Góðar hugmyndir og óbeislaður kraftur

Halldór Halldórsson
Hugmyndir: Andvirði hundrað milljónir
Bjartur, 2015
Fyrsta ljóðabók Halldórs Halldórssonar, sem betur er þekktur sem Dóri DNA, hefur hlotið góðar viðtökur og þegar verið prentuð í annað sinn. Titill bókarinnar, Hugmyndir: Andvirði hundrað milljónir, gefur ýmsar vísbendingar um innihaldið. Það mætti skipta ljóðum bókarinnar í tvennt: Annars vegar löng prósaljóð og hins vegar snörp og hnyttin ljóð sem geyma hinar eiginlegu hugmyndir sem kunna vel að vera hundrað milljóna virði – hvernig á annars að verðleggja hugmyndir?

Þessi stuttu ljóð eru allt niður í fimm orð en draga á köflum upp miklu stærri myndir en þær sem birtast í lengri ljóðunum. Þau eru öll stuttar lýsingar á hugmyndum að einhverju stærra, sjónvarpsþáttum, skáldsögum eða leikritum. Óhjákvæmilega fer lesandi á flug með hugmyndunum og heldur með þær lengra. Hugmyndirnar eru afar hnitmiðaðar en skarpar þannig að það er hægur leikur að gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn. Í ljóðinu „Hugmynd að sjónvarpsþáttaröð #1“ geta líklega margir gert sér í hugarlund tragíkómíska atburðarás:

Virtur sagnfræðingur kemst að því að Snorri Sturluson var svertingi. Eldfimt mál í fjölmenningarsamfélagi nútímans (28).

Sumar hugmyndirnar eru einnig settar fram beint inn í samtímann. „Hugmynd að leikriti #1“ hefði til að mynda ekki verið skrifuð fyrir 10 árum því að hún fjallar um Twitter og stúlku sem tjáir sig undir „hasstagginu #childtraumatweets“ og samfélagið fer í kjölfarið á hliðina (18). Samfélagið hefur einmitt hvað eftir annað „farið á hliðina“ undanfarna mánuði í kjölfar „hastagga“ um eldfim málefni eða tabú. Aftan á bókarkápu er vitnað í ljóðið „Bróðir ljóðsins“ þar sem má meðal annars finna ljóðlínuna „Vandamál mín eru vandamál nútímans“ (51) sem á vel við í þessu samhengi.

Í lengri ljóðum bókarinnar er aftur á móti stundum litið til baka, ekki til fjarlægrar fortíðar en liðinn tími rifjaður upp. Þetta á til dæmis við um ljóðið „Hárnæring“ sem hefst á orðunum „Mér leiddist mikið þegar ég var barn“ (12) og ljóðmælandi rifjar í kjölfarið upp leiðindaatvik úr fortíðinni. Í þessum lengri ljóðum er áberandi karlmennskutónn; þau eru talsvert hörð ef svo má að orði komast. Þó að heimurinn sé vissulega ekki svo svarthvítur að til séu aðskildir karla- og kvenheimar þá birtast í þessum ljóðum einkenni sem hafa rótgróna tengingu við karlmennsku og áhugamál karla eins og bílar, veiði, smíðar og byssur. Mikill kraftur kraumar undir yfirborðinu og það er líkt og þessi kraftur sé óbeislaður og þrái að brjótast út. Þetta er raunar sjaldséð yrkisefni og kemur ef til vill hefðbundnum ljóðaunnendum í opna skjöldu.

Í ljóðinu Ystafelli hugsar ljóðmælandi með trega til bíla sem hann hefur átt og í „Fundarboði“ er hann að logsjóða úti í bílskúr:

Í gær var ég úti í bílskúr. Ég var að logsjóða og hlusta á svarta albúmið með Metallicu og ég sá andlit þitt í gömlum kaffibolla (30).

Og karlmaðurinn í ljóðinu „Við Kjalarnes“ er ekki sérlega viðkunnalegur:

Ég mölvaði allt postulínið.
Og núna finnst mér eins og ég verði að særa þig.
Ég verð að sjá þig gráta. Annars get ég ekki andað.
En fyrst. Leyfðu mér að kynna mig.
Ég er erfiðleikarinn. 70 hestafla vél og úr nösum mínum drýpur tvígengisolía.

Í þessum lengri ljóðum myndast einnig hugrenningatengsl við rappið sem Halldór á bakgrunn úr, ákveðið flæði, orðgnótt og orðbragð minnir á þann heim. Það er á köflum þéttur taktur í textanum og auðvelt er að heyra í höfði sér taktfastan flutning. Stuttar setningar og endurtekningar eiga ríkan þátt í þessu eins og til að mynda í þessum hluta ljóðsins „Til hins þýskumælandi heims“:

Kyssumst. Í alvöru. Sýndu mér heiminn eins og þú sérð hann. Sýndu mér lestarteina og gamlan lúður sem afi þinn átti. Sýndu mér mynd af ömmu þinni að leiða hermann og af pabba þínum að stinga úr tönnunum eftir að hafa étið mauksoðið Knudel.
Og ef þú átt þetta dót ekki, ljúgðu þá að mér. Þú mátt það.

Á heildina litið er þessi fyrsta ljóðabók Halldórs mjög athyglisverð og óhætt að hvetja hann til þess að feta áfram þessa slóð. Hann hefur gott vald á knöppum stíl og lengri ljóðin eru sum hver ekki langt frá smásögunni sem væri áhugavert að sjá hann spreyta sig á. Það verður spennandi að fylgjast með því sem Halldór sendir frá sér í framtíðinni.

Um höfundinn
Þórdís Edda Jóhannesdóttir

Þórdís Edda Jóhannesdóttir

Þórdís Edda Jóhannesdóttir er doktor í íslenskum bókmenntum og stundakennari við Íslensku‐ og menningardeild Háskóla Íslands. Rannsóknarsvið hennar er íslenskar miðaldabókmenntir. Sjá nánar

[fblike]

Deila