Dramatísk dama
Það er að sjálfsögðu sýningin Konan við 1000° eftir Hallgrím Helgason sem hér um ræðir. Herbjörg María er leikin af tveimur leikkonum, Herbjörgu yngri sem er leikin af Elmu Stefaníu Ágústsdóttur. Elma hefur komið sterkt inn í Harmsögu Mikaels Torfasonar, Eldraun Arthur Millers og nú í Konunni við 1000°. Elma túlkar Herbjörgu fram til ca.18 ára aldurs með áherslu á sakleysi hennar og einlægni. Herbjörg eldri er leikin af Guðrúnu Gísladóttur sem vinnur hlutverkið af nákvæmi og innsæi. Henni tekst að túlka Herbjörgu Hallgríms Helgasonar þannig að andstæðurnar í henni renna saman; hún er samtímis „lady and a tramp“, hámenntuð alþýðustúlka, viðkvæmur ruddi, klámfenginn púrítani. Hún talar í stuðlum eins og Blálandskeisari Benedikts Gröndals í Heljarslóðarorustu.
Eins og milljónir barna í Mið-Evrópu upplifir Herbjörg skelfingar síðari heimsstyrjaldarinnar, verður viðskila við foreldra sína tólf ára gömul og tekst að lifa af til stríðsloka en fær sinn skerf af hungri, nauðgunum og hryllingi sem merkja hana fyrir lífstíð. Tveimur heimsálfum, þremur eiginmönnum og fjórum börnum síðar hittum við hana í bílskúrnum, harða konu, óbilgjarna og reiða en um leið óborganlega klára og fyndna. Hugur hennar reikar til baka, saga hennar er sögð í svipmyndum, stuttum senum, sem leiknar eru á tvískiptu sviðinu. Það er vel nýtt með yfir- og hliðarrými utan um hið þrönga rými hennar í skúrnum sem hún yfirgefur aldrei en þar sem minningarnar og persónur úr lífi hennar ryðjast inn. Konan við 1000° er ákaflega metnaðarfull sýning þar sem mikið hæfileikafólk leggur saman krafta sína.
Saga verður leikrit
Sögur Hallgríms Helgasonar eru ekkert sérlega vel fallnar til leikgerða, þær gerast í tungumálinu og styrkur þeirra er stríður straumur frumlegra vísana og mynda og harðsoðnar persónur sem eru heimur útaf fyrir sig. Baltasar Kormáki tókst þó vel að endurskapa kaldhæðna kynslóðarlýsingu bókarinnar Þetta er allt að koma í samnefndri sýningu fyrir tíu árum. Skáldsagan Konan við 1000° eftir Hallgrím Helgason er hins vegar stórt, epískt verk sem fer yfir lönd og höf, kynnir lesanda fyrir fjölmörgum persónum sem lifa viðburðaríkustu tíma tuttugustu aldarinnar og burðast með trámu sín allar götur síðan. Þessari sögu er breytt í leikrit með fáum leikurum á litlu sviði. Hallgrímur sjálfur, leikstjórinn Una Þorleifsdóttir og Símon Birgisson dramatúrg höfðu það erfiða verkefni og það gengur ekki nógu vel upp að mínu viti.
Of mikið, of hratt
Ég hafði ekki lesið bók Hallgríms fyrir sýninguna og hélt það væri kostur. Mér fannst sýningin um margt áhrifarík en jafnframt ansi „frústrerandi“. Ég skildi ekki sumar senur, hvernig þær tengdust og hvað þær voru að gera, það voru göt í myndinni. Ég tók mig því til og las skáldsögu Hallgríms næstu daga og fannst hún alveg mögnuð. Þá skildi ég fyrst hve ótrúlega flókið samband Herbjargar er við fjölskyldu sína, hvernig góðu tímarnir með drengjunum gera svikin verri og særindin illskeyttari. Þessi undirbygging bókarinnar hefði vel mátt koma skýrar fram í sýningunni. Samskipti Herbjargar við Magnús (sem leikinn er af Baldri Trausta Hreinssyni) og konu hans Ragnheiði (sem leikin er af Eddu Arnljótsdóttur) voru mjög vel unnin og áhrifarík en maður gat ekki vitað hvort hefði nokkurn tíma verið tilfinningasamband milli Herbjargar og sona hennar.
Í leikgerðinni er lögð áhersla á stríðið og þar koma saman þrír meginþættir verksins sem er saga íslensku þjóðarinnar, fjölskylduharmleikur Herbjargar, og sú ógn og skelfing sem hún upplifir sem barn og umbreytir henni í þann varg sem hún verður. Þar hefði mátt setja punkt. Eftir það verður barnsmissirinn sem Herbjörg segir frá í míkrófón ekki tragískur hápunktur. Mannraunir, nauðganir og sifjaspell (sem ég skildi fyrst eftir að hafa lesið bókina), hafa hlaðist upp of hratt á of stuttum tíma og eftir það er einhvern veginn engin leið til baka. Eins og kerlíngin segir í Birtingi: „Mér þætti gaman að vita hvort verra er að láta blámenn nauðga sér hundrað sinnum, láta skera af sér þjóhnappinn, gánga svipugaungin hjá Búlgurum, vera húðstrýktur og heingdur í trúarathöfn, vera krufður, róa galeiðu, rata í allar þær raunir sem við höfum þolað, eða hánga hér í aðgerðaleysi?“
Það hefði áreiðanlega verið hægt að gera stórmynd uppúr hinni miklu bók Hallgríms eða kosta öllu til og setja leikritið upp á stóra sviðið í Þjóðleikhúsinu með fjölda leikara eða breyta henni í einleik (með Guðrúnu Gísladóttur) sem hefði kannski verið best. Hvað veit ég. Um sýninguna eru skiptar skoðanir eins og fram hefur komið í viðtökum. Ég sagði í upphafi að það er mikið hæfileikafólk sem leggur saman krafta sína í þessari metnaðarfullu sýningu en fyrir mína parta held ég að verkefnið hafi verið óvinnandi frá upphafi.
Saga alþýðukonu og ögrandi kvenskörungs
7. June, 2024Það er ekkert lengur til!
3. May, 2024Nú er frost á Fróni
6. March, 2024Deila
[/container]
Leave a Reply