Frásagnir af loftslagsbreytingum

Frásagnir af loftslagsbreytingum, sögurnar sem við segjum af mögulegum lausnum vandans og hugmyndafræðin sem mótar frásagnirnar, er þemað í fyrsta hefti Ritsins 2016.

Skáldin sem eiga ljóð í heftinu eru Alda Björk Valdimarsdóttir, Anton Helgi Jónsson, Gerður Kristný, Guðrún Hannesdóttir, Kári Tulinius, Sigurbjörg Þrastardóttir, Sjón og Steinunn Sigurðardóttir.
„Miklar frásagnir lýsa gjarnan umbrotatímum og við löðumst að sögum þar sem allt er undir, þar sem ógnin vofir yfir og sérhvert haldgott áttamið týnist fyrir borð áður en jafnvægi næst á nýjan leik. Það er því eftirtektarvert að við skulum hrökkva undan þeirri sögu sem nú má lesa út úr þúsund líkönum og vísindarannsóknum síðustu áratuga. Þó er þessi saga stærri og ógurlegri og varðar okkur meir en allar þær frásagnir sem festar hafa verið á blað allt frá því að ritöld mannsins hófst. Líklega stendur hún okkur of nærri,“ segir í inngangi Guðna Elíssonar, ritstjóra heftisins. Hann fór m.a. þá leið að biðja átta íslensk skáld að yrkja um loftslagsbreytingar. Að auki eru birt ljóð eftir bandarísku skáldkonurnar Teresu Cader og Natösju Trethewey í þýðingu ritstjórans, en ljóðin snúast um áhrif veðurfarsöfga á mannlega tilveru. Í heftinu er einnig þýðing á þekktri menningarkrítík þýska heimspekingsins Theodors W. Adorno, „Menningargagnrýni og samfélag“. Þar segir Adorno m.a.: „Hætta er á að jafnvel hin ýtrasta vitund um ógæfuna úrkynjist og verði að blaðri. Menningargagnrýnin stendur frammi fyrir lokastiginu í díalektík menningar og villimennsku: að skrifa ljóð eftir Auschwitz er villimennska – og það tærir jafnframt upp vitundina sem gerði kleift að lýsa því hvers vegna það varð útilokað að yrkja á okkar tímum.“ Segist Guðni hafa haft þessa yfirlýsingu Adornos í huga er hann leitaði til skáldanna, ásamt þeirri hugmynd „að eina leiðin til þess að veruleiki loftslagsbreytinga geti fangað vitund almennings, sé að leita á náðir hins goðsögulega; frásagnarrýmið sé svo stórt og umfangsmikið að aðeins sé hægt að miðla því út frá almennri skírskotun symbólskra sanninda og því þurfi heilinn að vinna með hjartastöðvunum“.

Guðrún Elsa spyr sig hvernig hægt sé að miðla tilgangsríku aðgerðaleysi í stað kröfunnar um að dæla upp meiri olíu þegar ljóst sé hverjar afleiðingar þess yrðu…
Þrjár þematengdar greinar eru í heftinu. Guðrún Elsa Bragadóttir setur olíuleit á Drekasvæðinu í samhengi við rökvísi kapítalisma og nýfrjálshyggju, kröfuna um endalausan efnahagsvöxt og athafnasemi. Guðrún Elsa gengur út frá frásögn bandaríska rithöfundarins Hermans Melville um ritarann Bartleby, er segir frá starfsmanni á lögfræðiskrifstofu á Wall Street sem hættir einn góðan veðurdag að hlýða fyrirmælum yfirmanns síns með orðunum „ég myndi kjósa að sleppa því“. Guðrún Elsa spyr sig hvernig hægt sé að miðla tilgangsríku aðgerðaleysi í stað kröfunnar um að dæla upp meiri olíu þegar ljóst sé hverjar afleiðingar þess yrðu og sækir m.a. í skrif ítalska heimspekingsins Giorgio Agambens og í hinsegin fræði.

Magnús sýnir í grein sinni hvernig þessar lausnarfrásagnir gefa villandi mynd af loftslagsvandanum…
Andófið gegn neysluhyggju og kapítalisma er einnig ráðandi í grein Magnúsar Arnar Sigurðssonar. Hann beinir athygli sinni að stórsögu nýfrjálshyggjunnar í nokkrum bandarískum auglýsingum sem allar eiga það sameiginlegt að kalla eftir tæknilegum lausnum á loftslagsvandanum. Magnús sýnir í grein sinni hvernig þessar lausnarfrásagnir gefa villandi mynd af loftslagsvandanum og grafa þannig undan raunverulegum leiðum til þess að takast á við vandamálið. Með hliðsjón af bandarísku fræðikonunni Lauren Berlant greinir Magnús þessa afstöðu sem „grimmilega bjartsýni“, sem birtist „í endurteknum tilraunum fólks til þess að ná markmiðum sínum óháð líkunum á því að aðgerðirnar séu til bóta“.

Sólveig Anna Bóasdóttir fjallar um nýlegar áskoranir kristinna trúarsamtaka sem settar voru fram í aðdraganda COP21 í París 2015.
Sólveig Anna Bóasdóttir fjallar um nýlegar áskoranir kristinna trúarsamtaka sem settar voru fram í aðdraganda COP21 í París 2015. Hún bendir á að kristin trú hefur haft afgerandi hugmyndafræðileg áhrif á vestrænan skilning á manni, heimi og náttúru og orðræða yfirlýsinganna snýst í meginatriðum um endurskoðun hefðbundinnar kristinnar náttúrusýnar og mannskilnings, þar sem ráðandi miðlægni mannsins er umbreytt í líf- og guðsmiðaða umhverfissiðfræði.

Tvær greinar eru í heftinu til viðbótar þemagreinunum, grein eftir Gunnar Theodór Eggertsson um raunsæislegu dýrasöguna sem hófst til vegs og virðingar í vestrænum samfélögum á síðari hluta nítjándu aldar, en slíkar sögur gera reynsluheim dýrsins að meginviðfangsefni. Gunnar telur dýrasöguna vera róttæka og boðandi bókmenntagrein sem sé mikilvægt að endurmeta og hefja á nýjan leik til vegs og virðingar í menningarumræðu samtímans. Rétt eins og í greiningu þemahöfundanna eru siðferðilegu spurningarnar fyrirferðarmiklar í lestri Gunnars.

Hugras_GudniElison
Guðni Elísson, ritstjóri Ritsins 1/2016

Hin greinin sem er utan þema heftisins er eftir Kristjönu Kristinsdóttur og ber nafnið „Lénsreikningur reikningsárið 1647–1648“ og snýst um endurskoðun lénsreikninga í rentukammeri fyrir umrædd ár og uppgjör konunglegs fógeta. Reikningarnir veita innsýn í hvernig Ísland var stjórnsýslulega tengt Danmörku sem eitt af lénum konungs og sýna hvaða aðferðum var beitt við endurskoðun lénsreikninga og uppgjör lénsmanns.


Hér má hlusta á viðtal við Guðna Elísson í Morgunútvarpi Rásar 2 föstudaginn 3. júní:

Mynd fyrir ofan grein: Bakgrunnur myndarinnar er frá NASA, sjá hér.

[fblike]

Deila