Thor Vilhjálmsson

Hvernig verður höfundur til?

[container] 

Um höfundinn
Rúnar Helgi Vignisson

Rúnar Helgi Vignisson

Rúnar Helgi Vignisson er dósent í ritlist við Íslensku­ og menningardeild Háskóla Íslands. Hann hefur umsjón með ritlistarnámi við skólann og er jafnframt rithöfundur og þýðandi. Sjá nánar

Eitthvað hefur þvælst fyrir fólki hvernig rithöfundur verður til og hvort hægt sé að læra til starfans. Svo virðist sem margir Íslendingar telji enn að annaðhvort séu menn fæddir höfundar eða ekki, rétt eins og menn töldu forðum að inni í skáldinu byggi guð sem veitti því innblástur. Aftur á móti virðist fólk ekki hafa sérstakar áhyggjur af því hvernig myndlistarmenn, tónlistarmenn eða leikarar verði til, hvaða ályktanir sem draga má af því.

Auðvitað veit enginn með vissu hvernig skáld verða til og raunar leikur stundum á tvennu hver stendur undir því sæmdarheiti og hver ekki. Það virðist iðulega vera álitamál og jafnvel háð tíðaranda. Eru hagyrðingar skáld? Ekki er víst að allir líti svo á nú til dags, en svarið hefði trúlega orðið jákvætt ef spurt hefði verið fyrir hundrað árum.

Það hefur ekki alltaf verið haldið sérstaklega upp á skáldið sem höfund. Iðulega var höfundur sá sem setti saman bækur, gjarnan úr efni sem hann viðaði að sér héðan og þaðan. Sígild verk á borð við Kantaraborgarsögur Chaucers og Tídægru Boccaccios eru þessu marki brennd, þar söfnuðu höfundarnir saman efni sem fyrir var og bjuggu til nýja heild úr því. Höfundar Íslendingasagna eru óþekktir, svo ómerkilegur þótti höfundurinn, komst ekki í hálfkvisti við Gunnar og Njál. Reyndar telja menn að höfundarhugtakið eins og við skiljum það nú á dögum sé ekki nema á að giska tvö hundruð ára gamalt.

Krafan um frumleika
Á rómantíska tímabilinu var litið svo á að skáld væru af öðru sauðahúsi en fólk flest, þau fengju innblástur frá æðri máttarvöldum og miðluðu í framhaldinu ákveðnum sannindum til dauðlegra manna. Þar kemur frumleikinn til sögunnar, skáldin áttu ekki að éta allt hrátt upp eftir öðrum heldur bæta einhverju við frá sjálfum sér. Á Íslandi kristölluðust þessar nýju hugmyndir í frægri grein Jónasar Hallgrímssonar frá 1837 þar sem hann hraunar yfir Sigurð Breiðfjörð fyrir Tistransrímur sem honum þóttu óttalega ófrumlegar.

Síðar drógu menn frumleika skáldsins sem einstaklings í efa.  Sumum þótti einsýnt að skáldið væri skilyrt af tungumálinu sem það ynni með, í því lægju fyrirframgefnar hugmyndir og hugsanamynstur sem skáldið kæmist ekki út úr nema að takmörkuðu leyti. Stafrófið eitt og sér ætti þátt í að móta þankagang einstaklingsins. Samkvæmt því er enginn skáld, hlutverk höfundarins er einungis að hræra saman í nýja heild því sem fyrir er, leika sér að þeim takmörkuðu minnum og viðfangsefnum sem heimur hvers tungumáls býður upp á.

Í seinni tíð hafa rannsóknir sýnt að ekki er endilega fylgni milli erfða og árangurs. Í frægri grein, „The Role of Practice in the Acquisition of Expert Performance”, heldur sálfræðingurinn Karl Anders Ericsson því t.a.m. fram að afreksmenn í íþróttum, vísindum og listum verði ekki til vegna meðfæddra hæfileika heldur vegna markvissrar þjálfunar í á að giska áratug. Samkvæmt því er eðlilegt að reka akademíur og listaskóla þar sem áhugafólki gefst kostur á að þroska hæfileika sína undir handleiðslu sérhæfðra kennara. Og vissulega má læra sumt sem lýtur að ritlist, þó ekki væri nema ákveðið handverk, því handverk er hluti af ritstörfum eins og öðrum listgreinum. Fólk getur lært hvernig ganga megi frá samtölum, hvernig íslenskar gæsalappir eigi að snúa (mjög mikilvægt!), hvaða verkfæri skáldskapurinn nýti til að miðla efninu og að svokallaður innblástur er afrakstur vinnu og íhugunar, ekki guðleg skilaboð. Síðast en ekki síst lærir fólk af verkum annarra því  eins og skáldkonan Joyce Carol Oates hefur orðað það verður maður alltaf áhugamaður ef ekki er lesið vítt og breitt, þá verður áhuginn 99% af sköpunarviðleitninni. Þegar allt kemur til alls er það einfaldlega æfingin sem skapar meistarann.

Deila


 [/container]