Konan í blokkinni

Jónína Leósdóttir
Konan í blokkinni
Mál og menning, 2016
Konan í blokkinni er glæpasaga eftir Jónínu Leósdóttur. Jónína er menntaður ensku- og bókmenntafræðingur frá Háskóla Íslands. Konan í blokkinni er ekki fyrsta skáldverk hennar en hún hefur meðal annars skrifað ævisögur, smásögur, leikrit og ljóð.

Bókin segir frá Eddu sem er komin á eftirlaun og á erfitt með að aðlagast því að hafa allt í einu svo mikinn tíma aflögu. Áður var hún bóksali en nú eyðir hún tíma sínum á Hótel Sögu og drekkur espresso og blandar geði við ferðamennina sem gista þar, fjölskyldu sinni til ómældrar gremju. Eftir slökunarferð til Kanaríeyja rétt fyrir jól bíður hennar bréf frá Þýskalandi. Sonur gamallar pennavinkonu biður Eddu um hjálp við að hafa uppi á móður sinni, Veroniku, sem að öllum líkindum hefur látið sig hverfa til Íslands. Þar sem henni dauðleiðist tekur Edda verkefninu fegins hendi en lendir upp á kant við tengdasyni sína og dóttur. Þeim þykir þetta brölt hennar óþarft og benda henni á að það gæti verið hættulegt að hnýsast í annarra manna mál. Á sama tíma kynnumst við menntaskólakennara á fertugsaldri, Steinunni, sem er haldið fanginni við furðulegar aðstæður.  Hún rankar við sér eftir að því er virðist meðvitundarleysi og með tímanum áttar hún sig á því að hún er fest við kalt og hart sæti, kefluð, með bundið fyrir augun og eyrnatappa í eyrum. Hún getur sig hvergi hrært og áttar sig ekki á því af hverju fangavörður hennar, sem hún kallar Hvíslarann, skyldi vilja henni allt illt.

Bókin byrjar strax á lýsingum á menntaskólakennaranum Steinunni og er frásögnin í fyrstu persónu. Hún vaknar og veit ekki hvar hún er og getur ómögulega svarað því af hverju hún sé tjóðruð, blinduð, kefluð og heyrnarlaus. Tónn bókarinnar er þegar settur og má lesandinn búast við að hér sé um glæpasögu að ræða. En áhugaverð skipting bókarinnar setur hana einnig í flokk með einkaspæjarasögum. Fyrsti kaflinn er tileinkaður Steinunni, annar kafli Eddu, þriðji kafli Steinunni og svo koll af kolli. Þeir kaflar sem tileinkaðir eru Eddu eru undirlagðir einkaspæjarastefinu og má greina áhrif frá Agöthu Christie og metsölubókum hennar um Hercule Poirot. Það sem sameinar sögurnar eru persónurnar og tímaleg skörun atburða á fjögurra daga tímabili. En á meðan engin hreyfing er á Steinunni menntaskólakennara fær Edda að hlaupa út um allar trissur. Hún kemur úr löngu flugi frá Kanaríeyjum í upphafi bókar, er tíður gestur á Hótel Sögu, að degi sem að kveldi, fer í jólagjafainnkaupaleiðangur, er gjörn á að koma sér í sundlaug Vesturbæjar og verslar inn í Melabúðinni.

Lesandinn veit ekki meira en það sem Steinunn skynjar og má því segja að hennar kaflar haldi lesandanum við efnið og skapi spennu. Hjá Eddu er meiri hreyfing þar sem fleiri sögupersónur koma við sögu. Hún stendur sig ágætlega sem einkaspæjari en ólíkt Steinunni hefur hún fjölskyldu sína og aðra  innan seilingar þurfi hún á hjálp að halda.

Konan í blokkinni heldur lesanda í greipum óvissunnar. Með skiptingunni frá Steinunni yfir á Eddu, léttist þunglamalegur tónninn í frásögn Steinunnar til muna og sagan af Eddu veitir bókinni góðan takt, hreyfingu og spennu. Bókin er mætavel skrifuð og er ljóst að hér er um þaulreyndan rithöfund að ræða. Jónína nær góðu taki á spennumagnandi þræði og byggir góðan grunn að áframhaldandi sögum af hinni djörfu Eddu sem leysir ráðgátur af hnífbeittri kænsku.

[line]
Grein þessi var unnin sem verkefni í námskeiðinu Gagnrýni og ritdómar við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.

Um höfundinn
Sandra Jónsdóttir

Sandra Jónsdóttir

Sandra Jónsdóttir er með BA-gráðu í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands. Hún stundar nú MA-nám í Hagnýtri ritstjórn og útgáfu við sama skóla.

[fblike]

Deila