Óvænt listsýning um nótt

[container]
Perlufesti – Höggmyndagarður kvenna í Hljómskálagarði.

„Það stendur kona í Tjörninni!“

hafmeyjan
Hafmeyjan (Nína Sæmundsson).

Úrhellinu hafði slotað og nóvembernóttin var stillt og mild. Við vorum þrjár stöllurnar á heimleið gegnum Hljómskálagarðinn ímyrkrinu. Votir gangstígarnir glitruðu í gulri raflýsingunni og gáfu fyrirheit um hálku undir morgun. Þar sem ég var svoniðursokkin við að draga upp mynd af sjálfri mér fljúgandi á hausinn á hjólinu mínu næsta dag, tók ég ekki eftir konunni í Tjörninni fyrr en göngufélagi minn hrópaði upp.

Mikið rétt, það var eitthvað þarna úti í vatninu, spölkorn frá bakkanum. Svei mér ef ég þóttist ekki kannast við sjálfa Hafmeyju Nínu Sæmundsson, þá sömu og einu sinni  hafði verið sprengd í loft upp, að því er virðist fyrir að misbjóða smekk manna. Og þegar við fórum að líta kringum okkur, reyndust fleiri furðuverur birtast í myrkum garðinum. Höggmyndirnar voru við nánari skoðun sex, gerðar á árunum 1948-1976 og allar voru þær eftir konur. Við göngufélagarnir veðruðumst dálítið upp yfir þessu, enda sjálfar allar listmenntaðar og af sumum þessara listakvenna höfðum við ekki heyrt áður. Stórmerkilegt.

Næsta dag var ég enn með hugann við þennan áhugaverða fund í Hljómskálagarðinum og um leið og örugglega var orðið hálkulaust, brá ég mér á hjólið til að kanna verkin betur. Dagsbirtan afhjúpaði þessi dularfullu verk til fullnustu og reyndust þau vera:

Hafmeyjan eftir Nínu Sæmundsson frá 1959.
Sonur eftir Ólöfu Pálsdóttur frá 1955.
Piltur og stúlka (Kata og Stebbi) eftir Þorbjörgu Pálsdóttur frá 1968.
Maður og kona eftir Tove Ólafsson frá 1948.
Landnámskonan eftir Gunnfríði Jónsdóttur frá 1955.
Nafarinn eftir Gerði Helgadóttur frá 1976.

Nafarinn (Gerður Helgadóttir, 1976).
Nafarinn (Gerður Helgadóttir, 1976).

Öll eru verkin hlutbundin utan eitt. Abstraktlistakonan Gerður Helgadóttir (1928-1975) er auðvitað vel kynnt í íslenskri listasögu, ekki síst vegna safns sem rekið er í hennar nafni í Kópavogi. Af hinum munu margir þekkja Nínu Sæmundsson (1892-1965), en þá væntanlega fyrst og fremst vegna spellvirkjanna sem unnin voru á Hafmeyjunni hennar um áramótin 1959/60. Nína var lengi búsett í Bandaríkjunum og naut mikillar velgengni sem myndhöggvari. Verk hennar voru hins vegar í litlum metum hjá íslenskri listaelítu á sjötta áratugnum, forkólfar Bandalags íslenskra listamanna kröfðust þess að Hafmeyjan yrði fjarlægð og kvartað hafði ítrekað verið yfir verkinu í dagblöðum. Ekki er vitað hverjir stóðu að sprengingunni.

Ég grennslaðist örlítið fyrir um hinar listakonurnar.

Landnamskonan
Landnámskonan (Gunnfríður Jónsdóttir, 1955).

Gunnfríður Jónsdóttir (1889-1968) reyndist hafa verið eiginkona Ásmundar Sveinssonar og fyrsta konan sem starfaði sem myndhöggvari á Íslandi. Hús þeirra á Freyjugötu, sem nú er safn og kennt við Ásmund, var vinnustofa þeirra beggja.

Tove Ólafsson (1909-1992) var danskur myndhöggvari og var um árabil gift Sigurjóni Ólafssyni myndhöggvara. (Athugið að til er Sigurjónssafn en ekkert Tovesafn …) Verkið Maður og kona sem í garðinum stendur var upphaflega gefið Þjóðleikhúsinu við opnun þess árið 1950, en því síðan úthýst og þá fært borginni til varðveislu.

Þorbjörg Pálsdóttir (1919-2009) var einn stofnandi Myndhöggvarafélagsins. Í minningargrein um hana í Morgunblaðinu er hún titluð myndhöggvari og húsmóðir og þar kemur fram að hún ól upp sjö börn. Þorbjörg á þekkt verk, Dansinn, við Perluna í Reykjavík.

Sonur (Ólöf Pálsdóttir, 1955).
Sonur (Ólöf Pálsdóttir, 1955).

Ólöf Pálsdóttir (fædd 1920) er kunnust fyrir mynd sína af Erling Blöndal Bengtssyni sellóleikara, sem stóð lengst af við Háskólabíó en stendur nú við Hörpu. Fyrir verkið sem nú stendur í Hljómskálagarðinum hlaut hún gullmedalíu Konunglegu dönsku listaakademíunnar árið 1955. Ólöf var lengi sendiherrafrú og búsett víða um heim.

Á heimasíðu Reykjavíkurborgar kemur fram að höggmyndagarðurinn, sem hefur hlotið nafnið Perlufesti (með vísun í það að styttunum hefur verið komið fyrir í hring), var opnaður þann 19. júní síðastliðinn og að Listasafn Reykjavíkur hafi haft umsjón með vali verkanna. Á síðunni segir einnig:

Ferill þessara kvenna var ólíkur enda voru aðstæður þeirra afar mismunandi en verkin sýna breiddina í listsköpun þeirra. Það sem listakonurnar eiga þó sameiginlegt er að vera frumkvöðlar á mótunarskeiði myndlistar á Íslandi og að hafa brotist til mennta og haft þann styrk að stunda list sína við erfiðar aðstæður.

Maður og kona (Tove Ólafsson, 1948).
Maður og kona (Tove Ólafsson, 1948).

Og víst voru aðstæður þessara Karitasa íslenskrar listasögu erfiðar. Það er ekki þar með sagt að verkum karlkyns kollega þeirra hafi ekki einnig verið hafnað, hver veit nema einhver hafi meira að segja verið sprengd í tætlur. En listakonurnar háðu rammari baráttu, þær voru einnig að berjast gegn samfélagsgerðinni og þeim kynhlutverkum sem þeim voru ætluð. Gerður og Nína helguðu líf sitt alfarið listinni og syntu gegn straumnum, aðrar í hópnum féllu í skuggann af eiginmönnum sínum og höfðu ótal skyldum að gegna við barnauppeldi og heimilishald.

Þriðja bylgja femínismans skilar okkur stórvirkri endurskoðun á mannkynssögunni um þessar mundir. Á vafri mínu um netið undanfarið hef ég rekist á hverja greinina af annarri þar sem sagt er frá rannsóknum sem leiða í ljós áður óþekktan hlut kvenna í sögunni. Fornleifafræðingi dettur í hug að kyngreina beinagrindur Skýþahermanna og kemst að því að þriðjungur þeirra er konur (margar þeirra höfðu látist af svöðusárum).

Piltur og stúlka (Kata og Stebbi), (Þorbjörg Pálsdóttir, 1968).
Piltur og stúlka (Kata og Stebbi),
(Þorbjörg Pálsdóttir, 1968).

Rannsóknir á handritum J.S. Bachs hafa orðið til þess að síðari eiginkona hans, Anna Magdalena, er jafnvel talin hafa samið mörg af þekktari verkum hans, þar á meðal sellósvíturnar.

Sú ákvörðun borgarráðs að koma upp höggmyndagarði kvenna er liður í endurskoðun listasögunnar. Og ekki er vanþörf á: Þrjár listmenntaðar konur fá sér göngutúr og uppgötva fjórar íslenskar listakonur fortíðar sem þeim var lítt kunnugt um áður. Margur hefur fengið minna út úr spássitúr.

Sigríður Ásta Árnadóttir, meistaranemi í ritstjórn og útgáfu.

[/container]


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *