Samstaða um framtíð

Um höfundinn
Geir Sigurðsson

Geir Sigurðsson

Geir Sigurðsson er dósent og deildarforseti Deildar erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda. Hann hefur fengist við margvísleg ritstörf á sviði heimspeki, bókmennta, samfélags­ og menningarmála. Sjá nánar

Ringulreiðin í kjölfar „hrunsins“ á Íslandi markaðist af efnahagslegri óvissu þeirra sem höfðu tekið há lán og/eða fjárfest mikið. En ringulreiðin var ekki síður eins konar félagssálrænt lost. Hin sterka sjálfsmynd Íslendinga á árunum fyrir 2008 hafði beðið gríðarlegan hnekki. Það var engu líkara en við værum að ganga í gegnum svipaðar hremmingar og Bandaríkjamenn eftir 9/11. Hvernig gat þetta komið fyrir okkur? Skiljanlega fundu margir til niðurlægingar yfir því að hafa lifað í blekkingu öll útrásarárin þegar á daginn kom að ekki var innistæða fyrir eyðslunni á þessum tíma. Það er vissulega sár og ömurleg reynsla að átta sig á lyginni sem gegnsýrt hefur líf manns um nokkurt skeið – líkt og að uppgötva framhjáhald sem teygir sig langt aftur í tímann.

Síðan hefur komist nokkur yfirborðskennd ró á íslensku sálina, þótt eftirköstin séu enn mikil og nánast öll umræða á Íslandi snúist enn um „hrunið“ og efnahagsmál. Fyrir „hrun“ snerist allt um hagnað fyrirtækja og einstaklinga, eftir „hrun“ snýst allt um tap ríkis og þjóðar. Eftir-sovéska nýfrjálshyggjan virðist hafa gert Íslendinga að nýrri tegund homo economicus. Þetta er ekki endilega rökvís tegund en hún virðist ekki geta hugsað um neitt annað en efnahagsmál – eins og merking lífsins snúist einungis um það að afla peninga. Munum að peningar eru tæki til annarra markmiða. Við þurfum á peningum að halda til að geta lifað af en það hvort við eigum 500 þúsund eða 50 milljónir á bankabók segir ekki til um lífsgæði okkar. Þau velta á okkur sjálfum, gildismati okkar og því hvernig við högum lífi okkar.

Við búum í samfélagi og það getur verið krefjandi. Við komumst ekki hjá því að deila því með ýmsum aðilum sem við erum ósammála og okkur er jafnvel ekki að skapi. Átök eiga sér stað í öllum samfélögum, jafnvel örsamfélögum eins og fjölskyldum. En um þessar mundir markast íslenskt samfélag hreinlega af upplausnarástandi. Sú andúð sem einstaklingar hafa hver á öðrum á Íslandi um þessar mundir einkennir öðru fremur samskipti okkar, jafnt á alþingi sem í blaðagreinum og ekki síst í bloggheimum. Ekki er hægt að kalla þetta samræðu, því eiginleg samræða gerir þá kröfu að hlýtt sé á aðra og brugðist við þeim málefnalega. Sterkustu rökin fyrir málfrelsi eru þau að fái allar skoðanir að heyrast geti hinar bestu hugmyndir látið ljós sitt skína. En þrátt fyrir að ýmsar skoðanir heyrist eru fáir að hlusta. Á Íslandi virðist markmiðið með því að tjá sig í ræðu og riti ekki vera það að deila hugmyndum eða skoðunum með öðrum til að ræða þær frekar, heldur það að skáka andstæðingi sínum með „svalri“ kaldhæðni og „smellnum“ mælskubrögðum à la Morfís. Að nútíma-lýðræðislegum hætti er sá dæmdur sigurvegari sem fær flest „læk“. Að frátöldum þeim sem telur sig hafa sigrað í sjálfbirgingslegum bumbuslætti sínum, hverjum gagnast eiginlega þessi leikur? Hvers vegna geta Íslendingar ekki borið klæði á vopnin og reynt að koma sér saman um ákjósanlegt framtíðarsamfélag? Því þegar öllu er á botninn hvolft er það framtíðin sem skiptir máli. Við þurfum að móta stefnu til framtíðar, þurfum að meta hvers kyns menntun börnin okkar þurfa á að halda til að viðhalda og auðga – í víðum skilningi þess orðs – samfélag okkar í síbreytilegum heimi, þurfum að meta með okkur í hvers kyns samfélagi við viljum eiga heima. Hvað viljum við? Ég legg áherslu á orðið „við“ því þetta varðar okkur öll sem hér búum.

Þótt spurningin snúist alls ekki eingöngu um efnahagsmál eru þau hluti af dæminu. Þar hljótum „við“ að geta verið sammála um að útiloka nokkra möguleika. Ekki viljum við einangra okkur frá umheiminum. Þótt mörgum þykir alþjóðakapítalisminn grundvallast á skipulögðu óréttlæti og grafa undan góðum lífsgildum er það varla raunhæfur kostur að ætla sér að einangra sig frá alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Við hljótum að vilja vera í nánu sambandi við nágrannaþjóðir okkar og leitast þá fremur við að byggja upp samstarf um hvernig unnt sé að draga úr skaðlegum áhrifum fjármálakerfis heimsins. Ein og sér getum við engu breytt um þetta. Og varla viljum við hverfa aftur til ársins 2007. Það myndi hljóma eins og nostalgía örvita spilafíkils eftir stundunum við rúllettuna rétt áður en hann tapaði öllu. Við hljótum að vilja setja skynsamlegar reglur um fjármagnsstarfsemi á Íslandi til að koma í veg fyrir að framvinda á borð við þá sem hér gerðist endurtaki sig. Og þótt við getum ekki snúið við framvindu nútímans er unnt að gera ýmislegt til að draga úr óæskilegum áhrifum hans. Það er engin lausn að ætla sér að hafna honum eða taka við honum í einu og öllu. Við ættum að búa yfir nægilegri skynsemi til að leitast við að velja og hafna – að minnsta kosti að nokkru leyti.

Staðreyndin er sú að þrátt fyrir allt volæði og kvein landsmanna er Ísland enn eitt auðugasta land í heimi og trónir á heimslistanum í 16.-21. sæti (háð lista) og 10.-12. sæti í Evrópu. Þótt vissulega geti gott lengi batnað eru aðstæður á Íslandi enn með þeim bestu sem gerast í veröldinni. Innviðir og stofnanir eru traust, heilbrigðisþjónusta góð, almennt skólakerfi prýðilegt og glæpatíðni er enn sem komið er lág. Lífslíkur meðal Íslendings eru metnar um 81 ár, hærri en í Danmörku, Noregi og Þýskalandi. Af þeim sjö milljörðum sem nú hrærast í heiminum erum við líklega í hópi hinna 5% auðugustu. Einstaklingur sem fæðist á Íslandi hefur alla möguleika til að mennta sig, fá gott og merkingarbært starf og lifa almennt góðu lífi. Það veltur auðvitað mikið á einstaklingnum sjálfum og aðstandendum hans. Að mínu viti er það ekki hlutverk ríkisins að veita lífstilgang heldur að skapa sem ákjósanlegastar aðstæður til að gera borgurum sínum kleift að blómstra í lífi sínu. Það er svo pólitískt atriði að túlka þetta og útfæra í stefnu og framkvæmd.

En til þess að þetta megi túlka og útfæra verður að vera hægt að tala saman. Við erum 320.000 manns, nánast eins og hliðargata í Beijing! Við erum svo fá að við ættum nánast að geta starfað eins og einhvers konar útvíkkuð hverfissamtök. Mér þykir þó eftirsóknarverðara ef við getum einhvern tíma líkt okkur við stórfjölskyldu sem lætur sér annt um og reynir að komast til móts við hvern og einn fjölskyldumeðlim. Við þurfum ekki mikið til að allir geti lifað góðu lífi. En við verðum að láta af hinum séríslenska stalíníska hugsunarhætti sem leitast við að „redda málunum“ með einum allsherjar þungaiðnaði: fiskveiðum, stóriðju og, nú síðast, olíu. Allt þetta getur verið gott og gilt sem hluti af þjóðarbúskapnum en við þurfum sömuleiðis að reyna að kynda undir lítil eða meðalstór fyrirtæki sem byggja á háu menntunarstigi íbúa landsins og gera fólki að stunda störf sem því finnst merkingarbær og áhugaverð.

Einnig er ég sannfærður um að það myndi skila sér margfalt ef við leitumst aukið við að laða menntafólk til landsins, jafnt Íslendinga sem aðra, til að dvelja hér í skemmri eða lengri tíma og deila með okkur sérfræðiþekkingu sinni. Hér er ég ekki bara að tala um séfræðinga í viðskiptafræði, hagfræði og náttúruvísindum heldur öllum háskólagreinum, enda skipta þær allar máli í þeirri óendanlegu viðleitni að móta hið ákjósanlegasta samfélag.

Lítil samfélög með takmarkaðan mannauð á borð við Ástralíu, Singapore og Sviss hafa laðað til sín fjöldann allan af alþjóðlegum sérfræðingum og uppskorið stórkostlegan árangur. En allt þetta kallar á langtímastefnu, ekki bara fjögurra ára áætlun til næstu kosninga. Og það kallar líka á auðmýkt. Við gerum ekki og getum ekki gert allt vel. Við þurfum að læra meira af öðrum. Því miður verða Íslendingar að sætta sig við að hæfileikafólk er ekki hlutfallslega fleira á Íslandi en annars staðar. Ef Íslendingar eru fátækir af einhverju þá er það af auðmýkt. Án auðmýktar telur maður sig alltaf vita betur og lærir því aldrei neitt. Og fellur. Dramb er falli næst.

Páll Skúlason hefur haft á orði að kreppan á Íslandi sé ekki efnahagslegs heldur pólitísks eðlis. Ég held að hún sé jafnframt siðferðilegs eðlis í þeim skilningi að gildi okkar eru í lausu lofti. Við – já, nánast við öll – vorum svo upptekin af einstaklingsbundinni efnislegri velferð okkar að við týndum flestum öðrum samfélagslegum gildum og höfum ekki fundið þau ennþá. Í dag ríkir alvarlegt siðfrofsástand á Íslandi. Það er engin stefna því orkan fer að mestu í það að streitast gegn persónulegum (pólitískum) fjandmönnum sínum og kvarta yfir óréttlætinu sem blasir við okkur. Já, það er vissulega óréttlæti. En við lögum það ekki í einum grænum. Og við lögum það aldrei alveg. Umræða nútímans er í helgreipum fortíðarinnar. En það er löngu orðið tímabært að við einbeitum okkur að framtíðinni.

Við þurfum að koma okkur saman um þau gildi sem við viljum hafa í öndvegi á Íslandi. Það ætti ekki að vera svo erfitt. Flest viljum við meira eða minna hið sama. Auðvitað skiptir atvinnuöryggi máli og það kemur svo lengi sem átakahópar landsins fara að vinna saman af heilindum og einlægni. Við viljum öruggt og hreint umhverfi. Við viljum að börn okkar geti menntað sig og haft möguleika á merkingarbæru og innihaldsríku lífi. Auðvitað væri ánægjulegt og líklega sanngjarnt ef formlegir „húsnæðiseigendur“ gætu líka greitt niður íbúðalánin í stað þess að safna sífellt hærri skuldum. En látum það liggja milli hluta eins og er. Einbeitum okkur fyrst að nauðsynlegri forsendu fyrir blómlega framtíð: að sameinast um að skapa aðstæður til að vinna saman og byggja upp heilbrigt samfélag – að stefna að samstöðu um framtíð.

Greinin var áður birt á Vísi.is 17. apríl 2012.

Deila


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *