Frá því ég uppgötvaði kvikmyndina hef ég setið límd við skjáinn. Fyrsta sjónvarpstækið sem ég man eftir var ofursmátt og baðaði stofuna á Laugarnesveginum svart-hvítum ljóma. Litasjónvörp voru löngu komin á markað, en tilraunir föður míns til að festa kaup á einu slíku enduðu með því að hann var færður til skýrslutöku. Gripurinn reyndist stolinn. Líkast til myndi hann harðneita þessu í dag, en heimildir mínar eru traustar. Þar af leiðandi sat ég uppi með litla svart-hvíta sjónvarpið, en undi hag mínum þó vel.
Foreldrar mínir létu aðvaranir Kvikmyndaeftirlits ríkisins sem vind um eyru þjóta og skiptu sér lítið af því hvaða myndir ég horfði á. Vegna þessa horfði ég á bannaðar myndir líkt og enginn væri morgundagurinn. Raunar gaukaði faðir minn að mér titlum eins og Salem´s Lot og Christine löngu áður en ég hafði aldur til. Og hverju kemur þetta við? Líkast til engu. Mér flaug þetta í hug því nú er runninn upp Forboðinn febrúar. Svartir sunnudagar, kvikmyndaklúbbur sem starfræktur er í Bíó paradís, hefur afráðið að helga mánuðinn myndum sem kvikmyndaeftirlit ríkisins sá ástæðu til að banna hér áður fyrr, og það finnst mér gaman.
Auðvitað horfi ég á teiknimyndir líkt og önnur börn (og geri raunar enn í dag). En eftir því sem ég varð eldri tók ég ástfóstri við hrylling, draugagang og kvikmyndir sem mörgum þykja skringilegar. Ég man t.d. vel eftir því þegar ég sá atriði úr kvikmynd Luis Buñuel, Le fantôme de la liberté, þar sem hópur virðulegra matargesta er samankominn. Þau ganga til stofu, girða niður um sig og setjast til borðs. Við borðstofuborðið eru ekki stólar heldur röð salerna. Þetta var skrýtið, en samt algerlega magnað.
Þegar ég var þrettán ára horfði ég á allar myndirnar um Guðföðurinn. Ég vissi það ekki þá, en ég veit það nú, að það sem vakti fyrir mér var að gera úttekt á ofbeldi í kvikmyndum, og því hélt ég áfram öll unglingsárin. Myndum úr hinum endalausu sagnabálkum um Freddy Krueger, Jason Voorhees og Michael Myers var einnig iðulega hent í video-tækið. Því miður leiddu þessar rannsóknir mínar ekki til neins og ég óx (nokkurn veginn) upp úr ofbeldinu. Nokkrum árum síðar voru uppáhalds-myndirnar Sódóma Reykjavík og Trainspotting, þetta var um svipað leiti og bókin Falskur fugl kom út. Ég man að dag einn kom mamma heim, ranghvolfdi augunum og sagði: „Ertu að horfa á þetta eina ferðina enn“, þá var ég líklega að horfa á myndirnar í fertugasta og þriðja skipti (myndirnar tvær, ásamt stuttmyndinni Siggi Valli á mótorhjóli voru á sömu VHS spólunni).
Í dag eru æskuvinkonur mína löngu búnar að gefast upp á því að bjóða mér með í bíó. Líklega eru þær einnig búnar að steingleyma litla hryllingsmyndaklúbbnum sem við stofnuðum í grunnskóla. Ég hef líka gefist upp á að sýna þeim brot úr kvikmyndum sem mér þykja áhugaverðar. Það gerði ég síðast fyrir nokkrum árum þegar ég hafði nýlega séð japanska mynd um mann sem vaknar upp í herbergi alsettu litlum typpum. Þar sem ég var nýbyrjuð í bókmenntafræði þóttu mér fallusar mjög fyndnir. Það fannst vinkonum mínum ekki. Þær störðu opinmynntar á mig og hristu höfuðið. En það er allt í lagi, því nú er runninn upp Forboðinn febrúar.
Ellen Ragnarsdóttir,
meistaranemi í ritlist
Leave a Reply