Drottning danska mínímalismans

Helle Helle
Ef þú vilt
Þýð. Silja Aðalsteinsdóttir
Mál og menning, 2016
163 bls.
Helle Helle[1] er meðal fremstu samtímahöfunda í Danmörku en hefur fyrst núna verið þýdd á íslensku. Um er að ræða nýjustu bók hennar Ef þú vilt (da. Hvis det er) í þýðingu Silju Aðalsteinsdóttur. Kominn var tími til að eitthvað rita hennar birtist á íslensku. Helle Helle gaf út fyrstu bók sína 1993 – rétt eftir að hún útskrifaðist frá danska höfundaskólanum – en hefur síðan náð talsverðum vinsældum með sjö skáldsögum og tveimur smásagnasöfnum, hjá bæði lesendum og ritdómurum í Danmörku og erlendis.[2]

Helle Helle
Helle Helle

Tvívegis hefur hún verið tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, síðast einmitt fyrir Ef þú vilt (2014), og í maí þessa árs hlaut hún svokölluð stóru verðlaun dönsku akademíunnar. Þess má líka geta að þarsíðasta bók hennar, Dette burde skrives i nutid (2011), var árið 2014 þýdd yfir á ensku og fékk góða dóma, meðal annars í New York Times og The Guardian.

Í tilviki Helle Helle er ekki óáhugavert að skoða nánar ritlistarmenntun hennar í danska höfundaskólanum. Póstmódernísk stefna þessa skóla virðist hafa haft mjög mótandi áhrif á stíl hennar, sérstaklega auðvitað fyrstu bók hennar, Eksempel på liv (1993), sem er samsett af stuttum tilraunakenndum prósatextum í mínímalískum stíl – enda fólst kennslan í höfundaskólanum í að semja slíka smáprósa. Ljóðskáldið Niels Frank og fræðimaðurinn Per Aage Brandt kenndu þá við skólann og höfðu mikil áhrif á hugmyndafræði hans. Aðalspekingarnir voru hér Jacques Derrida og Roland Barthes. Hugmyndin um afbyggingu leiddi til tortryggni á getu tungumálsins til að nálgast veruleikann, Barthes boðaði dauða höfundarins – og þar af leiðandi fór þar fram markvisst uppgjör við raunsæi og hugmyndina um frumleika. Alla vega var hinn alvitri sögumaður módernismans kominn undir græna torfu.

Stíllinn er einfaldur, því Helle Helle hefur skorið burt allt sem þykir ofaukið. Þannig verður lesandinn – ef hann ætlar að túlka textann – að vera eins og atferlissálfræðingur sem ályktar um sálarástand fólks út frá gerðum þess, enda er stíll Helle Helle kallaður mínímalískt raunsæi.
Í staðinn voru höfundar eins og Alain Robbes-Grillet (frægasti fulltrúi „nýju skáldsögunnar“ eða nouveau roman) dönsku ungskáldunum fyrirmynd sökum tilrauna hans á skáldskaparsviðinu sem fólust í uppgjöri við ýmsa þætti klassísku skáldsögunnar: við rétta tímaröð (krónólógíu), orsakasamhengi, sálfræðilegar lýsingar og mat sögumannsins. Nú yrði sagt frá eins og myndavélalinsa – málefnalega og án gildismats, og umheimurinn einungis skráður. Í slíkum bókmenntum er okkur ekkert sagt um innra líf persónanna, ekkert um tilfinningar þeirra og hugsanir. Helle Helle gengur ekki svo langt í stíltilraunum sínum en segja má að hún sé búin að finna sinn eigin stíl í smásagnasafninu Rester (1996). Þessar sögur eru að vísu með bæði söguþráð og rétta tímaröð, en eins og hjá Robbes-Grillet fær lesandinn (nema í stökum fyrstu persónu frásögnum) ekkert að vita um tilfinningar og hugsanir persónanna. Stíllinn er einfaldur, því Helle Helle hefur skorið burt allt sem þykir ofaukið. Þannig verður lesandinn – ef hann ætlar að túlka textann – að vera eins og atferlissálfræðingur sem ályktar um sálarástand fólks út frá gerðum þess, enda er stíll Helle Helle kallaður mínímalískt raunsæi. Eins og hjá danskri fyrirmynd Helle Helle, Herman Bang, virðist ekki mikið gerast í verkum hennar, söguhetjur hennar eru – eins og Bang lýsir þeim í eigin verkum – „kyrrlátar verur“ (d. stille eksistenser). Í fyrri skáldsögum Helle Helle, Hus og hjem (1999), Forestillingen om et ukompliceret liv med en mand (2002), Rødby-Puttgarden (2005), Ned til hundene (2008) og Dette burde skrives i nutid (2011), er aðalpersónan alltaf kona. Í Ef þú vilt vildi Helle Helle ögra sjálfri sér með því að nota karlmann sem söguhetju. En jafnvel þó að sögumaðurinn sé karlkyns, er það engu að síður svo að smám saman verður tíu árum yngri, nafnlaus kvenpersóna hinn eiginlegi sögumaður.

Helle Helle er ekki óhóflega teóretískur höfundur en hún gefur engu að síður lesandanum vísbendingar um póstmódernískan bakgrunn sinn. Bókin hefst á orðunum: „Þetta er ekki ég. Ég stend ekki svona bak við tré úti í skógi. Laufblöðin sáldrast niður. Það er fertugasta og fjórða vika ársins, þetta eru síðustu laufblöðin.“ Hér koma fram sjálfsöguleg einkenni (e. metafiction) þar sem skrifin sjálf eru í brennidepli. Fyrstu persónu sögumaðurinn neitar tilvist sinni. Auk þess vísar talan 44 í dönsku útgáfunni til þess að bókin hefur 144 blaðsíður, þá linnir blaðsíðunum eins og laufblöðunum síðla hausts. Kvensöguhetjan er 38 ára, sem samsvarar 38 köflum bókarinnar. Og seint í skáldsögunni lætur Helle Helle barn eitt segja: „Reyndar er rithöfundurinn dáinn. Búinn að vera, heyrist þá í þeim stærri.“ Auðvitað eru ummælin í tengslum við söguþráðinn, en þó er nokkuð ljóst að hér hefur Roland Barthes fundið leið sína inn í frásögnina svo lítið ber á.[3]

Í Ef þú vilt býr Helle Helle til aðstæður sem eru frekar óvenjulegar (en kannski ekki mjög sennilegar): Tveir skokkarar villast í dönskum skógi og eru án farsímasambands.
Goethe sagði eitt sinn að smásagan einkenndist af einhverjum óvenjulegum atburði. Í Ef þú vilt býr Helle Helle til aðstæður sem eru frekar óvenjulegar (en kannski ekki mjög sennilegar): Tveir skokkarar villast í dönskum skógi og eru án farsímasambands. Líkt og Heinrich von Kleist, sem býr oft til ákveðið undantekningarástand, þar sem persónur geta nálgast hver aðra með öðrum hætti en hefðbundnar forskriftir samfélagsins segja til um, notar Helle Helle einangrunina í skóginum til að sviðsetja hjóðlátt drama milli karls og konu. Fyrstu persónu söguhetjan, hinn 48 ára Roar, er tölvuviðgerðamaður; tíu árum yngri kvensöguhetjan vinnur í fatabúð en við fáum annars ekki að vita hvað hún heitir, einungis að ættarnafn hennar hljómar svipað og „Vejmand“.[4] Roar og „Vejmand“ rekast nokkrum sinnum hvort á annað eftir að hafa bæði villst og reyna síðan í sameiningu að finna leið út úr skóginum. Á meðan tala þau um hversdagslega hluti (samræðurnar bera vitni um kankvísan húmor Helle Helle), en neyðast svo – köld og illa á sig komin – til að gista í skýli. Hér verður ljóst að sagan um skokkarana tvo er rammasaga; það er ekki Roar, heldur „Vejmand“ sem er hin eiginlega aðalpersóna. Um Roar fáum við fáar upplýsingar; hins vegar nær frásögn „Vejmands“ yfir allt að helming skáldsögunnar. Eftir fyrstu persónu frásögnina breytist sjónarhornið skyndilega og við tekur þriðju persónu frásögn.[5] Úr verður skáldsaga sem er nokkuð dæmigerð fyrir Helle Helle enda þótt hún muni í þessari bók hafa reynt að forðast að endurtaka sig[6]: Um er að ræða tregablandna sögu um konu sem býr fyrst í kommúnu og verður ástfangin af sambýlingi sínum Christian úr fjarlægð. Hann flytur út með kærustunni Gry og „Vejmand“ flyst í kjölfarið til Svenstrup, þorps á Norður-Jótlandi. Nokkrum árum seinna hittir hún Christian fyrir tilviljun aftur í Hamborg í Þýskalandi. Christian og Gry eru hætt saman en hann á þriggja ára son eftir einnar nætur gaman með annarri konu, Magnus (kallaður Ærslabelgur; da. Buller). „Vejmand“ og Christian verða par og flytja saman; hún verður hin fullkomna kærasta, stjúpmóðir og tengdadóttir sem hjálpar Christian og foreldrum hans í húsgagnaverslun þeirra. Lítilfjörlegur atburður, vonbrigði yfir heldur órómantískri gjöf, útvarpsvekjaraklukku nánar tiltekið, beinir sambandinu inn á nýja braut og um síðir hættir Christian með henni.[7]

Eftir þessa frásögn „Vejmands“ heldur rammasagan áfram: Þau reyna að rata í skóginum og finna, sem fyrr segir, loks hús sem þau geta gist í. Þegar þau vakna næsta morgun, stara tveir strákar á þau. Þeir segja þeim að skáldkona nokkur hafi dáið í húsinu tveimur dögum fyrr. Skáldsögunni lýkur þegar þau horfa á eftir drengjunum hverfa á brott með mömmu sinni. En við fáum ekki að vita hvað gerist hjá Roar og „Vejmand“ í framhaldinu. Það eru þó vissar vísbendingar um að þrátt fyrir gagnkvæma feimni hafi þau náð að nálgast hvort annað.

Stemningin í bókinni dregur dám af sögum Hermans Bang:[8] Þessar tvær persónur virðast ekki hafa upplifað neitt ævintýralegt í lífinu fyrr en þau hittast í skóginum. Bæði virðast þau vera óvirk – eins og svo oft hjá Helle Helle – líkt og manneskjur sem berast áfram í straumi lífsins, meira eins og statistar en gerendur. Þó að Helle Helle hafi í þetta skipti kosið að gera karlmann að aðalsöguhetju, skilur persóna hans sig ekki merkjanlega frá kvenhetjum Helle Helle. „Vejmand“ spyr Roar hvort hann hafi alltaf búið einn, og hann svarar með sama trega og tómleika og sögupersóna hjá Herman Bang:

Það var einu sinni ein. Hún hét Greta, segi ég.
– Það var leitt.
Hún horfir á mig, kinkar enn kolli.
– Tíminn hefur bara liðið, segi ég.[9]

Titill bókarinnar vísar til trega „Vejmands“. Hún hafði tengst stjúpsyni sínum, Ærslabelgi, tilfinningalegum böndum. Hún er með ennisband frá honum í skóginum og þegar hún býðst til að lána Roar það er ljóst að um er að ræða meira en hvern annan hlut:[10] „Þú mátt fá ennisbandið mitt, ef þú vilt.“

Allt virðist afar einfalt og hverdagslegt en undir yfirborðinu leynist drama sem lesandinn verður sjálfur að túlka og kalla fram.
Nákvæmlega þessi orðaskipti gefa líka til kynna hversu erfitt getur verið að þýða hinn mjög svo einfalda prósa Helle Helle. Eins og á norsku og sænsku hefur titillinn verið þýddur yfir á íslensku sem Ef þú vilt. En á dönsku heitir bókin Hvis det er: „Du kan låne mit pandebånd, hvis det er.“ Reyndar er „hvis det er“ varkárara eða feimnislegra orðalag en „hvis du vil“, sem hefði líka verið hægt að segja á dönsku. Orðalagið segir því eitthvað um tilfinninganæman persónuleika kvenhetjunnar.[11]

List Helle Helle felst í nákvæmni prósans: Það er engu orði ofaukið. Tregi og húmor ganga þar hönd í hönd. Treginn kemur fram í tómleikanum sem sumir einstaklingar hafa skilið eftir sig í lífi aðalpersónanna. Húmorinn kemur fram í kankvísum augnablikum þegar lítið óvænt orð brýtur upp hverdagsleikann. Allt virðist afar einfalt og hverdagslegt en undir yfirborðinu leynist drama sem lesandinn verður sjálfur að túlka og kalla fram. Helle Helle gefur engar túlkunarvísbendingar. Þessi fína þýðing eftir Silju Aðalsteinsdóttur gerir íslenskum lesendum loksins kleift að upplifa léttan trega Helle Helle á eigin tungumáli.

[line]

[1] Hún fæddist sem Helle Olsen í 1965 en kaus að nota ættarnafn langömmu sinnar, Helle.
[2] Bækur hennar hafa nú verið þýddar á 14 tungumál.
[3] Í viðtali við Jeppe Bangsgaard segir Helle Helle, að hún hafi ætlað að drepa höfundinn á blaðsíðu 32 eða að minnsta kosti stíl hans. Berlingske Tidende. 11. mars 2015, bls. 21. http://www.b.dk/kultur/jeg-oensker-hver-gang-at-det-skal-mislykkes
[4] Þetta nafn er þekkt úr frægu sósialkrítísku ljóði, „Jens Vejmand“, sem Jeppe Aakjær orti 1905. Ljóðið tónsetti Carl Nielsen tveimur árum seinna og nýtur lagið enn mikilla vinsælda.
[5] Af og til eru þó fléttaðar inn samræður við Roar og frásögnin víkur stundum að honum aftur.
[6] “Jeg tvinger mig selv ud nogle steder, hvorfra jeg kan forsøge at skrive en ny bog. Der skal hver gang være en følelse af at begynde forfra. Jeg har ikke lyst til at sidde og nikke genkendende til min egen måde at skrive på.” Viðtal í Berlingske Tidende 11. mars 2015, bls. 22.
[7] Sambandsslitunum er ekki lýst með beinum orðum. „Vejmand“ heldur að Christian sé að færa henni gjöf: „En þetta var bara pappír.“ Þessi óbeina lýsing einkennir stíl Helle Helle almennt.
[8] Ljóðið „Tómleikur“ eftir Herman Bang (hér í þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar) er dæmigert fyrir stemninguna í verkum hans: „Þeir dagar koma, / að þagnar jafnvel sorgin, / og sálin situr / mitt í auðninni / ein / sem köngurló við spuna / og spinnur ¬ tómleik.“ Magnús Ásgeirsson: Ljóðasafn. Bd. I. Helgafell 1975, bls. 40.
[9] Helle Helle: Ef þú vilt. Reykjavík: Mál og menning 2016, bls. 155.
[10] Notkun vissra hluta er viss fagurfræðileg aðferð sem Helle Helle beitir gjarnan. Í viðtölum hefur hún greint frá því að hún hafi vitað að þetta ennisband myndi verða partur af sögunni áður en hún byrjaði að skrifa hana. Hún leggur áherslu á að hluturinn sé bara hlutur og ekki tákn, en að sjálfsögðu er hann bæði hlutur og tákn, vegna þess að „Vejmand“ tengir ennisbandið við fyrrverandi stjúpson sinn.
[11] Þetta er þó engin gagnrýni á þýðinguna. Stundum er einfaldlega ekki hægt að finna sambærilegt orðalag.

Um höfundinn
Gísli Magnússon

Gísli Magnússon

Gísli Magnússon er lektor í dönskum bókmenntum við Deild erlendra tungumála, málvísinda og bókmennta við Háskóla Íslands. Hann hefur sérhæft sig í þýskum bókmenntum og skrifaði doktorsritgerð um dulspekilega þætti í verkum Rainers Maria Rilke.

[fblike]

Deila