Ég get ekki sagt þér strax hver ég er. Á nefnilega eftir að fara í leikfimi. Að vísu ætlaði ég að hugleiða áður en ég freistaðist til að sofa fram yfir hálf svo að ég sleppi hugleiðslunni í dag. Leikfiminni ætla ég hins vegar að ná. Nei, ég er ekki í megrun, leikfimin kemur í staðinn fyrir geðlyfin. Í sjálfu sér er merkilegt að það hafi svona góð áhrif á heilastarfsemina að slökkva á henni og herma hugsunarlaust eftir. Kveikja svo á henni aftur. Endurræsa prógrammið.

Ég get ekki sagt þér strax hver ég er. Þarf að drífa mig heim til að viðra hundinn. Hvað var það að fá sér hund? Þegar kötturinn dó grét dóttir mín ógurlega. „Getum við þá nú,“ stundi hún milli ekkasoganna, „fengið hund?“  Ég fékk sjálf aldrei hund, bara þvert „nei“ við því suði og stundum hausverk. Auðvitað fékk dóttir mín hund. Ég sá fyrir mér að hann gæti nýst mér líka, ég var farin að máta rithöfundafrakka. Er ekki hundur staðalútbúnaður rithöfunda?

Ég get ekki sagt þér strax hver ég er. Ætla að ná því að láta yngri soninn lesa áður en hann fer í saxafóntíma. Hann fer svo beint í fótbolta og ég veit að hvorugt okkar nennir heimalestri kringum kvöldmatarleytið, á úlfatímanum eins og mamma segir. Eftir kvöldmat ætla ég að sækja eldri soninn í ökuskólann, sem minnir mig á að þvo Þróttaragallann hans fyrir morgundaginn. Leikur á Ásvöllum. Klukkan hvað ætli hann sé? Vona að hann verði ekki á sama tíma og fiðluhóptíminn hjá dótturinni sem fer svo beint í jazzballet á eftir og svo í afmæli. Er svo ekki leikur hjá henni á sunnudaginn? Já og lúðrasveitartónleikarnir sem ég var búin að lofa að kynna. Var það ekki á planinu þessa helgina að skrifa?

Ég get ekki sagt þér strax hver ég er. Fékk textann sendan alltof seint og þarf að hendast upp í útvarp að lesa. Elska það að sitja í brúnu og teppalögðu  tímaleysi í stúdíóinu. Örstutt brot úr sögu. Stekk á staksteinum gegnum meistaraverk. Forréttindi. Draumurinn enn til staðar, nei, ég á mér ekkert eftirlætishlutverk, en mig dreymir um að lesa Passíusálmana í útvarpið. Upp, upp mín sál. Ætli þetta séu afleiðingar þess að hafa alist upp á sjónvarpslausu heimili?

Ég get ekki sagt þér strax hver ég er. Ég er að skjótast á undirbúningsfund fyrir útskriftarafmælið. Tuttugu og fimm ár. Í vor verður kvartöld síðan ég útskrifaðist úr Íþróttakennaraskólanum. Þó ég hafi lært ýmislegt nytsamlegt eins og bandí,  glímu, skyndihjálp, að flá kött og að sækja á bita þá hefur tíminn þegar skólastjórinn kenndi okkur að hlaupa á ís nýst mér hvað best á hálu svellinu. Fyrir utan þann eðal lærdóm sem fæst með því að búa á heimavist. Mátti sætta mig við að deila herbergi með ísfirskri stúlku sem þoldi hvorki að ég prumpaði í verelsinu né hvernig ég hrækti í vaskinn eftir tannburstun. Við tölum lítið saman í dag. Hún býr í Kópavogi.

Ég get ekki sagt þér strax hver ég er. Ég er að gera annað. En ég get staðfest að Sóli er hérna.

Rétt strax skal ég segja þér hver ég er. Hittu mig. Það verður ekki erfitt fyrir þig að finna mig. Ég er stödd í skóginum miðjum.

Halla Margrét Jóhannesdóttir,
meistaranemi í ritlist


Comments

One response to “Rétt strax”

  1. Hildur Jóhannaesdóttir Avatar
    Hildur Jóhannaesdóttir

    Ég get ekki sagt þér hver ég og það sem á eftir kemur er falleg einlæg afhjúpun á hinum mikilvæga hversdegi. Haltu áfram að njóta gæftanna, þess að eiga dótturina, soninn, manninn að ógleymdum hundinum. Takk fyrir falleg skrif fann mig í þeim.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *