[container]

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar

 Akureyrsku „dívurnar” Sunna Borg og Saga Geirdal Jónsdóttir eru komnar suður. Þær sýna í Tjarnarbíói
leikritið Lísa og Lísa sem sló í gegn hjá Leikfélagi Akureyrar í fyrra. Leikstjóri er Jón Gunnar, leikmynd og búninga annast Móeiður Helgadóttir og lýsingu Þóroddur Ingvarsson.

Leikritið er eftir unga, írska rithöfundinn og leikkonuna Amy Conroy og heitir á frummálinu:  I Alice I (Ég elska Alice (Alice) elskar mig),  samhverfan er óþýðanleg á íslensku. Karl Ágúst Úlfsson þýddi og staðfærði verkið, það tekst mjög vel. Kveikjan að verkinu var sú að höfundurinn, Amy Conroy, sá tvær miðaldra konur kyssast í stórmarkaði, henni fannst að rödd þeirra sem hafa orðið að fela ást sína hefði ekki heyrst í leikhúsinu en nú væri tími til kominn.  Conroy skrifar leikritið inn í hefð heimildaleikhússins (documentary theatre) sem er svo mjög í tísku núna en það er eins konar ný-raunsæi, sem segist sýna hráan veruleika, byggja á viðtölum, fréttum og hversdagslífi fólks.

Leikritið er afar vel skrifað og hluti af því er leikur að þessu formi, við getum ekki vitað hvort þetta eru sviðsettar einræður og samtöl raunverulegra kvenna eða tilbúningur. Amy Conroy hefur sagt í viðtali að það hafi skipt miklu máli fyrir sig að fólk tryði því að Lísurnar tvær væru alvöru konur í veruleikanum en í öðru viðtali kemur fram að hún hafi samið leikritið sjálf. Hún er lék síðan Lísu Sveins á móti Clare Barrett í fjölmörgum, verðlaunuðum sýningum verksins.

Lísurnar tvær að norðan, Sunna og Saga, voru á sviðinu í Tjarnarbíó þegar inn var komið,  sviðsmyndin er byggð upp í hring í kringum þær og þær eru i gagnvirku sambandi við áhorfendur, sýna þeim myndir og snúa sér beint til þeirra öðru hvoru. Lísurnar vissu vel að þær væru í sviðsljósinu og höfðu augljóslega áhyggjur af stöðum sínum á sviðinu og leik, en leikhöfundurinn hafði beðið þær að taka þátt og þess vegna voru þær mættar upp á dekk. Lísa Sveins (Saga) er upphaflega á móti því, Lísa Konráðs (Sunna) vill það gjarna. Hún er ekki kirkjurækin eins og Lísa hin en hún hefur ýmislegt að skrifta og að auki vilja þær báðar tala um fullkomið samfélagslegt réttleysi sitt á meðan þær halda áfram laumuspilinu.  Þær eru í raun mjög ólíkar konur og leyndin sem hvílt hefur yfir ástum þeirra hefur tekið sinn toll en hún er líka óaðskiljanleg frá ástum þeirra og sögu saman. Þess vegna finnst Lísu Sveins eitthvað tekið frá þeim við að opinbera allt. Það tekur á þær báðar. Saga þeirra rúmar sársaukafull feilspor, ást og vináttu, samstöðu og gleðiefni, ágreining, reiði og svik. Þetta er með öðrum orðum saga af löngu og ástríku sambandi og margt af því að læra.

Sunna Borg og Saga Jónsdóttir léku Lísunar af öryggi og þokka. Textinn er þakklátur því að þó leikritið sé tilfinningasamt á köflum er það líka fyndið og persónurnar einlægar og vekja bæði aðdáun og samúð. Það er hins vegar á mörkunum að það gangi að setja sýningu upp þannig að setið sé kringum hana í Tjarnarbíó. Sviðsrýmið sem leikið er á verður lítið og áhorfendur sjá og heyra misvel eftir sjónarhornum. Mér fannst líka leikmynd og búningar umdeilanleg, húsbúnaður hjá Lísu og Lísu var gamall og Góða-hirðis-legur, fullt af húsgögnum með skápa og skúffur sem hægt var að tína leikmuni upp úr. Lísurnar voru hins vegar nútímalega klæddar og Lísa Sveins glerfín svo áhrifin af þessu voru frekar misvísandi.  Ekki virtist það þó trufla sýningagesti sem fóru af sýningunni með stjörnur í augum.

Deila


[/container]