Brilljantín og býsanskir rokkarar

[container] Spriklandi brilljantínrokkarar og spekingslegir dýrlingar munu prýða veggi veitingahússins The Cuckoo´s Nest við Grandagarð frá og með fimmtudeginum 25. september, þegar Þórdís Claessen opnar þar sýningu sína DEUS. 

Þórdís er tónlistarmaður og grafískur hönnuður og er DEUS níunda sýning hennar. „Það eru orðin þrjú ár síðan ég sýndi síðast á Mokka og í Kirsuberjatrénu og ég var orðin verulega hungruð í að gera fleiri myndir,“ segir hún. „Efni myndanna kristallar það sem ég hef verið að fást við síðustu misseri, en ég hef spýtt í í tónlistinni og æft mig mikið bæði á trommur og bassa.“

Í myndum Þórdísar fléttast saman á húmorískan hátt býsanskar helgimyndir og ýmsar táknmyndir úr rokktónlistarheiminum. Þar má til dæmis líta Sankto Chitarra (heilagan gítar) og mynd af Maríu mey sem ekki heldur á neinu Jesúbarni heldur á laglegu, litlu ukulele.

„Ég sýni að þessu sinni tvær myndaraðir, þrjár myndir í hvorri. Önnur er byggð á dýrlingamyndum Austurkirkjunnar en hin fjallar um töffaraímyndina og er innblásin af Elvis Presley og Lukku-Láka á einu bretti!“ segir Þórdís kankvís og bætir því við að hún hafi alltaf verið svolítið veik fyrir að leika sér með helgimyndir og heilagleika.

Tónlistaráhrifin í myndum Þórdísar leyna sér ekki, varla verður annað sagt en það sé heilmikill djass í þessum iðandi, litríku og stílfærðu myndum. Á einni myndinni stendur söngvari hljómsveitarinnar búinn að krossfesta sig sjálfur með hljóðnemastandinum. Þórdís hefur spáð talsvert í persónudýrkun. „Hvenær eru tónlistarmenn orðnir poppgoð? Fólk hefur öskrað og gargað og misst meðvitund síðan rokkið kom fram. Þessi guðadýrkun á tónlistarmönnum hefur verið til æ síðan.“

brilliantin2Þórdís vinnur myndir sínar með blandaðri tækni, þar sem bæði hendur og tölva koma við sögu. Sumt er teiknað í forritinu Illustrator, annað með feitum smiðsblýanti á pappír, bakgrunnar eru málaðir með bleki og krassaðir með litblýöntum. Allt sem er handteiknað er síðan skannað inn, myndverkið sett saman í tölvu og að lokum prentað á „keppnis striga“ eins og Þórdís orðar það sjálf.

Það er ekki laust við að áhrifa frá götulist gæti í verkum Þórdísar og kannast hún vel við að hafa áhuga á slíku. Árið 2007 kom út eftir hana bókin Icepick með myndum sem hún hafði safnað um margra ára skeið af íslensku graffi. Hún vill þó ekki kannast við að hafa graffað mikið sjálf og segist fyrst og fremst hafa gaman af að fylgjast með.

„Reyndar prentaði ég út og límdi upp á veggi á nokkrum stöðum Ósóma-kindina mína, sem var lógó verslunar sem ég rak og þar sem ég seldi boli með myndum eftir sjálfa mig. Kindin varð með tímanum hluti af stærra verki eftir aðra graffara, sem mér þótti sniðugt.“

Sýningin DEUS stendur fram til 8. nóvember og munu rokkíkonarnir því enn hanga uppi þegar tónlistarhátíðin Airwaves brestur á. „Það er skemmtilega viðeigandi að sýningin verði hluti af þeirri miklu tónlistaruppskeruhátíð sem Airwaves er, algjör bónus,“ segir Þórdís að lokum.

Sigríður Ásta Árnadóttir,
meistaranemi í hagnýtri ritstjórn og útgáfu

[/container]


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *