Konan við 1000 gráður

Um höfundinn
Hjalti Hugason

Hjalti Hugason

Hjalti Hugason er prófessor í kirkjusögu við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Hann hefur stundað rannsóknir á ýmsum sviðum íslenskrar kirkjusögu og kirkjuréttar en auk þess ritað um trú, samfélag og menningu á ýmsum vettvangi. Sjá nánar

Þriðja ríkið og síðari heimsstyrjöldin hafa hvað eftir annað skotið upp kollinum í bókmenntum okkar á síðustu árum. Má þar benda á Enn er morgun eftir Böðvar Guðmundsson (2009) og Konan við 1000o, Herbjörg María Björnsson segir frá eftir Hallgrím Helgason (2011). Einnig má nefna Yfir Ebronfljótið (2001) eftir Álfrúnu Gunnlaugsdóttur. Sögusviðið þar er þó spænska borgarastyrjöldin.

Þetta er skiljanlegt. Heimsstyrjöldin skóp milljónum manna stórbrotnari örlög en löngum gerðist bæði fyrr og síðar. Í heimsstyrjöldina og aðdraganda hennar má því sækja margháttaðan efnivið sem reynast mun gefandi í bókmenntum, kvikmyndum og á ýmsum öðrum sviðum enn um langa hríð.

Nú er líka sérstök ástæða til að fjalla um þetta tímabil. Stríðsárakynslóðin er komin á efri ár og þau sem teljast til eftirstríðskynslóðarinnar komin á miðjan aldur. Því þarf að ljúka styrjaldarárunum upp fyrir yngri kynslóðum og lyfta þeim upp sem víti til varnaðar ef bókmenntirnar taka það þá að sér. Rithöfundar forðast flestir að boða.

Hér er þó líklega ekki fundin skýring á bókum þeirra Böðvars og Hallgríms heldur hafa báðir skrifað út frá sagnkveikju sem varð á vegi þeirra. Hallgrímur hefur sjálfur skýrt svo frá að símtal við ókunna konu hafi orðið kveikja að sögu hans. Fyrirmyndin kemur þó leynt og ljóst fram í sögunni þrátt fyrir að nafni hennar sé lítið eitt breytt. Hún hét í raun Brynhildur Gerorgía Björnsson og var sonardóttir Sveins Björnssonar forseta líkt og sögupersónan. Um ævi hennar má lesa í bókinni Ellefu líf (1983) sem Steingrímur St. Sigurðsson skráði. Nokkuð öðru máli gegnir um kveikjuna að sögu Böðvars. Lesandinn þarf að þekkja vel til eigi hann að geta tengt músíkantinn Johannes Kohlhaas og ættingja hans við einstaklinga af holdi og blóði.

Hallgrímur fylgir bók sinni úr hlaði með að undirstrika að sagan sé skáldsaga, helstu sögupersónur hennar skáldsagnapersónur og örlög þeirra skálduð. Hann biður fyrirmyndunum nærgætni og varar við að blandað sé saman raunverulegu hlutskipti fólks og örlögum er hann hafi skáldað. Skáldskap og veruleika stillir hann annars upp á þennan hátt: „Sagnfræði er fræðandi saga. Skáldskapur er skálduð saga“. Minna aðfaraorð hans óneitanlega á „kommentar“ Laxness um Íslandsklukkuna.

Ekki þarf að koma á óvart að persónur á borð við Svein Björnsson og frú Georgiu rati inn í sögu eftir Hallgrím Helgason eftir  að hann sendi frá sér Höfund Íslands (2001). Það orkar hins vegar tvímælis á hvern hátt óþekkt og nýlega látið barnabarn þeirra er dregið inn í bókmenntirnar líkt og dóttir fyrirmyndarinnar bendir öfgalaust á í Fréttablaðinu 21. jan. s.l.  Áhorfsmál er hvort „bókmenntaleg nauðsyn“ breytir þar einhverju um eins og Páll Valsson freistar þó að færa rök að í Fréttablaðinu 25. jan.

Með samanburði við Ellefu líf má greina hvernig lífshlaup fyrirmyndarinnar hefur verið sveigt að „nauðsyn“ frásögunnar. Rekja má sameiginlegan rauðan þráð. Einstök frásagnarbrot hafa verið flutt til í tíma og sem betur fer er stríðssagan mikið yfirdrifin.

Vissulega er Konan við 1000o margbrotin saga. Á köflum er hún drepfyndin, á köflum næstum lyrísk, lýsingin á dauðastríðinu í lokin er dramtísk eins og margar stríðssenurnar. Einna hæst rís dramað þó í menningarárekstrinum þegar sögupersónan ælir yfir íslensku „há“-stéttina sem auðgaðist á stríðinu sem hafði kostað hana æskuna.

Þegar allt kemur til alls leitar sú áleitna tilfinning á hvort Konan við 1000o  sé ekki íslensk útgáfa af Hundraåringen som klev genom fönstret och försvann eftir Jonas Jonasson (2009). Herra Björnsson strauk vissulega ekki frá eigin banabeði líkt og Allan Karlsson úr aldarafmæli sínu. Hún surfar hins vegar frjáls um netheima, villir á sér heimildir og blandar sér í örlög fólks nær og fjær. Ekki ósvipað og Allan kom hún líka við kviku 20. aldarinnar beggja vegna Atlantsála.


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *