Loftslagsbreytingar og sameiginleg ábyrgð einstaklinga

[x_text]Eftir tæpan mánuð hittast þjóðarleiðtogar í París á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um hlýnun jarðar af mannavöldum. Parísarráðstefnan er sú tuttugasta og fyrsta sem haldin er um efnið á vegum Sameinuðu þjóðanna á um tuttugu og fimm ára tímabili. Á fyrstu ráðstefnunni sem fór fram í Rio de Janeiro í Brasilíu 1992 var samþykktur Rammasamningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (UNFCCC) sem skuldbatt aðildarríkin til að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda til „… að halda styrk gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu innan þeirra marka að komið verði í veg fyrir hættulega röskun á loftslagskerfinu af manna völdum”.[1] Jafnframt átti samningurinn að tryggja að „… matvælaframleiðslu í heiminum verði ekki stefnt í hættu og að efnahagsþróun geti haldið áfram á sjálfbæran máta“. Rammasamningurinn fól ekki í sér að komið skyldi í veg fyrir loftslagsbreytingar, einungis að komið skyldi í veg fyrir hættulega röskun á loftslagskerfinu af manna völdum. Þetta er tvennt ólíkt.

Flestir þekkja til Kyoto-samkomulagsins svokallaða en það var fyrsti bindandi samningurinn um málefnið. Hann varð til á þriðju ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í borginni Kyoto í Japan 1997 þar sem allmörg lönd, en langt því frá öll, sameinuðust um að minnka losunina um 5.2% fram til ársins 2012 miðað við 1990.[2] Síðan má kannski segja að flestir myndu vilja gleyma fimmtándu ráðstefnunni sem haldin var árið 2009 í Kaupmannahöfn, þar sem mistókst að koma á bindandi samkomulagi allra þjóða í heiminum. Tvennt náðist þó samkomulag um á Kaupmannahafnarráðstefnunni: 1) að halda hlýnun andrúmsloftsins innan við 2°C að meðaltali, og 2) að frá og með 2020 skyldu iðnríkin leggja þróunarríkjunum til 100 milljarða dollara á ári til að aðstoða þau við aðlögun að nýjum og erfiðum aðstæðum í kjölfar loftslagsbreytinga. Jafnframt skyldi þetta framlag iðnríkja aðstoða þróunarríkin við að nýta hreina og endurnýjanlega orku.

Nú reiknast mönnum til að við eigum 1/3 eftir áður en mannkynið fer fram af brúninni, þ.e.a.s. að af þekktum gas-, olíu- og kolabirgðum verði einungis hægt að nýta 1/3 til að takast megi að ná þessu markmiði. Þótt takist að halda hlýnun innan 2°C að meðaltali mun það samt valda verulegri röskun, t.d. munu láglendar eyjar fara undir vatn ef andrúmsloftið hlýnar umfram 1,5°C.

Hvernig á að deila ábyrgðinni á þeim miklu lífsstílsbreytingum sem þurfa að eiga sér stað í ríkum jafnt sem fátækum löndum?
Takmark Parísarráðstefnunnar er hið metnaðarfyllsta hingað til en það er að gera bindandi samkomulag milli allra ríkja heims sem miðar að því að hlýnun jarðar haldist undir tveimur gráðum á þessari öld. Til þess að þetta geti orðið telja vísindamenn að draga þurfi úr losun gróðurhúsalofttegunda, miðað við árið 2010, um allt að 70%. Hvernig má ná svo háleitu takmarki? Hvað þarf að gera, hverjir geta gert það og hverjir eiga að ráða því? Hér vakna siðferðilegar spurningar ekki síður en tæknilegar og lögformlegar. Hvernig á að deila ábyrgðinni á þeim miklu lífsstílsbreytingum sem þurfa að eiga sér stað í ríkum jafnt sem fátækum löndum? Hvað munu breytingar á þeim lífsstíl sem flestir Vesturlandabúar hafa tamið sér og æ fleiri jarðarbúar sækjast eftir kosta og hver á að bera þann kostnað? Hvernig á að deila þessu átaki niður á ríki, fyrirtæki, stofnanir eða einstaklinga? Og hvað er langur tími til stefnu? Spurningarnar virðast endalausar.

Getum við sem nú byggjum heiminn skapað réttlátari heim með því að tengja þetta tvennt: baráttu gegn hlýnun jarðar og baráttu gegn fátækt?
Allt upplýst fólk veit að misskipting auðs og valda er gríðarleg í heiminum þótt heilmikið hafi áunnist í þeim málum síðastliðin tuttugu og fimm ár. Ný þróunarmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun undirstrika hið alvarlega ástand í þessum málaflokki en útrýming fátæktar og barátta gegn ójöfnuði verður hér eftir sem hingað til eitt fremsta markmið Sameinuðu þjóðanna. Hin nýju þróunarmarkmið ítreka tengsl hlýnunar jarðar og fátæktar. Yfirvofandi hlýnun mun hitta jarðarbúa misjafnlega fyrir, það hafa loftslagssérfræðingar lengi bent á. Alvarlegastar verða afleiðingarnar á láglendum svæðum og eyjum þar sem yfirgnæfandi meirihluti íbúa býr við fátækt. Haft var eftir utanríkisráðherra Bandaríkjanna, John Kerry, fyrir skemmstu að sú bylgja flóttamanna sem Evrópa ætti nú fullt í fangi með að höndla væri ekkert í líkingu við yfirvofandi vandamál vegna loftslagsflóttamanna sem heimurinn ætti eftir að sjá á komandi tímum. Mun takast að finna leiðir til að takast á við hlýnun jarðar sem eru sanngjarnar og taka tillit til óréttláts heims og óréttlátrar skiptingar gæðanna? Getum við sem nú byggjum heiminn skapað réttlátari heim með því að tengja þetta tvennt: baráttu gegn hlýnun jarðar og baráttu gegn fátækt?

Ég hef takmarkaða innsýn í það í hve miklum mæli spurningar eins og þessar verða viðraðar á Parísarráðstefnunni. Þó má leiða að því líkur að hugtakið loftslagsréttlæti (e: climate justice) beri á góma og á það bent hvaða ríki heims beri sögulega mesta ábyrgð á hlýnununni. Það eru, eins og allir vita, þau ríki sem iðnvæddust fyrst, ríku löndin í Evrópu og Norður-Ameríku. Þessi ríki notuðu olíu, gas og kol til að byggja upp almenna velferð meðal þegna sinna, drógu úr fátækt og juku hagsæld. Þannig má segja að velsæld okkar sem byggjum ríkasta hluta heimsins hafi forfeður okkar á 18. og 19. öld fengið að láni og komið sé að skuldadögum. Við sem vorum framtíðarkynslóðir þegar olíu- og kolareykurinn lá sem þykkastur yfir Evrópu, þurfum nú að borga brúsann.

Þannig er sameiginleg ábyrgð einstaklinga á framtíðinni pólítísk í eðli sínu. Hún beinir athyglinni að misskiptingu veraldlegra gæða í heiminum og gengur út á að vinna að auknu réttlæti með hagsmuni allra íbúa heimsins í huga, manna jafnt sem lífvera.
Að lýsa ábyrgð á hendur vestrænna iðnríkja virðist ekki nema sanngjarnt. Jafnframt virðist sanngjarnt að ríkustu lönd heims axli þyngstu efnahagslegu byrðarnar, sbr. 100 milljarða dollara þróunaraðstoðina sem Kaupmannahafnarráðstefnan samþykkti 2009. Mikilvægt er að staðið verði við það loforð. Að þessu sögðu er mikilvægt að minna á að loftslagsógnin beinist fyrst og fremst að lífi og lífskjörum manna og málleysingja í framtíðinni. Hvernig tengjum við hugtökin framtíð og ábyrgð? Er ekki ábyrgðarhugtakið yfirleitt hugsað sem svo að það vísi til sögunnar, til liðins tíma og þeirra aðila sem voru gerendur þá? Mér er þó hugleiknara hvernig við sem nú lifum getum borið ábyrgð á framtíðinni og alveg sérstaklega, hvað við sem einstaklingar getum gert varðandi framtíðina. Hver er sameiginleg ábyrgð okkar á framtíðinni?

Aðalatriðið í því sambandi finnst mér vera aukin samfélagsleg gagnrýni. Í stað þess að láta berast með straumnum og taka þátt í ríkjandi dagskipun samfélagsins ber okkur sem einstaklingum og hópum að veita stjórnvöldum aðhald, vera gagnrýnin á samfélagið og lifnaðarhætti okkar. Þannig er sameiginleg ábyrgð einstaklinga á framtíðinni pólítísk í eðli sínu. Hún beinir athyglinni að misskiptingu veraldlegra gæða í heiminum og gengur út á að vinna að auknu réttlæti með hagsmuni allra íbúa heimsins í huga, manna jafnt sem lífvera.

Hin nýju þróunarmarkmið Sameinuðu þjóðanna eiga að vera leiðarljósið hér. Í þeim er sjónum beint að rótum heimsvandamálanna sem eru ójöfnuður og fátækt og þau tengd hlýnun jarðar með afgerandi hætti. Sameinuðu þjóðirnar ítreka að breytingarnar verði að byrja heima. Við þurfum að horfast í augu við okkur sjálf og þann lífsstíl sem við höfum tamið okkur síðastliðna áratugi. Þessi lífsstíll er ósjálfbær, hann stenst ekki skoðun, við þurfum að breyta honum. Breytingar eru ekki alltaf auðveldar en hugsanlega er auðveldara að hrinda þeim í framkvæmd ef fleiri standa að þeim. Enginn einn einstaklingur eða hópur lumar á einu, réttu leiðinni til lausna á hlýnun jarðar. Það á þó ekki að draga úr okkur máttinn. Við þurfum ekki að hafa þaulhugsuð markmið og hugmyndir til þess að hefjast handa. Aðgerðir verða ekki endilega þannig til að fyrst sé valið milli hugmynda, þá sett upp markmið, síðan úthugsaðar leiðir og síðast lagt af stað. Slík nálgun getur þvert á móti gert að verkum að eldmóður fólks og áhugi á breytingum koðnar niður. Við skulum því ekki láta tefjast frekar en hefjast handa og tala svo saman á leiðinni um fleiri leiðir og betri lausnir.


[1] Koltvísýringur (CO2) er þekktasta gróðurhúsalofttegundin og sú sem jafnan er rætt um.
[2] Áætlað var að draga svo enn frekar úr losuninni fram til ársins 2020.

[/x_text]
Um höfundinn
Sólveig Anna Bóasdóttir

Sólveig Anna Bóasdóttir

Sólveig Anna Bóasdóttir er prófessor í guðfræðilegri siðfræði við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Hún hefur m.a. rannsakað umhverfis- og vistsiðfræði, femíníska siðfræði, siðfræði stríðs og friðar og siðfræði kynverundar. Sjá nánar

[x_text][fblike][/x_text]

Deila