[container]
Á fyrsta sunnudegi eftir páska var altarisbrík Leifs Breiðfjörð vígð í kirkjuselinu í menningar- og þjónustumiðstöðinni Spönginni í Grafarvogi. Um er að ræða svonefnt „triptyka“, trúarlegt listaverk í þremur hlutum, sem ég fékk að skoða á vinnustað listamannsins áður en hún var flutt á sinn stað.
Sakramentin og blóm sem svífa
Altarisbríkin er 3,6 metrar að breidd og 1,8 metrar að hæð og er miðhlutinn þar stærstur en hliðarnar eru hafðar á hjörum til þess að hægt sé að loka henni. Lokuð er altarisbríkin silfruð á lit með verndarenglum og óræðum texta, en þegar hún er opnað við helgiathafnir í kirkjuselinu birtist dýrðin í öllu sínu veldi. Við sjáum sólina á vinstri vængnum frá okkur séð og tunglið á þeim hægri, en það er miðja verksins sem athyglin beinist að. Litirnir og stílhrein grunnformin, sem svo mörg verk Leifs Breiðfjörð einkennast af, njóta sín þar með óræðum hætti óháð tíma og rúmi. Eins og í allri frumlegri list allt frá fornu fari renna táknin saman og úr verða ný margræð form sem skírskota í handanveruleika – jafnvel sjálfar frummyndirnar sem Platon talar um. Hér má nefna textann sem getur verið öldur hafsins og lótusblómstrið eina sem ummyndast í óræðu rými og breytist að því er virðist í dúfu eða engil. Leifur brýtur upp hefðbundið táknmál og opnar það fyrir áhorfendum þannig að rýmið allt fyllist kraftbirtingarhljómi guðdómsins. Miðju listaverksins með sínum margræðu skírskotunum má m.a. túlka sem páskaegg, bikar blessunarinnar og Maríu með Jesúbarnið – eða jafnvel hið hulda manna (himneskt brauð) og hvítan stein sannleika og frelsunar sem talað er um í Opinberunarbók Jóhannesar. Ég hef fengið leyfi Leifs til sjálfstæðrar túlkunar á verkum hans en sjálfur vill hann að hver og einn samsami sig verkum hans á sínum eigin forsendum og því forðast hann að útskýra nákvæmlega hvað fyrir honum vakir með þeim eða einstökum formum þeirra.
Listaverkið heitir Andagift og vísar þannig í mystík og upphafningu hins andlega (spirituality) í helstu trúarbrögðum heims. Þar sem verkinu hefur verið fundinn staður bak við altari þar sem krossinn ber við, er hér um að ræða magnað kristið táknmál sem endurnærir trúarvitund þeirra sem taka þátt í tilbeiðslu safnaðarins og meðtaka boðskap Krists í orði og sakramentum. Leifur, sem er einn virtasti núlifandi glerlistamaður í heiminum í dag, hefur gert mörg fögur listaverk fyrir kirkjur víða í Evrópu og er þetta eitt af þeim. Ég hlakka til að sjá það á sínum stað við helgiathöfn. Þegar rúmhelgin tekur við fer vel á því að hliðarvængirnir séu látnir ljúkast um miðhlutann þannig að liturinn verði hlutlaus, textinn verði eins og í skuggsjá og verndarenglarnir gæti helgidóms listaverksins eins og arkarinnar forðum í musteristjaldinu.
Kristnitakan í Grafarvogi
Eins og kunnugt er hefur Leifur Breiðfjörð gert áður stórt glerlistaverk fyrir Grafarvogssöfnuð en það er altaristaflan í kirkjunni sem var gjöf frá ríkisstjórninni í tilefni af þúsund ára afmæli kristnitökunnar. Altarisbríkin í félagsheimili Spangarinnar er hins vegar ekki glerlistaverk.
Glerlistaverkið fellur einstaklega vel inn í kirkjuna og myndar eins og enda á súlnagöngum þar sem Kristur kemur sem dómari á efsta degi, sem um leið er dagurinn sem Íslendingar tóku kristna trú samkvæmt sögunni um Þorgeir ljósvetningagoða. Hann var enn heiðinn eins og segir í Íslendingabók þegar hann gerði sáttmála við vopnaðan flokk kristinna manna undir stjórn Halls af Síðu. Í glerlistaverkinu sjáum við geisla úr baugi Krists stefna að Þorgeiri en líklega er þar um að ræða sýn hans undir feldinum. Það má því segja að Kristur hafi gert Þorgeir, þáverandi forseta Alþingis, að friðarhöfðingja. Kristur er sigurkonungurinn og verndarinn, Hvíti-Kristur, sem stríðsþreyttir bændur og búalið þráðu innst inni.
Það einkennir list Leifs að hann finnur stundum meistaralegar lausnir og útfærslur á flóknum trúartextum og sýnir þar með og sannar að myndlistin er annað og meira en viðbót og skraut við texta enda getur hún stundum reynst opinberun í eigin mætti þar sem textarnir verða eins og viðhengi við hina sjónrænu birtingu. Ég nefni í því sambandi sérstaklega hringlaga gluggann sem hann gerði fyrir rómversk-kaþólsku kirkjuna í Steibis í Þýskalandi en þar sýnir engillinn í Opinberunarbókinni Jóhannesi hina himnesku Jerúsalem sem að sjálfsögðu er ekki hægt að túlka með venjulegum húsum, götum og ljósastaurum.
Passíur í lit
Hefðbundin táknfræði glerlistaverka í kirkjum er þannig að sólin stendur fyrir Guð föður, geisli hennar stendur fyrir Jesúm Krist og litróf sköpunarinnar, sem sést eftir að geislinn hefur farið í gegnum glerið, stendur fyrir heilagan anda.
Það er ekki hægt að gefa einkunnir í skapandi listum, allra síst þegar um er að ræða listaverk sem skara fram úr meðalmennskunni. Sá sem þessi orð skrifar hefur víða ratað og æfinlega skoðað kirkjur og kirkjulist en hvergi séð þar glerlistaverk sem hafa hrifið hann meir en glerlistaverk Leifs Breiðfjörð. Hundruðir þúsunda ferðamanna njóta nú verka hans í flugstöð Leifs Eiríkssonar á hverju ári og allir sem eiga erindi í Þjóðarbókhlöðuna geta sömuleiðis séð snilld þeirra. Bretar, sem eiga sér langa og merka hefð í glerlist í kirkjum, hafa ítrekað valið verk Leifs í kirkjur sínar en þar má nefna dómkirkju Skota, St. Giles í Edinborg. Leifur sigraði einnig í samkeppni félaga (Fellows) í the British Society of Master Glass Painters um gerð glugga til heiðurs Elisabetu Englandsdrottningar í tilefni af 60 ára valdaafmæli hennar. Hann var kostaður af The Worshipful Company of Glaziers and Painters of Glass.
Vonandi ber ráðamönnum þjóðarinnar gæfu til þess að fá Leif til að gera glerlistaverkin í glugga Hallgrímskirkju. Reyndar er vel hægt að dást að birtunni þar en hún er eftir sem áður hrá og bíður enn blæs heilags anda. Leifur hefur þegar gert einn glugga þar og fleiri verk eins og hurðina frægu, skírnarfont og predikunarstól. Eins og áður segir tekur list Leifs ætíð mið af aðstæðum og umhverfi og eru verkin ekki aðeins sköpuð í samræmi við það heldur bregða þau um leið kraftbirtingu yfir það. Þannig list þurfum við í þessa merku kirkju á Skólavörðuhæðinni sem er nú einn vinsælasti ferðamannastaðurinn hér á landi. Þar sæmir bara list á heimsmælikvarða, list sem er samboðin passíum Jóhanns Sebastians Bachs og sálmum Hallgríms Péturssonar sem eru fegurstu perlur íslenskra bókmennta.
Listasafn Einars Jónssonar gerir upp erfiða sögu
22. October, 2024Óskaland
14. October, 2024Kraftaverkið sem vatt upp á sig
9. October, 2024Deila
[/container]
Leave a Reply