Dagur hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar

Dagur Hjartarson, meistaranemi í íslenskum bókmenntum og ritlist við Háskóla Íslands, hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar við athöfn í Höfða í gær. Samdægurs gaf bókaforlagið Bjartur út fyrstu bók Dags, ljóðabókina Þar sem vindarnir hvílast og fleiri einlæg ljóð.

Dagur Hjartarson er fæddur á Fáskrúðsfirði árið 1986, en hefur búið alla tíð í Reykjavík. Fyrir tæpum mánuði hlaut Dagur einnig Nýræktarstyrk Bókmenntasjóðs fyrir smásagnahandritið Fjarlægðir og fleiri sögur sem kemur væntanlega út á næsta ári. Þess má geta að faðir Dags, Hjörtur Marteinsson, hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2000 fyrir skáldsöguna AM 00.

Í dómefnd Bókmenntaverðlauna Tómasar Guðmundssonar sátu Ingibjörg Haraldsdóttir, Bragi Ólafsson og Davíð Stefánsson, formaður nefndarinnar. Í umsögn dómnefndar um ljóðahandritið Dags segir m.a.:

,,Verðlaunahandritið er lágstemmt, afslappað og áreynslulaust. Og einmitt þar liggur styrkur þess, sá styrkur sem þarf alltaf til að draga lesanda frá fyrstu blaðsíðu til þeirrar síðustu; aðdráttarafl hins prentaða orðs…. Tærleiki, bjartsýni og einlæg ást einkennir handritið fram undir lok þess. En þá birtast nokkur ljóð í röð sem eru full af lúmskum trega og óvæntum sársauka, eins og ljóðmælandi hafi haldið sársaukanum í sér en leyft honum að koma upp á yfirborðið undir það allra síðasta. Það er ekki síst þessi leikur með viðtökur lesandans sem gerði að verkum að dómnefndin ákvað að verðlauna ljóðahandritið Þar sem vindarnir hvílast – og fleiri einlæg ljóð. Titillinn er, eins og handritið sjálft, leikur með einlægni og kaldhæðni.“

Í viðtali við Víðsjá segir Dagur að í ritlistarnámi við Háskóla Íslands sé margt mjög fróðlegt að gerast og að á næstu tveimur eða þremur árum muni gríðarlega hæfileikaríkir einstaklingar koma úr því námi: ,,Ég held að það nám sé mikill fengur fyrir íslenskt bókmenntalíf”.


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *