Rit um rómantísku skáldin og íslenska náttúru

[container] Út er komið fræðiritið Náttúra ljóðsins: Umhverfi íslenskra skálda eftir Svein Yngva Egilsson prófessor við Háskóla Íslands.

Náttúra og umhverfi hafa verið eitt helsta yrkisefni íslenskra skálda frá því á 19. öld. Í bókinni er sýnt hvernig rómantísk skáld móta myndina af íslenskri náttúru og leggja áherslu á ólíkar hliðar hennar, allt frá ægifegurð eldfjalla og hafíss til algrænnar sveitasælu. Mynd Íslands verður mikilvæg í sjálfstæðisbaráttunni og tengist menningarpólitík, en náttúrusýnin þróast og verður sálfræðilegri á 20. öld í ljóðum íslenskra nútímaskálda sem lýsa innra landslagi og hugarheimum.

Rauði þráðurinn í bókinni er rómantíkin og arfleifð hennar frá Jónasi Hallgrímssyni til núlifandi skálda sem yrkja þannig um náttúru og umhverfi að það má lesa í ljósi skáldskapar og fagurfræði 19. aldar. Auk Jónasar koma hér einkum við sögu Steingrímur Thorsteinsson, Matthías Jochumsson, Hulda (Unnur Benediktsdóttir Bjarklind), Snorri Hjartarson, Hannes Pétursson og Gyrðir Elíasson.

Náttúra ljóðsins er fyrsta heildstæða rannsóknin sem gerð er á náttúrusýn og umhverfisvitund í íslenskri ljóðagerð og hér er beitt fræðikenningum sem varpa ljósi á viðfangsefnið og tengjast vistrýni (e. ecocriticism). Bókin kemur út á vegum Bókmennta- og listfræðastofnunar Háskóla Íslands og Háskólaútgáfunnar.

[/container]


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *