Læk, læk, læk – læk, læk, læk

[container]

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar


Ekki hafði ég mikla hugmynd um á hverju ég ætti von þegar ég fór á Núna, sýningu Borgarleikhússins á verkum þriggja, ungra höfunda, á föstudagskvöldið. Höfundarnir eru Salka Guðmundsdóttir, en verk hennar heitir „Svona er það þá að vera þögnin í kórnum“, Kristín Eiríksdóttir með „Skríddu“ og Tyrfingur Tyrfingsson með „Skúrinn á sléttunni.“

Á litla sviðinu blasti við sérkennileg sviðsmynd af að því er virtist fíngerðum stálgrindakössum sem breyttust eftir þörfum og urðu að skilveggjum, fangaklefa, húsi. Sviðsmynd og búningar Helgu I. Stefánsdóttur voru mjög áhugaverð. Sömuleiðis má hrósa  markvissri lýsingu Björns Bergsteins Guðmundssonar og tónmynd Franks Hall.

Leikhópurinn var vel saman settur af  tveimur reyndum góðleikurum, Þresti Leó Gunnarssyni og Hönnu Maríu Karlsdóttur og þremur yngri orkuboltum, Val Frey Einarssyni, Unni Ösp Stefánsdóttur og Láru Jóhannsdóttur.  Og það var Kristín Eysteinsdóttir sem leikstýrði sýningunni og það var gott val því að hún er hugmyndaríkur leikstjóri, oft með svartan húmor og auga fyrir súrrealískum leiklausnum og það kom sér vel hér.

Fésbókarkórinn

Leikþátturinn hófst á eitraðri og morðfyndinni skopstælingu á andríkum fésbókarsamræðum á borð við þessar: Snæfríður Sól er búin að setja í fimm vélar og nú er það ræktin. Aðrir: Læk. Læk. Voða ertu alltaf dugleg. Læk. Lol.  Næsti status: Snæfríður Sól ætlar heldur að tsjilla með gullklumpunum sínum. Oh, mússí,mússí. Læk, læk, læk.  Persónurnar hömruðu á stálgrindurnar sem glitruðu og allt í einu varð leikmyndin ótrúlega elektrónísk. Huldu (Láru Jóhannsdóttur) líður hins vegar ekki vel, hún er að missa tökin á veruleikanum og reynir að tala um það í statusum. „Vinirnir“ ráðleggja henni að drífa sig á djammið og segja „læk“ þegar hún örvænting hennar vex – hún verður „þögnin í kórnum“.

Í þessum þætti skýtur Salka Guðmundsdóttir föstum skotum á þau yfirborðslegu, sviðsettu tjáskipti sem einkenna megnið af fésbókinni sem lýtur föstum samskiptareglum. Allir reyna að gera sig áhugaverða í augum hinna og allt í einu breytast þessi augu í einhvers konar alsjá sem stjórnar þér innan frá eins og Foucault sagði og Salka sýnir. Þáttur hennar hófst á kaldhæðni en svo kárnaði gamanið og þvingun og niðurbrot Huldu er sýnt með sterkari leikrænum meðölum en í ljóðrænum, sárum texta sem hefði mögulega mátt stytta svolítið. Minna er meira þegar boginn hefur verið spenntur hátt.

Við verðum að ræða saman

Þáttur Kristínar Eiríksdóttur „Skríddu“ var það fyndnasta sem ég hef séð koma úr hennar penna, húmorinn var svartur en um leið angistarfullur vegna þess að parið Sara (Unnur Ösp) og Viktor (Valur Freyr) þarfnast hvort annars svo mjög en skilja ekki það sem við þau er sagt og jafnvel ekki það sem þau segja sjálf. Eða hlusta ekki. Eða tala hvort sitt tungumálið. Um þetta hafa heimspekingar skrifað og módernistar skapað ódauðleg verk. Það vita Sara og Viktor líklega ekki. Það eru fleiri túlkunarlög í þessum texta. Hann leynir á sér og dýpkar ef áhorfandi spyr um þetta unga fólk og hvert það stefnir. Alla vega reyna þau mjög að gera sig skiljanleg hvort fyrir öðru án árangurs og/eða fela staðreyndir sem áhorfendur eru búnir að sjá – allt eru þetta kóðar farsans og þannig var þátturinn lagður upp og leikinn.  Sara og Viktor hlupu kringum sófann, fengu krampa af sjálfsmeðaumkvun, töluðu tungum tveimur, köstuðu sér í gólfið með tilþrifum til að hlera hvort hinn meinti, brjálaði barnaníðingur og bláskeggur á neðri hæðinni væri að drepa smástelpur og ráðleysið fór í bylgjum inn á milli misviturlegra aðgerða.  Leikararnir Unnur Ösp og Valur Freyr eru feykilega vel á sig komin líkamlega og fóru á kostum í súrrealískum spuna en botninn datt úr honum – í fleiri en einum skilningi.   Sjáið sjálf hvað í því felst.

Glott á gresjunni

Í þriðja leikþættinum breyttist leikmyndin mest, úr naumhyggju í ofgnótt. Á sviðinu var þrekhjól, sjónvarp og stór klósettrúllupakkning sem gegndi hlutverki sviðs ef einhver þurfti að troða upp, stórt borðstofuborð og stólar og viðamikil barvagn og sjónvarp osfrv. Búningarnir voru líka fullir af vísunum í frægar kvikmyndir og stjörnur; Britney Spears, Tinu Turner, Marilyn Monroe, Rock Hudson, Jamie Lee Curtis osfrv. Tilfinning þessa áhorfanda var að sviðið væri fullt af rusli enda við komin í heimsókn til þess lágstéttafólks sem Ameríkanar kalla „white trash“.

Þar gerist leikþáttur Tyrfings Tyrfingssonar, „Skúrinn á sléttunni“ og við erum komin til Ameríku á vit þeirra nýju díasporu Vestur Íslendinga sem ekki hafa gefið þjóðinni Eimskip eða skotið saman í flugfélag.  Þar gnæfir sífull móðirin Halla (Hanna María Karlsdóttir) yfir unglingsstúlkunni Hróðnýju (Unni Ösp) sem hún er að þjálfa upp í söng og framkomu áður en þær fara og taka Vegas. Sonur Höllu (Sigurður Þór Óskarsson) sem hefur breytt kyni sínu og nafni í Gunnu kemur í heimsókn með elskhuga sínum Haraldi og engin von til að þetta fari vel. Þetta leikverk er um margt í samtali við Fyrirheitna landið eftir Einar Kárason en öfugt við uppgjörið við fjölskyldugoðsagnir í þeirri bók þekkir Gunna móður sína og býst ekki við neinu úr þeirri átt. Eftir gróteskt borðhald og karioki-söng og ofbeldi, stífa drykkju og nóg af andlegri grimmd  og sótsvörtum húmor yfirgefur Gunna skúrinn á sléttunni með órætt bros á vör.

Haraldur, hinn sterki, þögli karlmaður sem Þröstur Leó leikur, er nánast eyða í verkinu og allir vilja sjá hann sem lausn á sínum vandamálum. Veikleiki þessa leikþáttar var að kannski var of mikið lagt undir til að hægt væri að fylgja því eftir. Áhorfandi vildi fá meira og vonandi fáum við meira, mikið meira að sjá frá öllum þessum stórgóðu, ungu höfundum.  Sýningin Núna var svo fersk og skemmtileg að ég mun aldrei skilja það ef fólk flykkist ekki á hana. Hún má líka vera báðum stóru leikhúsunum áminning um að það eru augljóslega miklir hæfileikar hjá nýjum leikhöfundum sem ber að rækta og verður að rækta ef einhvern metnaður er til staðar fyrir hönd íslensks leikhússlífs.

     ps Ég ætla að sjálfsögðu að setja þennan leikdóm á fésbók og vonast eftir mörgum lækum á hann!

Deila

[/container]


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *