[container]
Þegar að það fréttist að á degi íslenskrar tungu, þann 16. nóvember, myndi Bjartur sem jafnan er kenndur við Sumarhús líta við á Gljúfrasteini og ræða þar við fólk, var það alveg nógu forvitnilegt til að leggja leið sína í Mosfellsdalinn og berja að dyrum í húsi skáldsins.Á Gljúfrasteini þar sem Halldór Laxness og kona hans Auður Sveinsdóttir bjuggu, er nú rekið safn. Allt er þar eins og húsráðendur hafi rétt brugðið sér af bæ og ekki er alveg laust við að vindlailmur sé í loftinu. Þarna má sjá hvernig Halldór bjó, hvar hann svaf, hvar hann vann, hvar hann borðaði og hvar hann hélt fín boð. Oft voru haldnir tónleikar í stofunni, jafnvel svo formlegir að prentuð voru sérstök boðskort. Eitt sinn hélt þekktur pólskur píanóleikari, Henryk Sztompka, tónleika í stofunni og var áttatíu manns boðið á viðburðinn. Prentuð var sérstök tónleikaskrá og var öllum viðstöddum boðið til kvöldverðar á eftir. Þetta er staðurinn þar sem þjóðhöfðingjar og fyrirfólk kom við til þess að heilsa upp á skáldið. Þó að þetta sé safn um Halldór þá er þetta ekki síður safn um Auði konu hans sem hafði yfirumsjón með hönnun hússins, stýrði öllu á heimilinu og annaðist veislurnar. Þarna má líka sjá gongið sem hún notaði til að láta mann sinn vita að hádegisverður væri kominn á borðið, auk þess sem sjá má veggteppi og útsaumaða púða eftir hana víða um húsið. Fjölskylda skáldsins gaf allt innbú sem í húsinu var þegar að ríkið keypti Gljúfrastein ásamt þeim listaverkum sem þar voru, árið 2002.
Eftir að heimili þeirra hjóna breyttist í safn hefur þeim sið verið viðhaldið að bjóða fólki heim til að hlýða á tónlist og upplestur skálda. Sunnudaginn 16. nóvember síðastliðinn var boðið til stofu á Gljúfrasteini og var hún þétt setin. Tilefnið var að þeir Atli Rafn Sigurðarson og Ólafur Egill Egilsson ætluðu að segja frá jólasýningu Þjóðleikhússins, leikgerð sem unnin er upp úr einni þekktustu skáldsögu Halldórs Sjálfstætt fólk. Þeir Atli og Ólafur semja leikgerðina ásamt Símoni Birgissyni og Þorleifi Erni Arnarsyni, en sá síðastnefndi er einnig leikstjóri sýningarinnar. Báðir leika þeir í sýningunni, Ólafur kennarann en Atli Rafn leikur aðalhlutverkið, sjálfan Bjart í Sumarhúsum. Þeir ræddu almennt um sýninguna og afhverju þeir teldu ástæðu til að setja söguna upp á leiksviði á okkar dögum. Sögðu þeir að sagan og persónur hennar væru svo margbreytilegar að þær höfðuðu alltaf til fólks, en þó með ólíkum hætti á ólíkum tímum. Þessu til stuðnings lásu þeir eftirfarandi tilvitnun úr skáldsögunni, sem verður að viðurkennast að gæti verið beint upp úr dagblöðum gærdagsins: „Það gagnar nefnilega ekki að bjóða neinum góð kjör nema ríkum mönnum, ríkir menn eru þeir einir sem geta þegið góð kjör. Að vera fátækur er einmitt þetta sérkennilega ástand mannsins að geta ekki tekið á móti kostakjörum“.
Fram kom í máli þeirra að sýningin yrði nokkuð hvöss og alvarleg og að Bjartur yrði ekki sýndur sem sú hetja sem margir hafa séð í honum. Skemmtilegar umræður sköpuðust meðal gesta og höfðu sumir áhyggjur af því að Bjartur yrði gerður að of miklum skúrki. Spurt var hvort að sýningin ætti þá nokkuð erindi til aðdáenda Bjarts. Atli sagði að það væri alls ekki ætlunin með sýningunni að gera lítið úr söguhetjunni, honum þætti sjálfum mjög vænt um Bjart og myndi passa upp á að honum yrði sýnd sanngirni. Hins vegar væri ekki allt til fyrirmyndar sem Bjartur hefði gert og yrði ekki dregin nein fjöður yfir það. Talsverðar umræður sköpuðust um söguna og persónur hennar og var greinilegt að menn túlkuðu þar ýmislegt með mismunandi hætti. Er það til marks um hversu vel þessi saga er skrifuð að hún skuli kalla fram svo ólíkar túlkanir meðal lesenda en um leið sterkar tilfinningar til kotbóndans Guðbjarts Jónssonar. Það var bæði skemmtilegt og athyglisvert að eyða þessu sunnudagseftirmiðdegi með Bjarti og aðdáendum hans á heimili höfundarins. Margt fleira var rætt en þegar klukkan í forstofunni sló fimm högg var ákveðið að láta gott heita. Gestirnir þökkuðu fyrir sig og héldu heim á leið, örugglega flestir staðráðnir í að sjá jólasýningu Þjóðleikhússins.
Saga alþýðukonu og ögrandi kvenskörungs
7. June, 2024Það er ekkert lengur til!
3. May, 2024Nú er frost á Fróni
6. March, 2024Deila
[/container]
Leave a Reply