Gaman, gaman …

Aldrei hef ég lent í því áður að þakið ætlaði af leikhúsinu af fagnaðarlátum fyrir sýningu þegar ekkert var að sjá nema titil sýningarinnar á tjaldi!  Það var greinilega enginn kominn í leikhúsið til að sitja þar í fýlu.

Gleði endurtekningarinnar

Allir þekkja Abba-lögin og flestir geta tekið undir þau.  Þau voru listilega samin af Björn og Benny og afar vel flutt af Agnetu og Fridu forðum tíð. Þau fjögur voru glúrið markaðsfólk sem tók heiminn með trompi. Lögin urðu smám saman fágaðri en þau höfðu verið fyrst og textarnir endurspegluðu eins konar „Sögur úr hjónabandi“, byrjuðu með tildragelsi og diskói og enduðu á sorgum og skilnaði eins og segir í glæsilegu prógrammi sýningarinnar. Strákarnir bjuggu til ímyndina af sænskum hjónum sem skiptu tímanum milli barna og siglinga í skerjagarðinum annars vegar og stuttra tónlistarferðalaga hins vegar. Raunin var allt önnur, samkomulagið ömurlegt og kannski var það spennan í hópnum sem gerði lögin svona góð. Hvað veit ég?

Söngleikurinn Mamma mía varð til árið 1999 og kvikmyndin 2008 var gerð eftir söngleiknum og alltaf hafa glaðir áhorfendur sungið með, hátt og í hljóði. Leikhúsgestir í Borgarleikhúsinu voru ekki komnir til að sjá neitt nýtt á föstudaginn heldur njóta endurfunda við gamla vini. Það er sennilega bæði þakklátasti og vandfýsnasti áhorfendahópur sem til er.

 

Fjögur brúðkaup en engin jarðarför

Það þarf ekki að rekja söguþráðinn sem er spunninn utan um Abba-lögin í söngleiknum, þau eru þar eins og perlur á bandi, tengd saman með sögu sem segir frá hversdagslegum áhyggjum af striti og blankheitum, vonbrigðum í ástum og eftirsjá eftir glöðu árunum. Þar við bætast átök og ást móður og dóttur, misskilningur milli elskenda og flækjur sem leysast farsællega í lokin. Þó þetta sé eins og rauðu ástarsögurnar skiptir það miklu máli að persónurnar séu sannfærandi og telji okkur trú um að þau séu  fólk úr næsta húsi þó að útlitið og hæfileikarnir séu meira í stíl við  guði og gyðjur á Ólympostindi.

Stelpurnar

Jóhanna Vigdís Arnardóttir leikur og syngur Donnu Sheradon og leitun er á betri söng- og leikkonu í þetta hlutverk, röddin fyllti húsið og hún var bæði hraustleg og falleg. Þórunn Arna Kristjánsdóttir lék og söng hina saklausu og fallegu dóttur Donnu sem setur atburðarás af stað og límir saman senur. Hún söng vel en röddin varð hvell á hæstu tónunum, kannski var það hljóðkerfið? Eiginmannsefnið hennar, Sky, lék Eysteinn Sigurðarson. Vinkonur Donnu voru  ekki af verri endanum: Maríanna Clara Luthersdóttir lék Rosie og sýndi enn sem fyrr að hún er gamanleikkona af guðs náð. Það sama gerði Brynhildur Guðjónsdóttir sem lék kynbombuna og heimskonuna Tönju og ekkert smástökk á milli þessa hlutverks og túlkunar Brynhildar á Njáli á Bergþórshvoli. Brynhildur er stórsöngvari og Marianna Clara, Rosie, syngur líka mjög vel og gleður áhorfendur með því að vera trúðurinn í vinkvennahópnum framan af, áður en hún finnur manninn sem hún vill fá.

Mamma mía
Ljósmynd: Grímur Bjarnason

Strákarnir

Þá eru ekki upptaldir feðurnir þrír, Harry leikinn af Vali Frey Einarssyni sem var fágaður, sexý og hinsegin, Bill leikinn af Halldóri Gylfasyni, góður en sérvitur og rétti maðurinn fyrir  Rosie. Síðast en ekki síst var draumaprinsinn Sam Carmichael leikinn af Helga Björnssyni. Ógleymanleg var söngframmistaða Pierce Brosnan í hlutverki Sam í bíómyndinni Mamma mia. Það braust út mikið fliss í bíóinu þegar hann upphóf raust sína í dramatísku atriði og söng fyrir Donnu, sem hljóp upp heilt fjall til að sleppa við sönginn.

Mamma mía
Ljósmynd: Grímur Bjarnason

Það þurfti hún ekki að gera í Borgarleikhúsinu, Helgi Björnsson syngur seiðandi eins og vonbiðlar eiga að gera, það var ekki kvenmannshjarta ósnortið í salnum og þau Hansa voru einfaldlega frábær í samsöngsatriðum. Þau bjuggu til dæmis til hörkuátök úr laginu:  Þú virðist sjá mig/ hlustaðu nú á mig: S.O.S/Þinn ástareldur/í mér lífi heldur, S.O.S. osfrv. Þórarinn Eldjárn er raunar ein af aðalstjörnum sýningarinnar, þýðingar hans eru afskaplega góðar.

Kraftmikil, glöð og fagleg sýning

Gera skal langa sögu stutta: Það er valinn maður í hverju rúmi í þessari sýningu og bæri að hæla tónlist, myndlist, búningahönnun og tæknilegu rennsli sýningarinnar, hröðum skiptingum og samhæfingu. Útkoman er glæsileg, litrík og fjörug sýning sem einkennist af fagmennsku og krafti. Það er ekki heiglum hent að halda utan um svo mannmarga sýningu. Við eigum orðið hæfa leikstjóra í þeirri grein eins og Selmu Björnsdóttur og Berg Þór Ingólfsson. Nú hefur Unnur Ösp bæst í þann hóp.

[Ljósmyndir: Grímur Bjarnason]

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar

[fblike]

Deila