RIFF: Tár, bros og ballettskór

[container] „Það hljómar kannski klisjulega, en að dansa ballett er besta tilfinning í heiminum,“ segir Lukas Bjørneboe Brændsrød, ein af aðalpersónum norsku heimildamyndarinnar Ballettdrengirnir (Balletguttene). Bestu vinir hans og dansfélagar frá unga aldri, Torgeir Lund og Syvert Lorenz Garcia, eru honum sammála en eiga þó erfitt með að taka ákvörðun um hvort þeir eigi að helga líf sitt dansinum. Rétt eftir fjórfaldan pirouette segir Torgeir: „Að fara á eftirlaun 42 ára og hafa þá eyðilagt líkamann sinn, ég veit það ekki”.

Um er að ræða heimildamynd eftir Kenneth Elvebakk sem sýnd er á RIFF þessa dagana Elvebakk rekur sögu þriggja unglingsgutta sem hafa verið samferða í ballettnámi við Norska ballettskólann og standa nú saman frammi fyrir því vali um hvort þeir leggi dansinn fyrir sig. Myndin er tekin á fjögurra ára tímabili og fylgir félögunum eftir þar sem þeir stunda nám í Osló, ferðast um heiminn, taka þátt í danskeppnum og að lokum ljúka við gagnfræðiskóla og sækja um framhaldsnám í Noregi og Bretlandi.

Allir sem hafa stundað listnám af kappi þekkja það augnablik þegar þeir hafa náð ákveðinni færni og þurfa að taka ákvörðun um hvort þeir fara af fullu afli inn í heim listarinnar eða ekki. Sú ákvörðun getur verið sársaukafull og sumir velkjast lengi í vafa um hvort þeir hafi valið rétt.

Ballettguttarnir Lukas, Syvert og Torgeir eru allir afreksmenn í sinni íþrótt og eru nokkuð öruggir um að vilji þeir á annað borð leggja dansinn fyrir sig þá muni þeir fá tækifæri til þess. Togstreitan sem þeir glíma við í myndinni kemur hins vegar að utan. Foreldrar, kennarar og þjálfarar hafa áhyggjur af framtíð þeirra: „Hvað mun gerast ef dansinn hentar þér ekki? Hvert er plan B?“

Ímynd dansheimsins er gjarnan sú að hann sé sérlega harður og vilji einstaklingar ná árangri þurfi þeir að skuldbinda sig við þjálfun og aga frá unga aldri. Engu að síður var þessi áhersla myndarinnar nokkuð einkennileg. Fjölmargar senur sýndu hvar guttarnir voru ítrekað spurðir hvort það væri snjallt að fjárfesta í danslistinni. Hvað verður um þá ef dansgyðjan verður þeim ekki gjöful? Í einu slíku atriði gekk námsráðgjafi í gagnfræðiskóla hins 14 ára Lukasar svo langt að spyrja hvort hann þekkti “Nav”, félagsþjónustukerfi Noregs – því hann myndi nú ekki vilja enda þar.

Nú er spurning hvort aðstandendur myndarinnar vilji með þessum áherslum deila á ólík samfélagsleg viðhorf til norskra drengja en stúlkna. Að guttarnir þurfi, þrátt fyrir að tilheyra norsku velferðarkerfi, að byrja að hafa áhyggjur af framtíð sinni strax um kynþroskaaldur. Eða, sökum þess að í myndinni er ekki rætt við neinar ballerínur, gætu skilaboðin átt að fela í sér að almennt séu gerðar miklar kröfur til norskra ungmenna um að þau hafi vel úthugsaða framtíðaráætlun. Nú skal ekki úr því skorið en engu að síður verða þessar áherslur klisjulegar í meðförum Elvebakk og vegna hádramatískrar umgjörðar er erfitt að taka áhyggjur drengjanna né aðstandenda þeirra alvarlega.

Aðrar áherslur myndarinnar áttu hins vegar meira erindi. Til að mynda sjónarhorn Syverts en hann er af annarri kynslóð asískra innflytjenda í Noregi. Hann fullyrðir að hann muni eiga erfiðara með að komast áfram í listinni en þeir Torgeir og Lukas, sökum þess að hann hefur asískt útlit. Ef hann gæti myndi hann skipta því út fyrir annað og norskara. Einnig er sú mynd dregin upp að Syvert búi við meiri pressu um að standa sig vel en félagar hans sökum þess að foreldrar hans eru innflytjendur. Balletguttene er því góð mynd. Hún hefur feikigóðar danssenur, bæði brot úr klassískum verkum og nútímadansi sem var fallegt að fylgjast með. Myndin ætlar sér mögulega um of og dansar á tímum við mörk hádramatíkur, nema framhaldspróf í klassískum dansi feli í sér meiri áhættu en ég hef áður haldið. En fyrst og fremst er  Ballettdrengirnir þó skemmtileg heimildamynd þar sem leikstjóra tekst að lýsa fallegri vináttu þriggja félaga í Osló sem takast á við krefjandi umhverfi í sameiningu og reyna, þrátt fyrir mikið álag, að setja vináttuna í fyrsta sæti. Eða eins og Torgeir Lund orðar það: „Þetta er auðvitað samkeppni, en hvetjandi og vinaleg samkeppni.“

Niðurstaða: Falleg heimildamynd um vináttu þriggja unglingsstráka sem reyna í sameiningu að takast á við krefjandi heim listarinnar.

Sólveig Ásta Sigurðardóttir,
meistaranemi í menningarfræði

[/container]


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *