Nátttröllið: Hugleiðing um óljós landamæri menningarlífsins

Í grein í Reykjavíkurblaðinu Ingólfi haustið 1906 stakk Páll Þorkelsson gullsmiður upp á að efnt yrði til íslenskrar allsherjarsýningar sem varpað gæti ljósi á afrek landsmanna á vettvangi landbúnaðar, sjávarútvegs, iðnaðar, lista og íþrótta. Hann rökstuddi hugmynd sína með vísan til væntanlegrar heimsóknar Friðriks 8. Danakonungs og danskra þingmanna til Íslands.

hugras_ingolfur_timarit
Mynd klippt úr blaðinu Ingólfur á timarit.is

Eitthvað þyrfti að bjóða erlendu gestunum upp á annað en þolanlegan mat. En menningarstofnanir hér á landi voru fáar og stóðu sambærilegum stofnunum í flestum öðrum Evrópulöndum langt að baki. Öflugust þeirra var Leikfélag Reykjavíkur sem hafði verið stofnað af áhugamönnum úr stétt verslunar- og iðnaðarmanna 1897 og staðið fyrir leikstarfsemi í Iðnó, samkomuhúsi sem Iðnaðarmannafélagið reisti við norðurenda Tjarnarinnar. En almennt var enginn sérstakur menningarbragur yfir höfuðstaðnum að mati Páls:

Vér höfum enn engin söfn svo teljandi sé; vér höfum engin mannvirki, sem vert þyki að skoða; vér höfum engan æfðan söngflokk, engan hornablástur (Hornmusik), engan skemtigarð, – með fám orðum sagt: vér verðum að flýja á fjöll upp með gesti vora, því það er náttúran ein, sem getur skemt þeim hér hjá oss, en hvorki vér sjálfir eða það sem vér höfum afrekað.

Á næstu eitt hundrað árum urðu gríðarmiklar breytingar á þessu sviði hér á landi. Komið var á fót fjölda hópa, ráða, félaga, skóla, fyrirtækja og stofnana í þeim tilgangi að ýta undir listsköpun, auka fagmennsku á því sviði og efla áhuga þjóðarinnar allrar á menningu og listum. Byggt var yfir einstök fyrirtæki og stofnanir, þar á meðal söfn, leikhús, tónleikasalir og kvikmyndahús. Samin voru lög um tilhögun þessarar starfsemi og vaxandi fjármunum varið til hennar. Smám saman varð til sú margbrotna umgjörð íslensks menningarlífs sem hefur gert listamönnum innan einstakra greina kleift að helga sig listinni og koma verkum sínum á framfæri við almenning.

[pullquote type=”left”]Nú er svo komið menningarlífið hér á landi er með allt öðrum brag en þegar Páll gullsmiður kvartaði yfir skorti á mannvirkjum, kórum og lúðrasveitum í höfuðstaðnum og sagði að náttúran væri eina skemmtunin sem hægt væri að bjóða erlendum gestum upp á hér á landi. [/pullquote]Nú er svo komið menningarlífið hér á landi er með allt öðrum brag en þegar Páll gullsmiður kvartaði yfir skorti á mannvirkjum, kórum og lúðrasveitum í höfuðstaðnum og sagði að náttúran væri eina skemmtunin sem hægt væri að bjóða erlendum gestum upp á hér á landi. Vissulega hefur íslenskt landslag enn sérstakt aðdráttarafl fyrir ferðamenn en á liðnum áratugum hefur þróast í landinu afar margbrotið kerfi í kringum innlenda listsköpun. Framlög hins opinbera til þessarar starfsemi hafa aukist jafnt og þétt á tímabilinu og beinast í vaxandi mæli að stuðningi við útflutning menningarafurða. Hinar skapandi greinar, eins og farið er að kalla þær, eru starfsvettvangur fjölda fyrirtækja og þúsunda einstaklinga sem skila skatttekjum í ríkissjóð og gjaldeyristekjum erlendis frá. Stöðugt fleiri listgreinar hafa náð varanlegri fótfestu, ólíkar kynslóðir íslenskra listamanna hafa verið að störfum á hverjum tíma og margar liststefnur sett mark sitt á listsköpun þeirra.

En um leið hafa mörk hins þjóðlega og alþjóðlega verið að leysast upp. Stafræn tækni og veraldarvefurinn valda því að íslenskar menningarstofnanir eiga í vaxandi samkeppni við alþjóðlegar efnisveitur. Spotify, Amazon og YouTube eru orðnar veigamiklir bakjarlar (e. patrons) í burðarvirki íslenskrar nútímamenningar. Nú um stundir á Rás 1 í samkeppni við BBC World Service, Stöð 2 á í samkeppni við Netflix, Íslenska óperan á í samkeppni við beinar útsendingar í kvikmyndahúsum á uppfærslum Metropolitan-óperunnar í New York. Jafnhliða hafa tækifæri íslenskra listamanna til að koma textum sínum, tónlist og myndum á framfæri við heiminn gerbreyst, meðal annars fyrir tilstilli Facebook, Twitter og Sound Cloud. Listamenn eru í vaxandi mæli orðnir sínir eigin bakjarlar og nýta sér Netið (vefsíður á borð við Karolina Fund) til að safna fjármunum í einstök verkefni.

hugras_natttrollid_merki2

Sambræðingur hins þjóðlega og alþjóðlega birtist einnig í því að fleiri og fleiri menningarviðburðir hér á landi eru í og með ætlaðir erlendum ferðamönnum eða miðast að minnsta kosti við veru þeirra í hópi áheyrenda. Kynningar á fjölmörgum smærri tónleikum sem ég hef sótt í Reykjavík á liðnum mánuðum hafa verið fluttar bæði á íslensku og ensku eða jafnvel einungis á ensku, þótt meirihluti áheyrenda hafi verið íslenskur. Með almennari hætti má velta fyrir sér hvort viðamikil menningarverkefni á borð við Icelandic Airwaves, Lókal og Icelandic Writers Retreat eigi að teljast íslensk eða alþjóðleg.

Frá tónleikum Bjarkar í Vancouver 2007. Mynd fengin hér.
Frá tónleikum Bjarkar í Vancouver 2007. Mynd fengin hér.

Svipaðar vangaveltur vakna gagnvart einstökum listamönnum og hópum. Áhrifamesti listamaður Íslendinga fyrr og síðar er tónlistarkonan Björk en hún hefur síðasta aldarfjórðung gefið svo að segja allt sitt efni út á ensku hjá erlendum útgefendum. Baltasar Kormákur er virkur þátttakandi í íslenskri og amerískri kvikmyndagerð. Markaðssvæði leikhópsins Vesturports nær langt út fyrir hið takmarkaða áhrifasvæði íslenskrar tungu. Þess eru meira að segja dæmi að skáldverk eftir íslenska höfunda hafi komið samhliða út á íslensku og á erlendu máli (eða jafnvel fyrst erlendis áður en þau birtast á frummálinu).

Það er spennandi að að velta fyrir sér áhrifum þessarar þróunar á íslenska menningu (eða öllu heldur skilgreiningar okkar á þessu rótgróna hugtaki). Þessa dagana er ég að leggja lokahönd á kafla um „burðarvirki íslensks menningarlífs“ sem mun birtast í nýju bindi af Sögu Íslands sem Hið íslenska bókmenntafélag gefur út. Ég fjalla þar um þá uppbyggingu sem átti sér stað á þessum vettvangi frá heimastjórnarárunum fram til aldamótanna 2000. Það er vissulega snúið að fást við þetta efni en mér sýnist að það sé enn snúnara að lýsa þeirri þróun sem hefur átt sér stað á síðustu 10 til 15 árum. Er tími hinar þjóðlegu menningarsögu kannski liðinn, er hugmyndin um íslenska menningu orðin tímaskekkja, nátttröll sem hefur dagað uppi? Svari þeir sem svara vilja.

Um höfundinn
Jón Karl Helgason

Jón Karl Helgason

Jón Karl Helgason er prófessor í Íslensku sem öðru máli við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Hann hefur skrifað fræðibækur og -greinar, fengist við þýðingar og komið að ritstjórn tímarita, bóka og vefja á Netinu. Sjá nánar

[fblike]

Deila