Kveðið í bjargi

[container]

„Fallegur kórsöngur verður ekki til með því að ýta á takka. Slíkur söngur verður aðeins til með vinnu, samvinnu og heiðarleika, gagnvart sjálfum sér og öðrum.“ Þessi orð má lesa í nýútkominni bók sem heitir Kveðið í bjargi – Þorgerður Ingólfsdóttir, Hamrahlíðarkórarnir og tónskáldin þeirra og lét Þorgerður þau falla í mjög fróðlegu viðtali við Bergþóru Ingólfsdóttur. Það er Eyja – útgáfufélag sem gefur verkið út.



Bókin hefst á Þorgerðarstemmu eftir Thor Vilhjálmsson en síðan kemur fyrrnefnt viðtal við Þorgerði kórstjóra þar sem hún segir frá æsku sinni, uppvexti og námi. Hún segir frá foreldrum sínum og minnist Ingu móður sinnar með sérstakri hlýju en hún var alltaf til staðar, ekki bara fyrir Þorgerði heldur einnig og ekki síður fyrir kórfélaga, „…hún gat takið málstað krakkanna ef Þorgerður varð leið út í þau, réttlætt þeirra sjónarmið og séð málin frá báðum hliðum“ (21). Sagt er frá því hvernig það kom til að Þorgerður réði sig sem kórstjóra við Menntaskólann við Hamrahlíð árið 1967. Þarna kemur ýmislegt fróðlegt fram sem gott er að halda til haga og fá frá fyrstu hendi.


Í bókinni kemur fram að til eru yfir 120 raddsetningar og frumsamin tónverk sem gerð hafa verið fyrir Þorgerði og kóra hennar. Það segir nú sína sögu um kórstarfið í Hamrahlíð. Þarna má nefna tónskáld allt frá Þorkatli Sigurbjörnssyni, Jóni Nordal og Atla Heimi Sveinssyni til Hildigunnar Rúnarsdóttur, Hrafnkels Orra Egilssonar og Örnólfs Eldons Þórssonar.
Í bókinni kemur fram að til eru yfir 120 raddsetningar og frumsamin tónverk sem gerð hafa verið fyrir Þorgerði og kóra hennar. Það segir nú sína sögu um kórstarfið í Hamrahlíð. Þarna má nefna tónskáld allt frá Þorkatli Sigurbjörnssyni, Jóni Nordal og Atla Heimi Sveinssyni til Hildigunnar Rúnarsdóttur, Hrafnkels Orra Egilssonar og Örnólfs Eldons Þórssonar. Í bókinni eru öll tónskáldin talin upp en þessi hér nefnd eingöngu til að sýna fjölbreytnina. Einnig má finna í bókinni lista með nöfnum þeirra sem raddsett hafa fyrir kórana og þeirra sem þýtt hafa ljóð og gert söngtexta. Sagt er sérstaklega frá nokkrum verkum og tónskáldum þeirra. Kemur þar fram af hvaða tilefni verkið er samið og birt er mynd úr viðkomandi verki. Má þar sjá m.a. mynd af handriti Þorkels Sigurbjörnssonar af fyrsta verkinu sem samið var sérstaklega fyrir kórinn. Það heitir Tröllaslagur og var frumflutt við fyrstu brautskráningu stúdenta frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 1970. Oft segja tónskáldin sjálf frá og einnig eru stuttar frásagnir kórmeðlima um viðkomandi verk þar sem þeir segja frá sinni upplifun af því að æfa og flytja verkið og gefur sá lestur mjög skemmtilega innsýn í kórstarfið. Geisladiskur fylgir bókinni þar sem heyra má sum þeirra verka sem fjallað er sérstaklega um. Þar má heyra upptökur frá 1976 og til ársins 1910 og er þeim ætlað að styðja frásagnir af viðkomandi verkum og gefur það alveg nýja og meiri vídd við lesturinn.


Árni Heimir Ingólfsson ritar mjög góða grein um kórstarfið í Hamrahlíð og ber hún heitið Að gera hlutina vel. Þar segir á einum stað: „Oft nær Þorgerður slíkum árangri að grandvaralaus hlustandi gleymir úr hverju hljóðfæri hennar er byggt. Efniviður hennar er á bilinu 50-100 ungmenni á aldrinum 16-25 ára, sem fæst hafa nokkra þekkingu í söng eða tónlist“ (121). Það má nefnilega ekki gleyma því að þetta er áhugastarf ungmenna í menntaskóla en ekki menntaðir atvinnusöngvarar. Árni Heimir segir þarna frá ýmsum þeim aðferðum sem stjórnandinn beitir sem leiðir til þess að: „Úr þessum ólíka efniviði nær Þorgerður slíkum listrænum framförum að undrum sætir. Með góðri kennslu, jákvæðum aga og ótal æfingum má á nokkrum misserum gera jafnvel mesta músikrata að brúklegum kórsöngvara“ (121).
Ríflega 170 ljósmyndir prýða bókina. Þar er að finna stórar ljósmyndir sem teknar hafa verið af kórnum fyrir einhvern ákveðinn viðburð svo sem ferð til útlanda þar sem allir eru í sínu fínasta pússi. Einnig hefur verið leitað til yngri og eldri kórmeðlima sem hafa lánað ýmsar tækifærismyndir sem sýna meiri galsa og minna enn frekar á að þetta er hópur ungs fólks sem kann að skemmta sér og hafa gaman af lífinu.


Bókin er vel unnin og ákaflega fróðleg fyrir þá sem áhuga hafa á kórstarfi. Það er yfir henni ákveðin heiðríkja sem smitar út frá sér og er maður mun glaðari eftir að hafa lesið hana og skoðað allar myndirnar. Á forsíðu má sjá nóturnar af verki Jón Nordals sem bókin heitir eftir. Auk þess vísar nafnið í Hamrahlíðina þar sem kórarnir eiga lögheimili og kveða þar ótt og títt.

Höfundur
Einar Sigurmundsson

Einar Sigurmundsson

Einar Sigurmundsson er með M.A. – próf í hagnýtri ritstjórn og útgáfu. Hann hefur áður lokið B.A. – prófi í almennri bókmenntafræði og lagt stund á meistaranám í íslenskum bókmenntum.

[fblike]



[/container]