Íslensk listasaga er gjarnan talin þunnildisleg og stutt miðað við listasögur annarra Evrópuríkja. Að sjálfsögðu hefur menning Íslendinga liðið fyrir ákveðna einangrun sem þjóðin þurfti að þola allt fram að 20 .öld; hún olli því að stefnur og straumar samtímalistar á meginlandinu bárust misseint til landsins. Það er þó ekki þar með sagt að listin hafi staðnað og allt í einu hrokkið í gang um aldamótin 1900, því ýmislegt fékk að blómstra í einangruninni sem vert er að skoða.

Gildi menningararfsins

Markús Þór Andrésson er sýningarstjóri sýningarinnar Sjónarhorn í Safnahúsinu sem hefur staðið síðan árið 2015. Sýningin er samstarfsverkefni sex íslenskra menningarstofnana: Þjóðminjasafns Íslands, Listasafns Íslands, Náttúruminjasafns Íslands, Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og Þjóðskjalasafns Íslands. Markmið hennar er að tefla fram íslenskum menningararfi óháð tímalínu eða sögulegu gildi.

Markús bendir mér á að alla jafna sé menningararfur Íslendinga nútímamönnum heldur ókunnugur: „Hann er mjög misvel rannsakaður; um sumt eru til doktorsritgerðir en um annað eru til fáar eða engar heimildir.Við höfum sjaldan upplýsingar um höfundana og vitum ekki hver gerði hvað né heldur hvenær höfundarnir sköpuðu verkin. Stundum er ekkert vitað í hvaða tilgangi verk var gert.“ Hér á Markús helst við sjónlistir, hannyrðir og ákveðna gripi sem voru gerðir fyrir aldamótin 1900 þó að þessi fullyrðing eigi í mörgum tilvikum við um handrit og bókmenntir fyrri alda.

Akkilesarhællinn: Fyrir og eftir aldamótin 1900

Markús telur einn helsta akkilesarhæl rannsókna á íslensku listasögunni vera þá staðreynd að henni var lengi skipt í tvennt. Það sem var gert á 19. öld og fyrir þann tíma var talið til handverkshefðar en upphaf íslenskrar listasögu var miðað við myndlistarsýningu Þórarins B. Þorlákssonar árið 1900 sem haldin var í Glasgow-húsinu í Reykjavík. Enn í dag eimir eftir af þessari skiptingu og okkur hættir því til að skoða söguna ekki í heildarsamhengi. Þórarinn lærði myndlist í Kaupmannahöfn og var því einna fyrstur Íslendinga til að nema fagið á erlendri grundu og starfa við það að námi loknu. Hann er því til einföldunar gjarnan talinn fyrsti íslenski listmálarinn. Ef við förum eftir þessari skilgreiningu þá er íslensk listasaga 118 ára á þessu ári, líklega stysta listasaga þjóðar á heimsvísu.

Skilgreining á listaverki

Það er stór misskilningur að engin myndlist hafi verið gerð fyrir árið 1900. Ef handrit í geymslum Þjóðskjalasafns eru skoðuð sjáum við óteljandi myndskreytingar og listaverk; Þjóðminjasafnið er stútfullt af útskornum rúmfjölum, skreyttum söðlum, listilega ofnum rúmábreiðum og svo framvegis. Hvað er þetta annað en listaverk? Augljóslega er hér ekki um að ræða málverk en sú ákvörðun að miða upphaf listasögunnar við fyrstu myndlistarsýninguna hefur valdið því að full fjársjóðskista af listaverkum sem voru gerð fyrir árið 1900 hefur flokkast undir dútl og föndur bændafólks.

Markús skýrir frá því að skilgreining á hlut fari í mörgu eftir því hvaða stofnun taki hann til rannsóknar og varðveislu. Ef Þjóðminjasafnið tekur við blekmynd af galdrastaf frá 17. öld er myndin túlkuð sem munur frá galdraöldinni; verkið verður sönnunargagn um íslenska þjóð á 17. öld. Ef Þjóðskjalasafn tekur við myndinni er hún heimild um handritagerð á 17. öld. En ef Listasafn Íslands fengi hana í hendurnar væri hún líklega flokkuð sem: Blekmynd á skinni frá 17. öld, höfundur óþekktur. Mögulega er tími til kominn að sameina starf þessara stofnana og sérþekkingu. Með því væri hægt að horfa á menningararf Íslendinga frá öllum hliðum þar sem hver gripur yrði skoðaður á eigin forsendum en ekki út frá áherslu þeirrar stofnunar sem hann lendir hjá.

Sjónarhorn

Áðurnefnd sýning, Sjónarhorn, er einmitt tilraun til þessa; þar eru handrit, málverk, skúlptúrar og rúmfjalir lögð fram fyrir áhorfanda, allt á þvers og kruss, og tímalínu og sagnfræðilegu samhengi er algjörlega hafnað. „Áhorfandinn ætti að geta farið í gegnum sýninguna svona dálítið lífrænt, eitt rekur annað og sumt meikar engan sens, svo fattar áhorfandinn kannski einhverja tengingu sem þarf ekki endilega að vera sú tenging sem við lögðum í hlutina þegar við settum sýninguna upp. Áhorfandi á að eiga sér sína eigin upplifun,“ útskýrir Markús fyrir mér.

Aðspurður segir hann að í raun sé ekkert óvenjulegt við þessa uppsetningu sýningargripa, að minnsta kosti ekki á heimsvísu. Á Íslandi hefur sýning á borð við þessa aldrei verið sett upp áður, ef frá er talin sýningin  Íslensk myndlist í 1100 ár, sem var opnuð á Kjarvalsstöðum árið 1974. Með þeirri sýningu reyndi sýningarstjórinn, Björn Th. Björnsson, að stemma íslenska myndlist saman við evrópska list og sýna fram á að íslensk listasaga væri á pari við hina evrópsku. Við ættum gotneska list, impressjónista og kúbista. Að öðru leyti hafa Íslendingar ekki skoðað sjónrænan menningararf sinn frá upphafi til samtímans. Sögulegar sýningar hafa gjarnan haldið fast í hina hefðbundnu sýningargerð þar sem allt er á leiðinni frá A til B, oftast í réttri tímaröð. Hér á ég við sögulegar sýningar þar sem  upplýsingagildið er í fyrirrúmi. Aftur á móti hafa sýningarstjórar á meginlandinu prófað ólíkar leiðir við að setja fram upplýsingar og höfða gjarnan til sjónrænna vitsmuna frekar en bóklegrar og sögulegrar þekkingar.

Skrefinu á eftir

Eftir að hafa spjallað við Markús fæ ég ekki betur séð en að við séum enn langt á eftir meginlandinu þrátt fyrir hina miklu hnattvæðingu sem nú ríkir. Í dag snýst seinagangurinn ekki um menninguna sjálfa heldur framsetningu okkar á henni og virðingu gagnvart menningarsögunni sem er svo miklu eldri en 118 ára. Ég segi: Kveikjum á perunni og þorum að skoða hlutina út frá fleiru en einu sjónarhorni; rífum Akkilesar-örina úr hæl íslensku listasögunnar.

Aðalmynd: Jón Ögmundsson biskup, mynd frá 19. öld í handritinu JS 629 4to sem er í eigu Landsbókasafns Íslands.

Þessi umfjöllun var hluti af verkefnavinnu í námskeiðinu „Loksins, loksins: Vinnustofa í menningarblaðamennsku“ á vorönn 2018.

Um höfundinn
Katrín Helena Jónsdóttir

Katrín Helena Jónsdóttir

Katrín Helena Jónsdóttir er meistaranemi í hagnýtri menningarmiðlun.

[fblike]

Deila