Mosavaxin sviðsmynd Ronju

[container] Fúið timbur, mosavaxnir steinar, trjágreinar og gras eru meginuppistaðan í leikmynd Evu Bjargar Harðardóttur í söngleiknum Ronju sem frumsýndur er á morgun, laugardag í Bæjarleikhúsinu í Mosfellsbæ. Þessi hráa og náttúrulega umgjörð sýningarinnar helst í hendur við tónlistina sem er órafmögnuð en leikið er á gítar, fiðlu, harmonikku, kontrabassa og slagverk. Listrænir stjórnendur sýningarinnar vildu leggja áherslu á að sýningin yrði eins lífræn og hægt væri, því var farin þessi leið að flétta saman óheflaða og umhverfisvæna sviðsmynd við órafmagnaða tónlist og söng, segir Sigrún Harðardóttir tónlistarstjóri.

ronja2„Þessi hugmynd kviknaði fyrst þegar ég var að hugsa út í hvernig ég gæti nálgast sem umhverfisvænast og ódýrast efni sem á sama tíma myndi túlka umhverfi sögunnar sem best“ segir Eva Björg. Hún safnaði saman gömlu og fúnu timbri í húsagörðum og frá sumarbústöðum. Vörubretti eru einnig notuð sem grunnur sem hún síðan klæðir með mosa, trjágreinum og öðru sem hægt er að finna í náttúrunni. Mikið af timbrinu sem Evu Björgu áskotnaðist í ferlinu er mosavaxið sem hún segir gefa skemmtilega áferð og möguleika á því að leika sér með ljós og skugga í sviðsmyndinni. Hugsunin var aldrei að fara út í bókstaflega túlkun á umhverfinu segir hún heldur að skapa umhverfi sem myndi styðja við söguna.

ronja3Lifandi og órafmögnuð tónlist er á öllum sýningum og hljóðfæraleikarar taka virkan þátt í sýningunni þar sem þeir bregða sér í hin ýmsu gervi. „Það gefur leikurunum og tónlistarmönnunum mikið frelsi og lagið hljómar aldrei alveg nákvæmlega eins tvisvar í röð“, segir Sigrún. Ekki er notast við hljóðkerfi í söngnum enda tekur salurinn ekki nema um 100 áhorfendur svo nálægðin er mikil. Lögin sem hljóma í sýningunni eru annarsvegar úr upprunalega söngleiknum og hinsvegar úr kvikmyndinni. Auk þess samdi Sigrún sjálf eitt lag sem flutt er af Birki, besta vini Ronju. „Það kom þannig til að ég var að lesa handritið og þar á einni síðunni stendur að Birkir flauti „lag Birkis“. En það var ekkert lag Birkis í sýningunni, og heldur ekkert lag sem er leikið síðast fyrir hlé. Þannig að það var ekki um annað að ræða heldur en að semja eitt hresst og skemmtilegt lag fyrir Birki.“

Söngleikurinn um Ronju er frumsýndur á morgun, laugardaginn 27.september kl.16.00 og munu sýningar halda áfram alla sunnudaga fram að jólum.

Rakel Brynjólfsdóttir,
meistaranemi í almennri bókmenntafræði

[/container]


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *