Kristsgervingurinn á fjölum Þjóðleikhússins

Um höfundinn
Pétur Pétursson

Pétur Pétursson

Pétur Pétursson er prófessor við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Sjá nánar

Nú er verið að sýna Heimsljós á stóra sviði Þjóðleikhússins í leikgerð Kjartans Ragnarsonar sem er leikstjórinn. Kjartan hefur áður glímt við að setja þessa mögnuðu skáldsögu um örlög alþýðuskáldsins Ólafs Kárasonar á svið, en það var við opnun Borgarleikhússins árið 1989. Þá byggði hann aðeins á tveimur af fjórum hlutum verksins. Skáldsagan sjálf kom út í fjórum hlutum: Ljós heimsins (1937), Höll sumarlandsins (1938), Hús skáldsins (1939) og Fegurð himinsins (1940).

Það hlýtur að vera mikill vandi að setja þetta verk á svið því hér er um að ræða eina af stóru skáldsögum Laxness, sem margir hafa tengst á persónulegan hátt. Þetta er saga af ómaga og auðnuleysingja sem er heillaður af fegurðinni sem alltaf er handan við hornið og umkomulausu skáldi sem hvergi á höfði sínu að halla. Hann birtist hér í öllu sínu varnarleysi gagnvart kröfum heimsins og það er eins og hann sogi til sín þá sem eiga bágt, hafa orðið fyrir vonbrigðum eða standa höllum fæti í lífinu. Hann tekur beinlínis á sig allar þjáningar þeirra og gerir þær að sínum.

Skemmst er frá að segja að Kjartan kemst ekki aðeins skammlaust frá þessu verki heldur með miklum sóma. Leikgerðin er löng og sýningin í þremur hlutum með hléum á milli, en samt heldur hún athyglinni og í henni er spenna sem helst frá upphafi til enda. Að sjálfssögðu varð að stytta verkið og það hefur tekist vel, dýptin í því skilar sér og víða eru dramatískir hápunktar sem snerta við gömlum Laxnessunnanda og vonandi einnig yngri kynslóðum. Það meistarabragð að hafa tvo leikara til að túlka Ólaf Kárason á mikinn þátt í því hve vel tekst til. Fléttan vex fram úr senunum hverri af annarri á eðlilegan hátt og byggir upp dramatísk augnablik, en aukaatriði skyggja ekki á. Mínimalisminn í sviðssetningu og leiktjöldum auðveldar þetta einnig og tæknilegar úrlausnir undirstrika boðskap verksins á táknrænan hátt.

Hér vil ég sérstaklega nefna spegilinn sem leikstjórinn tengir á frumlegan hátt við Maístjörnuna, sem höfundur Sólarljóða kallaði á sinni tíð “hina sönnu dagstjörnu”,  sem er Kristsvísun. Skáldið á sviðinu “íklætt hertygjum ljóssins” (Rm 13:12) mundar spegilinn í hendi sér og sendir ljósgeisla út í myrkrið til að lýsa upp andlit leikhúsgesta. Þessi spegill vísar til spegilsins í fyrra bréfi Páls postula til Kórintumanna (13.12) sem sagt er frá strax á eftir óði postulans til kærleikans. Í íslenskum biblíuþýðingum er spegill þessi kallaður skuggsjá, en í latnesku kirkjubiblíu rómversk kaþólskra, Vúlgötu, er beinlínis talað um spegil (lat. speculum ) og þá útgáfu hefur Laxness vissulega lesið og sungið með munkunum á sínum tíma.

Verkið er á vissan hátt glíma fagnaðarerinda kristninnar og sósíalismans og þess vegna hittir þessi samruni tákna alveg í mark. Spegillinn gegnir lykilhlutverki í hinum dramatíska hápunkti þegar píslarganga skáldsins er á enda. Hann skilur nýjan heilan spegil, sem hann fékk frá ástinni sinni, eftir á bitanum hjá hvílu aumingjans, sem er fulltrúi hins þjáða mannkyns til þess að hann geti orðið vitni að ummyndun Ljósvíkingsins á fjallinu helga.

Þegar skáldið hefur loks fundið fegurðina samlagast það hinu eina sem er guðdómurinn (sólin) og þá verður það að deyja til að rísa upp: “Því að allur harmur er léttvægur hjá því að hafa uppgötvað fegurðina. Það er í senn hinn ófriðþægjanlegi glæpur og hið ólinnandi mein, hið óþornaða tár.”  Tárið vísar hér í tárin sem þerruð verða á himni hjá Guði (Opb 21.4)  Tárin þorna ekki í heiminum en Ólafur Kárason gengur út frá því að auminginn muni hætta að gráta þegar hann sér páskasólina koma upp yfir jöklinum því þar ríkir fegurðin ein.

Trúin gengur eins og rauður þráður í mörgum skáldverka Laxness enda gekk hann í klaustur til þess að verða skáld og hann virðist enn vera að glíma við kröfur trúarinnar þótt hann sé fyrir löngu búinn að gefa kirkjustofnunina upp á bátinn. Kristsfíflið eða kristsgervingurinn er þema í skáldskap sem Laxness vinnur með enda hefur hann skrifað um það og notað sem greiningartæki í bókmenntum. Peter Hallberg hefur bent á þetta, en sá sem hefur rannsakað þetta þema í verkum Laxness er dr. Gunnar Kristjánsson (Fjallræðufólkið). Það er augljóst að Kjartan leikstjóri hefur fundið þennan þráð og spinnur hann listilega í framvindu verksins.

Höfundurinn Halldór Laxness er sjálfur eins konar kristsgervingur því skáldskapurinn, listin og trúin er þrenning runnin upp af sömu rót sem leitar stöðugt að hinu sanna, hinu eilífa eina. Listamaðurinn/skáldið samsvarar trúmanninum og listfræðingurinn trúfræðingnum. Til eru “lærðir” listamenn, en þeir þurfa ekki endilega að vera sannir. Sama á við um trúfræðinga og trúmenn. Vitund skáldsins er barómeter á þjóðarsálina og þar með menninguna – ekki síst alþýðuskáldið sem greinir ekki bara þjóðina heldur lifir með henni. Það er þjóðin á meðan lærða skáldið siglir til útlanda og dvelur við erlenda háskóla eða klaustur eins og Steinn Elliði í Vefaranum mikla frá Kasmír og Halldór Laxness sjálfur (og Jónas Hallgrímsson ef mér leyfist að nefna hann hér). Alþýðuskáldið Sigurður Breiðfjörð, hin mikla fyrirmynd Ólafs Kárasonar, er persónugervingur þjóðarinnar, alþýðumenningarinnar, og hann þjáist vegna fordóma, óréttláts samfélags, erlendrar kúgunar og fátæktar.

Alþýðuskáldunum var hafnað af hinum lærða heimi og litið niður á þau enda glímdu þau ekki við hinar stóru spurningar guðfræði, listfræði og heimspeki. Þau voru í fáfræði sinni bundin við sögur úr sveitinni og þjóðlegan fróðleik.  Alþýðuskáldið var rímnaskáld sem komst hvorki út fyrir formið (ferskeytluna) eða hugmyndaheim sveitarinnar (frásagnir af einkennilegu fólki).

Skáldabraut Laxness var að vissu leyti mörkuð baráttu alþýðuskáldsins til þess að verða lært skáld og hvorki menntaskólar né háskólar urðu honum þar að gagni heldur Unuhús í Reykjavík og klaustur í Sviss. Laxness vildi þó ekki segja alveg skilið við alþýðuskáldið í sér og spenna kemur fram þegar við berum Stein Elliða í Vefaranum mikla frá Kasmír saman við Ljósvíkinginn í Heimsljósi. Laxness er að hluta til sjálfur í þeim báðum. Ef við lítum á Stein Elliða sem tesu verður Ólafur Kárason antitesa, og hver er þá syntesan? Að mínu mati er það séra Jón prímus í Kristnihaldi undir jökli.

Eftir að Ólafur Kárason gekk á jökulinn í lok Heimsljóss kom hann niður hinum megin við fjallið, fór á skip sem sigldi með hann út í lönd þar sem hann dvaldi í nokkra áratugi í klaustrum og háskólum uns hann sótti um og fékk brauð undir þeim hinum sama jökli. Þar þjónaði hann almættinu út frá jöklinum í sátt við lífið, en lokaði kirkjunni og negldi hana aftur. Baráttunni við stofnunina var lokið og fegurðin komin niður á jörðina aftur í sátt við blóm vallarins og einkennilegt fólk.

Skrifað eftir heimsókn guðfræðinema í Þjóðleikhúsið 11. febrúar 2012


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *