Andlit á glugga

Rúnar Helgi Vignisson er mikill meistari smásöguformsins og sýnir það enn einu sinni í þessari bók. Sögurnar virka einfaldar en eru það ekki. Það ætti að vera viðvörun framan á bókinni þar sem á stæði: Bannað er að lesa þessar sögur hratt og yfirborðslega – þær eru þaulhugsaðar!

Rúnar Helgi hefur allt frá skáldsögunni Nautnastuldi (1990), markað sér sérstöðu í íslenskum samtímabókmenntum með því að búa til persónur sem eru ákaflega efnislegar, þar er enginn kartesíanskur aðskilnaður líkama og sálar því að þrá persónanna er líkömnuð,  ást og kynlíf skipta miklu máli einkum ef hvorugt gefst og ofan á það bætist einkar nútímalegur ótti við hrörnun og dauða.  Tilvistarleg angist er í brennidepli margra smásagnanna fimmtán í nýju bókinni Ást í meinum (2012) en líka ýmiss konar tilfinningarlegur jafnvægisgangur og vandræðagangur sem sagt er frá af hlýju eða íróníu.

Óraplágur

Sá sem tekur þessa bók í hönd og les titilinn býst ef til vill við fimmtán sögum af framhjáhöldum því ást í meinum er forboðin ást – en það er ekki málið. Fáir halda framhjá í sögunum en marga langar til þess. Það eru óraplágur sem herja á friðsæla millistéttarmenn í sögum eins og Þýðingar sem segir frá þýðanda nokkrum sem neyðist til að vera stöðugt að hækka og lækka á ofninum undir glugganum í vinnuherberginu.  Ef hann er heppinn sér hann þá í leiðinni unglingsstelpu spegla sig fáklædda og strjúka í blokkinni á móti en hvort hún veit af sjónfróaranum er ósagt látið.

Enn flóknari hlutverkaleik og blætishyggju þarf til að blása í glæðurnar í kulnuðu sambandi mannsins sem fer með konunni í vinnustaðaferð á hótel Búðir í smásögunni Sporbaugar og heldur að verði kannski gaman um nóttina en það gengur ekki eftir. Ekki heldur hjá manninum sem hittir gamla kærustu á ráðstefnu og þó lostinn hafi einu sinni ráðið ríkjum í sambandi þeirra og þó að hún sé orðin enn stæltari og komin með sílíkonbrjóst er eitthvað sem virkar ekki og eitthvað sem er betur geymt í órunum en plágunni og í raun reynir á lesanda að ráða í það sem er í gangi í þessari sögu.

Sá sem les Ást í meinum verður óhjákvæmilega „andlit á glugga“. Seint gleymist þannig sagan Í meinum sagan um unga manninn sem splæsir sólarlandaferð á konu og börn og vill fá ríkulega fullnægingu í staðinn. Hann fær ekkert slíkt og árásargirni og gredda hlaðast upp. Sagan er sögð frá sjónarhóli konunnar sem horfir á tímasprengjuna tikka og endar á því að draga viðþolslausan manninn upp á sig uppi í íbúðinni á meðan smábörnin eru eftirlitslaus við sundlaugina. Það sem hún hefur í huga er mjög stuttur dráttur, það sem hann hefur í huga er klámmynd í fullri lengd. Lesandi bíður hins vegar eftir því að börnin drukkni á meðan þessi misráðni samningafundur er í gangi og spennan í textanum verður óbærileg.

Básar

Þrjár aðrar smásögur skera sig líka úr. Þær eru óhefðbundnar og erfiðari aflestrar en aðrar sögur í safninu og fylgja lesandanum þar af leiðandi eftir að bók er lokað. Ein heitir Misheitir og inniheldur samtal sem byrjar merkingarlega hvergi og endar hvergi heldur virkar eins og sneið úr veruleika sem reynist afar marglaga. Eins konar randalínusneið. Sagan rúmar tilviljanakennt samtal lítt tengdra manna um útivist, fjallaferðir, hjólreiðar, skíðaferðir, jöklagöngur o.sfrv. Hver sá sem hefur upplifað stigveldið milli þjálfaðra og ekki þjálfaðra fjallafara, hlustað á meting um gæði merkjaútbúnaðar og græja á fjöllum og skilið hvar hann sjálfur stendur í virðingarröð göngugarpa getur afkóðað þá spennu sem er á ferðinni í sögunni.

Eins koma margar sögur saman í hinum fámála en spennta texta Samferða þar sem þjálfuð og hæf kona leggur nátttúruna kvíðalaust undir sig í ferð fjallagarpa um Hornstrandir og stjórnar fjölskyldunni heima með sms skilaboðum af fjallstoppunum. Hún gnæfir við himin í ferðum sínum, líkamlega, en samband hennar við eiginmanninn er í upplausn og lesandi veit eiginlega aldrei inni í hvaða huga hann er í þessari undarlegu textahringekju.

Þriðja sagan Hinum megin við tjaldið felur í sér einstaklega þjappaða frásögn manns sem er alveg óvirkur í sögunni,  hefur verið í aðgerð og liggur í afstúkuðu rúmi en sitt hvoru megin við tjöldin koma og fara aðrir sjúklingar og hann hlustar á sögu þeirra og samtöl við lækna og hjúkrunarfræðinga og milli bása. Eins og fréttamaður eða sagnaritari, höfundur eða lesandi miðlar sögumaður þessum samræðum. Allar þessar þrjár sögur fjalla um líkama og tilfinningar, ótta og flótta undan einhverju – kannski líkamanum.

Sagnasveigur?

Í baksíðutexta bókarkápunnar er það ítrekað að bókin sé sagnasveigur þar sem sögurnar „eigi það sammerkt að fjalla um náin samskipti. Ég get alls ekki kallað þessa bók sagnasveig af því að sögurnar tengjast alltof lauslega til að mynda heild ‒ það ég fái séð. Hins vegar nálgast þær ástina, depurðina, sambandsleysi og samheldni úr mörgum áttum og áhugaverðum.

Ég mæli eindregið með því að þið verðið ykkur úti um þessa bók og lesið hana hægt og vel og endurlesið hana, sögu fyrir sögu, fram að þarnæstu jólum.

Dagný Kristjánsdóttir,
prófessor í íslenskum nútímabókmenntum


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *