RIFF: Mannleg saga í hugljúfu landkynningarmyndbandi


[container] 
Land Ho! (Land fyrir stafni!),
opnunarkvikmynd RIFF í ár, vegur salt milli þess að vera vegamynd og landkynningarmyndband. Myndin er samvinnuverkefni bandarísku leikstjóranna og handritshöfundanna Aaron Katz og Mörthu Stephens. Þrátt fyrir stuttan feril hafa þau náð töluverðum árangri í kvikmyndagerð og unnið til nokkurra verðlauna. Á dagskrá RIFF er Land Ho! sett í flokkinn „Ísland í brennidepli“ og það ekki að ástæðulausu því hún gerist að langmestu leyti hér á landi. Þar að auki koma fjölmargir Íslendingar að framleiðslu og gerð hennar, svo sem meðframleiðendurnir Birgitta Björnsdóttir og Hlín Jóhannesdóttir.

Í myndinni er mikil áhersla lögð á kvikmyndatökuna og er reynt að fanga sjónarspilið í náttúru Íslands á sjónrænan hátt. Raunar er svo mikil áhersla lögð á landslagið að samhengi sögunnar líður fyrir það. Staðirnir sem heimsóttir eru í myndinni eru til dæmis rækilega merktir með texta þvert yfir tjaldið, s.s. Landmannalaugar, Reykjavík og Gullni hringurinn. Það fer því ekki milli mála að Ísland er í aðalhlutverki.

Myndin segir frá samskiptum svilanna Mitch og Colins sem nálgast eftirlaunaaldurinn. Saman halda þeir til Íslands að frumkvæði Mitch. Það gerir hann í von um að styrkja sambandið þeirra á milli og hleypa fjöri í líf Colins, sem er að ná áttum eftir hjónaskilnað. Colin er jarðbundinn og þenkjandi en með óljósa hugmynd um hvað veiti honum hamingju í lífinu. Mitch er aftur á móti kannabis-reykjandi hávaðabelgur sem telur að lífið snúist um að lifa fyrir augnablikið, komast í vímu og stunda kynlíf. Á ferðalaginu hitta þeir unga frænku Mitch og vinkonu hennar, skella sér út á lífið, skoða náttúru landsins og þess á milli spjalla þeir spekingslega sín á milli um fortíðina, lífsgildin og hvernig hægt sé að njóta síðustu áranna. Sagan er í ætt við bandarísku vegamyndina (e. road movie) sem rík hefð er fyrir í kvikmyndagerð þar í landi. Af nýlegum myndum má nefna til hliðsjónar The Bucket List (2007) og Sideways (2004) sem einnig fjalla um tvo aðþrengda karlmenn á miðjum aldri í leit að lífsfyllingu. Í stað þess að kljást við vandamál sín á heimaslóðum halda þeir í ferðalag á framandi slóðir þar sem þeir kynnast sjálfum sér á nýjan leik. Myndirnar tvær hafa fram að færa upplífgandi boðskap um að það sé aldrei of seint að byrja að njóta lífsins.

Land Ho! hefur að einhverju leyti að geyma sambærilegan boðskap en tekst ekki að skila honum alla leið. Persónur Mitch og Colins bjóða upp á áhugaverða togstreitu frá upphafi myndar en henni eru ekki gerð það góð skil að raunverulegt uppgjör verði á milli þeirra. Það glittir í von þeirra félaga um að ferðalagið veiti þeim innblástur um að njóta hverrar stundar í ellinni en margar spurningar standa eftir og vandamál þeirra eru enn óleyst að ferðalagi loknu. Þó svo að málefni á borð við hjónaskilnað og eftirlaunaaldur séu knýjandi vandamál svilanna fá þeir fá tækifæri til þess að leysa þau. Ef til vill vegna þess að í skemmtigarðinum Íslandi eru of mörg leiktæki til að gleyma sér í.  Fyrirferð Colins og Mitch í handritinu veldur því að söguþráðurinn hefur hvorki ris né lausn heldur flýtur um í algleymi ferðalagsins. Nær ekkert pláss er fyrir aukapersónur sem margar hverjar virðast áhugaverðar en verða aðeins stoðtæki fyrir aðalpersónurnar. Eina atriði myndarinnar, þó ekki sterkt sjónrænt séð, sem reynir að kristalla svipaðan boðskap og í áðurnefndum myndum kemur ekki fyrr en undir blálokin. Þá ganga Mitch og Colin meðfram bökkum Bláa lónsins með hanastél í hönd, blikka daðrandi til ungra kvenna, fara úr sloppum sínum og ganga út í lónið: Æskubrunninn. Atriðið sýnir mikinn veikleika í handriti myndarinnar ef miðað er við þá sjónrænu áherslu sem unnið var með fram að því. Aukið rými fyrir persónusköpun hefði mögulega boðið upp á sterkari boðskap og fyrir vikið verður atriðið í Bláa lóninu fljótfærnisleg leið til þess að ljúka mynd af þessu tagi.

Myndin á þó góða spretti sem vega upp óljósan söguþráð. Leikararnir fara oft á kostum við að skapa raunsæisleg og tilgerðarlaus samtöl sem oft kitla hláturtaugarnar. Á köflum er eins og maður sé staddur í heimildarmynd þar sem viðfangsefnin vita ekki af myndavélunum. Tónlistinni má einnig hrósa en hún skapar létt andrúmsloft í löngum senum þar sem aðalpersónurnar gleyma sér í dansi á ströndinni við Reynisdranga eða í Landmannalaugum.

Heilt yfir skortir Land Ho! áhugaverða söguframvindu. Fyrir vikið er hún í besta falli landkynningarmyndband fyrir ferðaþjónustu á Íslandi. Stöku sinnum bregður fyrir vísi að mannlegri sögu en það reynist aðeins vera lítill blettur á stóru landslagsmálverki.

Jóhannes Ólafsson,
meistaranemi í ritlist

[/container]


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *