[container]
At eftir breska leikritaskáldið Mike Bartlett var frumsýnt á föstudagskvöldið í Borgarleikhúsinu. Það er mikil ánægja fyrir textaglatt fólk að sjá þetta verk; það er vel skrifað og hrífur áhorfanda með inn í átök sem eiga eftir að versna eftir að maður heldur að nú geti þetta ekki orðið verra.
Forsendur
Þriggja manna teymi hafa verið búin til í stórfyrirtækinu en nú verður að fækka um einn í hverjum hópi. Tony (Þorvaldur Davíð Kristjánsson), Thomas At_borgarleikhusid(Eysteinn Sigurðarson) og Isobel (Vala Kristín Eiríksdóttir) bíða eftir úrskurði Carters (Vals Freys Einarssonar) um hvert þeirra verði að fara. Svo hefst leikurinn.
Leikurinn
Um hvað snúast átökin? Thomas er alinn upp við þá vissu Breta á eftirstríðsárunum að hæfileikar skili þeim bestu upp á toppinn. Þetta heitir „meritocracy“ á ensku, trúin á að hæfileikar geti vegið meira en stétt. Þetta er líka ameríski draumurinn í hnotskurn og jafnframt kapítalismi fyrir börn. Tony og Isobel vita að þetta stenst ekki, vegna þess að svo margt hæfileikaríkt og vel menntað fólk berst um sætin á toppnum í markaðs- og neyslusamfélagi samtímans. Hæfileikar skipta ekki sköpum en hvað gerir það þá? Isobel er með það á hreinu, það er lögmál Darwins sem blívur – „survival of the fittest“. Tony og Isobel vita hvað í því felst og Thomas er tilbúinn til að gera allt til að fá vinnuna. Hver er munurinn á þeim þremur? Það er yfirmannsins/dómarans að dæma um það.
Túlkunin
Leikrit Mike Bartlett er mjög vel skrifað, þétt, grimmt og um leið með þessa „afstöðufrekju“ sem einkennir breskt nútímaleikhús. Kristín Eysteinsdóttir velur að setja sýninguna niður í hnefaleikahring og áhorfendur sitja í kringum hann. Þetta er átakavettvangur og hreyfingar og stöður tóku mið af því, horn og kaðlar voru notuð faglega. Leikmynd og búningar Grétars Reynissonar voru vel hugsuð og leikgervi Árdísar Bjarnþórsdóttur, einkum var gervi Isobel tilkomumikið. Isobel og Tony voru frábærlega útpæld og kvikindisleg, þau sóttu að Thomas eins og snareðlurnar í Júragarðinum sem veiða tvær – eða þrjár – saman. Eysteinn Sigurðsson þurfti að fara yfir stærra svið sem Thomas, sýna fleiri spil, og fór vel með það. At er sýning sem heldur áfram að vinna í kollinum á áhorfanda og sýnir vel að minna getur verið meira í leikhúsinu.
Deila
Saga alþýðukonu og ögrandi kvenskörungs
7. June, 2024Það er ekkert lengur til!
3. May, 2024Nú er frost á Fróni
6. March, 2024[/container]