og segja sýningarstjórarnir hana spila allegretto kafla verksins (ítalska fyrir allfjörugt og hratt).
Framlag hinnar bresku Chantal Joffe voru glaðleg olíumálverk með persónulegu ívafi og segja sýningarstjórarnir hana spila allegretto kafla verksins (ítalska fyrir allfjörugt og hratt). Tenging Joffe við þema sýningarinnar er öllu óljósari. Myndefnið er hún sjálf, dætur, vinkonur og frænkur sem hún dregur upp á lifandi hátt með litríkum, grófum pensilstrokum og ýktu andlitsfalli. Í sýningartextanum stendur að verk hennar hafi vísun í málverk El Greco, og er þar nefnt sérstaklega verkið Konan í loðfeldi, en Joffe nam í Glasgow þar sem portrettið er geymt. Þá virðast málverk Joffe innblásin af verkum impressjónísku listakvennanna Berthe Marisot og Mary Cassatt sem gerðu heimili og börn að myndefnu sínu. Í sýningarskrá segir að augnsvipurinn í verkum Chantal Joffe virki allegretto og sé í samhljómi við kafla Jockums Nordströms. Honum líkja Halldór og Birta við líflegan vivace.

Hinn sænski Nordström leggur til kvartettsins klippimyndir, sem þó eru í nokkurri mótsögn við málverk Huberts og Joffe, myndrænt séð.
Hinn sænski Nordström leggur til kvartettsins klippimyndir, sem þó eru í nokkurri mótsögn við málverk Huberts og Joffe, myndrænt séð. Klippimyndirnar eru í daufum jarðlitum en olíumálverk Huberts og Joffe litrík og glaðvær. Klippimyndir Nordströms eru líkt og nótnablöð með „misþéttum nótnaklösum“, eins og sagt er í sýningartextanum. Þær eru sagðar hafa vísun í verk Pauls Klee, sem gerði verk með sterka vísun í tónlist. Í verkinu F.v. (fyrrverandi) frá árinu 2015 er myndefnið lífið í borgaralegu samfélagi. Þar má sjá grófgerðar fígúrur og minnir myndbyggingin á frásagnarform miðalda þar sem vefnaður var notaður til þess að segja sögur, líkt og í Bayeux-reflinum. Refillinn er sögufrægt útsaumað klæði sem segir frá orrustunni við Hastings, sem háð var á 11. öld á Englandi, á myndrænan hátt. Uppsetning refilsins er ekki alls ólík myndasögu og var tilgangurinn að fræða almenning og varðveita sagnaarfinn. Þannig nýtir Nördström sér frásagnaraðferð miðalda og vísar um leið í listasöguna.

Hlutskipti Tuma Magnússonar á sýningunni var að spila scherzo kaflann, sem er gáskafullur og fjörugur. Og raunar var Tumi hálfgerður villingur á sýningunni, með ferskum rýmisverkum sem eru í talsverðu ósamræmi við hefðbundið myndmál Huberts, Joffe og Nordströms.
Hlutskipti Tuma Magnússonar á sýningunni var að spila scherzo kaflann, sem er gáskafullur og fjörugur. Og raunar var Tumi hálfgerður villingur á sýningunni, með ferskum rýmisverkum sem eru í talsverðu ósamræmi við hefðbundið myndmál Huberts, Joffe og Nordströms. Hauskúpur eftir Tuma mátti finna dreifðar um listasafnið og eru vísun í Ambassadorana, málverk frá árinu 1533 eftir Hans Holbein yngri. Í fyrstu virðast hauskúpurnar vera ógreinanlegar, ílangir flekkir á víð og dreif um rýmið, en sjónblekking gerir það að verkum að þær birtast manni í réttum hlutföllum ef staðið er á ákveðnum stað í rýminu. Tvær þeirra voru inni í sal 1, önnur á gólfi og hin upp undir lofti, og laumuðu sér inn í hina hefðbundnu málverkasýningu á stríðnislegan hátt. Þær var einnig að finna á göngum safnsins. Verk Tuma í sal 2 var vídeóinnsetningin Umferð (sofandi) frá árinu 2013. Verkið samanstendur af sex lóðréttum römmum þar sem bílar keyra taktfast til hægri og svo til vinstri út úr rammanum. Tumi tók upp andardrátt, hægði á honum og samstillti svo niðinn frá bílunum. Til verður taktfastur umferðarniður sem hefur sefandi áhrif í myrkvuðu rýminu. Hins vegar skemmdi það upplifunina að verk Piccassos, Jacqueline með gulan borða, var innar í salnum, og gestir sem ætla sér að skoða það þurfa að ganga á milli vídeóinnsetningar Tuma og bekkjanna sem gestir geta tyllt sér á til að njóta. Stanslaust ráp fram hjá innsetningunni raskar þannig því rólega andrúmslofti sem verkið annars hefði skapað. Auðvelt hefði verið að koma í veg fyrir slíkt með því að skipta salnum upp í tvö rými.

Þema sýningarinnar er áhugavert, þar sem listamennirnir sækja með augljósum hætti í listasöguna og gaman er að sjá samtímalist taka svo mikið rými í Listasafni Íslands. Hins vegar verður að segjast eins og er að það þarf að leggja vandlega við hlustir til þess að laglínur listamannanna fjögurra hljómi saman svo úr verði tónlist. Safninu er gerður sómi með því að hafa verk listamannanna fjögurra til sýnis en samhengið milli þeirra er fremur óljóst. Sýningartextar vísa bæði í maníerismann, líkamann og eins í tónlist svo erfitt er að átta sig á þemanu. Verk Joffe ríma vel við verk Huberts myndrænt séð, en listsögulega tengingin í verkum hennar er veik. Þá hefði mátt blanda verkum Tuma af meiri krafti inn í sal 1, þar sem verk Huberts, Joffe og Nordströms voru til sýnis. Freistandi er að kalla hann laumufarþega í sýningunni og hugsanlega væri sýningin, og þematíkin sterkari, ef Tumi hefði fengið greiðari aðgang. Verk Tuma eru ekki síður áhugaverð en hinna og hafa hvað mesta tengingu við rauða þráð Kvartetts um tog og tos á myndmálinu á maníerískan hátt.

Hér að neðan eru viðtöl Listasafns Íslands við listamennina fjóra:

Gauthier Hubert:

Chantal Joffe:

Jockum Nordström:

Tumi Magnússon:


[line]
Grein þessi var unnin sem verkefni í Listgagnrýni og sýningarstjórn, námskeiði á MA-stigi í listfræði við Háskóla Íslands.

Mynd fyrir ofan grein: Samsett skjáskot úr viðtölum Listasafns Íslands við listamennina.

Um höfundinn
Inga Björk Bjarnadóttir

Inga Björk Bjarnadóttir

Inga Björk Bjarnadóttir er meistaranemi í listfræði í Háskóla Íslands ásamt því að leggja stund á Miðausturlandafræði. Hún er einn stofnanda Plan-B art festival.

[fblike]

Deila