Fjölbreyttar kvikmyndir á RIFF

Á laugardaginn fékk Susanne Bier afhent verðlaun fyrir „framúrskarandi listfengi“ á Bessastöðum. Um kvöldið kynnti hún síðan nýjustu mynd sína Den Skaldede Frisør fyrir áhorfendum í Háskólabíói. Hætt er við að sumum áhorfendum hafi brugðið í brún því að í stað þeirrar alvörugefnu umfjöllun um Danmörku og umheiminn sem hefur einkennt myndir hennar undanfarin ár (og hún hlýtur verðlaunin fyrir) er um að ræða rómantíska gamanmynd. Rétt er þó að halda því til haga að Bier sló í gegn með einni slíkri Den eneste ene árið 1999.

Trine Dyrholm leikur hárgreiðslukonuna Idu sem titillinn vísar til en snemma í myndinni kemur hún að lokinni krabbameinsmeðferð að eiginmanninum (Kim Bodnia) í miðjum klíðum með ritaranum. Til að bæta gráu ofan á svart eru þau hjónin á leið til Ítalíu í brúðkaup dóttur þeirra og sonar auðugs viðskiptamanns sem leikinn er af Pierce Brosnan. Þótt fyrstu kynni hans og Idu boði ekki gott dragast þau á endanum hvort að öðru líkt og gjarnan er tilfellið í rómantískum gamanmyndum. Það er ekki síst sakir Brosnans að manni verður hugsað til kvikmyndarinnar Mamma Mia! sem sló svo eftirminnilega í gegn fyrir nokkrum árum en í henni sótti Brosnan heim brúðkaup í Grikklandi. Ekki skal fullyrt hvort að aðstandendur Den Skaldede Frisør hafi valið Brosnan beinlínis með það að leiðarljósi að beina henni í kjölfar ABBA-myndarinnar, en hún ber öll einkenni þeirra evrópsku mynda sem reyna að finna Hollywood-stjörnu stað í boði sem hún á lítið erindi. Það er þó ekki við Brosnan að sakast því að hann er bara nokkuð góður, eins og reyndar leikaraliðið almennt, en afbragðsleikur er jú eitt helst einkenni mynda Bier—það hefur ekki breyst.

Í norsku myndinni 90 minutter eru sagðar þrjár sjálfstæðar sögur sem hver með sínum hætti sýnir ofbeldi karla gagnvart konum. Þessi mynd Evu Sørhaug stendur miklu fremur undir titlinum „Karlar sem hata konur“, en velkunn bók Stiegs Larsson, þótt sá titill nái nú ekki fyllilega þeirri flóknu mynd sem hér er dregin upp af slíku ofbeldi. Ólíkt bók Larssons er ekki um að ræða einstaka brjálæðinga heldur er ofbeldið sýnt sem hluti af samfélaginu með margvíslegum hætti, en „hversdagsleika“ þess dregur Sørhaug m.a. fram með ótengdum fjöldasenum sem sýndar eru þegar farið er á milli sagnanna þriggja. Styrkur myndarinnar liggur ekki síst í því hversu vel tekst til með að skapa ólíkan óhugnað í sögunum. Þá á hver saga um sig sinn stíganda og þróast á óvænta vegu. Ekki verður þó komist hjá því að vara viðkvæma við 90 minutter. Sørhaug dregur hvergi úr og ég man ekki eftir jafn óvæginni birtingarmynd ofbeldis í meðförum kvenleikstjóra hið minnsta—og áþreifanleg samfélagstengslin gera áhorfið allt hið erfiðasta.

Mygla (Küf) eftir tyrkneska leikstjórans Ali Aydin er líkt og 90 minutter á meðal þeirra kvikmynda sem keppa um „gullna lundann“, en þær takmarkast við fyrstu eða aðra mynd leikstjóra. Á hvorugri myndinni er þó að finna nokkurn byrjendabrag—þótt leikstjórarnir nálgist viðfangsefni sín með ólíkum hætti. Basri (Ercan Kesal) er einstæðingur sem lifir fábreyttu lífi sem járnbrautarteinavörður í Anatólíu. Hann á sér sársaukafulla forsögu en fyrir átján árum hvarf einkasonur hans sporlaust að því er virðist fyrir stjórnmálaskoðanir sínar. Basri sendir yfirvöldum reglulega bréf til að grennslast fyrir um afdrif sonarins fulltrúum þeirra til mikillar mæðu. Þessum afdrifaríku atburðum er miðlað með lágstemmdum hætti; atburðarásinni vindur rólega fram, og oft með löngum tökum. Þær fanga á köflum fegurð umhverfisins en geta líka dregið fram ákveðið miskunnarleysi, líkt og yfirheyrslusena snemma í myndinni er til vitnis um. Mygla mun vera fyrsta tyrkneska kvikmyndin sem glímir við fjöldagrafir og mannahvörf af politískum ástæðum, en leikstjórinn Aydin sagði áhorfendum að lokinni sýningu að fyrst núna væri svigrúm til að fjalla um þessa skelfilegu atburði. Ekki verður annað sagt en að honum hafi tekist vel upp með að útfæra þetta vandmeðfarna efni. Mygla hlaut nýverið verðlaun fyrir bestu frumraun á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum.

Í takt við fjölbreytnina á RIFF hefur hér verið fjallað um þrjár ólíkar kvikmyndir sem allar eiga erindi til íslenskra áhorfenda—ef af ólíkum ástæðum.

Björn Ægir Norðfjörð,
lektor í kvikmyndafræðum


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *