Árið 2001 birtist í Ársriti Sögufélags Ísfirðinga frásögn Jóns heitins Kristjánssonar af slysunum við Bjarnarnúp 17. og 18. desember 1920. Í desember 1920 hafði Jón farið norður til Aðalvíkur með vistir til foreldra sinna og fósturforeldra en ákveðið svo að halda jólin á Ísafirði. Eina leiðin til þess að komast til Ísafjarðar á þessum árstíma var að slást í för með Sumarliða pósti Brandssyni og varð það úr. Þeir ganga yfir heiðina til Hesteyrar, fara þaðan á báti til Grunnavíkur þar sem sagan segir að þeir hafi þurft að bíða lengi dags eftir að séra Jónmundur Halldórsson lyki bréfaskriftum. Klukkan fjögur missti Sumarliði þolinmæðina og hélt af stað þrátt fyrir úrtölur heimamanna. Lögðu þeir Jón á Snæfjallaheiðina síðla dags, í myrkri og éljagangi. Um leið og þeir koma upp á Bjarnarnúpinn skellur á stórhríð.
Í V. kafla Harms englanna leggur landpósturinn Jens á „heiðina“ ásamt ungum pilti og það þrátt fyrir fortölur heimamanns. Eins og hjá Sumarliða pósti er hestur einnig með í för. Þeir fjarlægjast „sjóþorpið“, sem vel gæti verið hliðstæða Grunnavíkur, og finna „landið smáhækka undir fótum sér“ (157). Tekið er fram að þeir hefðu „hugsanlega getað farið meðfram stöndinni, fetað sig í grjótinu undir svimandi hamraveggjum“ (158), en þegar ég var í Grunnavík síðast var mér sagt að það væri hægt en mikil hætta á hruni; svipuð skilaboð gefur sögumaður Kalmans.
Jón Kristjánsson lýsir ferðalagi þeirra Sumarliða í anda sagnaþátta, reynir að halda sig við staðreyndir sem hann man. Eftir 2–3 klukkustundir fer að halla undan fæti. Nokkru síðar hverfa Sumarliði og hesturinn niður um gat á snjóhengju og farast þar báðir. Jón heldur áfram för sinni þar til hann kemur loks niður af fjallinu. Hann ber að dyrum þar sem hann sér ljós í glugga en sá sem kemur til dyra segir að Sumarliði hafi átt heima á næsta bæ og þangað skuli hann fara.
Þeir Jens og pilturinn komast heilu og höldnu til byggða en þeim er líka vísað frá á fyrsta bænum sem þeir koma á og sagt að halda til Svörtustaða.
Fleiri sameiginlegar staðreyndir mætti tína til en þar sleppir líka líkindunum með textunum. Texti Jóns Kristjánssonar er í anda sagnaþátta en í texta Kalmans bætist önnur vídd við: skáldskapurinn. Rithöfundurinn fer með okkur inn í táknheim og býr til frásögn sem ætlað er að endurspegla streð mannsins hér á jörð. Öll örnefni eru almenn – Pláss, Núpur, Dalir – eins og til að gefa þessari póstferð víðari skírskotun. Og svo það sem merkilegast er: Jón Kalman rómantíserar þessa ferð þeirra yfir jökulkalda heiði en fátt hefði verið fjær nafna hans Kristjánssyni. Kaflinn verður þess vegna kjörinn vettvangur til þess að rannsaka muninn á skáldskap og sannri sögu.
Saga alþýðukonu og ögrandi kvenskörungs
7. June, 2024Það er ekkert lengur til!
3. May, 2024Nú er frost á Fróni
6. March, 2024Deila
Leave a Reply