Léttfætt kaldhæðni

Ana María Shua
Smáskammtar
Þýðandi: Kristín Guðrún Jónsdóttir
Dimma, 2015
Titill þessarar bókar vísar örlítið kímilega til smáskammtalækninga eins og hómópatía er stundum kölluð á íslensku og væri rýnirinn kvikindi í sér gæti hann túlkað það neikvætt í samræmi við lýsinguna á Vísindavef HÍ þar sem aðferðin við lyfjagerð í þeim lækningum felst í að þynna upprunalega virkniefnið niður í vatni um einn tíunda, og það oftar en einu sinni, uns lítið sem ekkert er eftir af því. En þessi bók kveikir sannarlega ekki á kvikindinu í manni þótt hún eigi hér og þar kvikindislega kaldhæðna spretti, þvert á móti er sem upprunalega efnið sé notað nokkuð lítið útþynnt. Vísast hefur þýðandinn fremur verið að vísa til þess að aðeins eru birtar í þessari bók einn tíundi þeirra örsagna sem skáldkonan Ana María Shuha hefur skrifað alveg frá árinu 1984 eins og fram kemur í eftirmála. En valið á titlinum er ekki aðeins smellið í því samhengi, heldur nær hann einhvern veginn alveg utan um andann í verkinu sjálfu og aðferð höfundarins. Vel af sér vikið hjá þeim sem gerði.

Smáskammtar er sem sagt safn 100 örsagna eftir höfundinn sem út hafa komið í nokkrum bókum og valdi Kristín Guðrún Jónsdóttir sögurnar og þýddi, auk þess að skrifa eftirmálann. Þar sem rýnir hefur ekki vald á spænsku getur hann ekki borið saman frumtexta og þýðingu, en eftir tvo lestra á bókinni getur hann fullyrt að hnökrar fyrir þann, sem við í þýðingafræðum köllum „raunverulegan viðskiptavin“, þ.e. þann sem upp á þýðinguna er kominn vegna tungumálsins, eru fáir ef nokkrir. Eina eða tvær baunir get ég kannski tínt til úr fyrstu sögunni um Meyjuna og einhyrninginn en hún hljóðar svo:

Sumir halda því fram að söguefnið um einhyrninginn og meyjuna sé úr sér gengið þar sem báðar tegundirnar eru útdauðar. Samt birti dagblaðið í dag mynd af hesti með stóran blóðblett á enninu. Dýrið uppástendur að allt þar til stuttu áður en myndin var tekin hafi það verið ósvikin meyja (35).

Sem einn þátttakenda í fésbókarhópnum „Verndum viðtengingarháttinn“ gat höfundur þessara lína ekki annað en saknað þess ágæta háttar á einum stað í fyrstu málsgreininni og svo segir málvitundin honum að fremur sé talað um „hreinar meyjar“ en „ósviknar“, en kannski vildi þýðandinn einfaldlega rjúfa þá málvenju með annarri þýðingu sem í sjálfu sér er alveg rétt, en bara ný. Þetta dæmi sýnir þó vel hvernig höfundur og þýðandi leika sér að tungumálinu og viðteknum skilningi á ýmsum þeim sögum sem við þekkjum öll og eru einhvers staðar á milli flökkusagna og þjóðsagna.

Höfundur og þýðandi leika sér að tungumálinu og viðteknum skilningi á ýmsum þeim sögum sem við þekkjum öll og eru einhvers staðar á milli flökkusagna og þjóðsagna.
Skáldkonan er frá Argentínu, og eins og þýðandinn nefnir í eftirmálanum er alveg ljóst að hún hefur lesið Borges og fleiri þekkta fyrirrennara í Suður-Ameríku vel og vandlega. Borges er greinilegur lærifaðir, Shua leitar fanga í arfleifð heimsbókmenntanna með svipuðum hætti og hann gerði tíðum, tekur eitthvert fyrir eitt augnablik, ef svo má segja og snýr upp á það með nýrri túlkun og vendingu í lokin eins og gjarnan þarf í örsögunni, frásagnarlist sem kannski stendur næst ljóðinu af öllum prósa. Hún fer víða, líkt og Borges, kannski víðar en hann, því hún er stundum að fást við einmitt flökkusögur eða alþýðuvisku, eins og að telja kindur eða annarlega tilveru í fjölleikahúsi.

Megineinkenni þessara bráðskemmtilegu sagna aflestrar er þó kaldhæðnin, nokkur konar léttfætt íronía sem snýst um hinar viðteknu hugmyndir okkar um margar þessara sagna eða sagnabrota sem lifa í fjölmörgum menningarheimum. Ævintýraþemu eru tekin fyrir til að mynda í sögum um prinsessuna og froskinn, einnig er fanga leitað í ýmsum goðsögum frá ýmsum löndum eða þess vegna Biblíunni. Það sem einkennir þetta val höfundar er þó sú staðreynd að þessi minni eru oftast nær býsna vel þekkt, betur heldur en stundum var hjá Borges, þetta eru heimsbókmenntaminni sem flestir þekkja, ekki bara bókmenntafræðingar, og síðan nýtir hún sér einnig fyrirbrigði eins og fjölleikahúsið með mjög íronískum hætti. Þetta skal þó sagt með þeim fyrirvara að það koma fyrir minna þekktar goðsögur í bókinni og einnig birtir hún aðeins tíunda hluta heildarverksins eins og áður kom fram. Hugsanlega hefur þýðandinn því valið texta sem fremur höfða með þessum hætti til okkar hér á Fróni.

Þessi gífurlegu textatengsl, bæði í gegnum fyrirrennarana og þann bókmenntaarf sem Shua sækir í, gera þessa bók að sumu leyti að nokkurs konar dæmasafni fyrir þetta fyrirbrigði bókmenntanna sem fræðikonan Julia Kristeva fæddi í heiminn á sjöunda áratugnum, þessi skapandi endurritun og oftast nær uppásnúningur opnar nýjar víddir á sögur sem við þekkjum, víddir sem fá okkur til að endurskoða staðnaða hugsun um það sem við við þekkjum, stundum aðeins í gegnum það sem bókmenntafræðingurinn Franco Moretti kallar „fjarlægan lestur“ (e. distant reading), lestur í gegnum nokkurs konar textatengsl eða aðrar frásagnir. Einfalt dæmi um það er bara Biblían, flestir vita hvað stendur í henni (telja þeir), en þeir eru færri sem hafa lesið hana spjaldanna á milli.

Tiplandi húmorinn og kitlur höfundar á almennri þekkingu okkar gera lesturinn á bókinni mjög ánægjulegan og rýnirinn komst að því að endurtekinn lestur er ekki síður skemmtilegur; þessi örstuttu skot eru kannski einföld á yfirborðinu, en ólíkt bröndurum eru þau þannig bókmenntalega unnin að það er hægt að sjá ýmislegt nýtt við hvern lestur og ef það er ekki eitthvað, eins og sagt er núorðið, þá veit ég ekki hvað eitthvað er.

Um höfundinn
Gauti Kristmannsson

Gauti Kristmannsson

Gauti Kristmannsson er prófessor í þýðingafræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Rannsóknasvið hans eru almenn þýðingafræði, enskar og þýskar bókmenntir, upplýsingin í Evrópu, þýðingasaga, málstefna á Íslandi og annars staðar og íslenskar samtímabókmenntir. Sjá nánar

[fblike]

Deila