Þægindateppið hans Tarantino

Í Kvikmyndir, Rýni höf. Heiðar Bernharðsson

Aldrei hefur verið hægt að saka Quentin Tarantino um að skila af sér knöppum kvikmyndum. Hluti af sjarmanum við myndirnar hans eru útúrdúrarnir: Mr. Pink (Steve Buscemi) gefur aldrei þjórfé; Vincent (John Travolta) og Jules (Samuel L. Jackson) hafa afar ólíkar skoðanir á fótanuddi en ná saman þegar um Amsterdam er rætt; ekki er útilokað að þýskar leyniskyttur séu kvikmyndaáhugamenn, og svo framvegis. Þá er Tarantino ekki lengur ungi róttæklingurinn sem kom eins og stormsveipur inn í bandaríska kvikmyndagerð á öndverðum tíunda áratug liðinnar aldar. Núna vantar bara örfá ár í að hann geti tekið sér sess meðal eldri borgara draumaverksmiðjunnar og er auk þess sennilega frægasti leikstjóri veraldar. En eftir því sem liðið hefur á feril Tarantino hafa þessir útúrdúrar hans verið að ágerast og orðið meira áberandi. Nýjustu tvær myndirnar, The Hateful Eight (2015) og Once Upon a Time … in Hollywood (2019), virðast til dæmis vera tilraunir um hvort hægt sé hreinlega að kasta „söguþræðinum“ svokallaða fyrir róða og umbreyta útúrdúrunum í meginfléttuna. Láta útúrdúruna með öðrum orðum taka upp þá virkni og það hlutverk sem hefðbundin frásagnarframvinda gegnir öllu jafnan í vestrænum meginstraumskvikmyndum.

Í Once Upon a Time … in Hollywood er meira að segja eins og Tarantino sé að reyna að koma útúrdúratilraunamennsku sinni í enn róttækari farveg; stórum hluta þess tíma sem áhorfendur verja með aðalpersónum myndarinnar, kúrekaleikaranum Rick Dalton (Leonardo DiCaprio) og áhættuleikara hans, Cliff Booth (Brad Pitt), eru þeir samferða tvímenningunum í bílum á meðan þeir keyra – og keyra, vissulega á milli staða, en fyrst og fremst eru þeir að keyra, líkt og það að komast á vettvang útúrdúrsins þar sem eitthvað muni hugsanlega gerast sé of fyrirsjáanlegt, full-hefðbundið. Bílferðirnar verða í þessu samhengi eins konar útúrdúrar á öðrum frásagnarútúrdúrum, og engan hefðbundinn söguþráð er að finna í myndinni. Formgerð hennar, þess í stað, er sá að tíminn líður, fyrst tveir dagar, svo sex mánuðir, svo ein kvöldstund. Og með reglulegum millibilum erum við á rúntinum um L.A. með Leo og/eða Brad og hlustum á svala rokk- og sálartónlist í bílaútvarpinu.

Það er kannski í eðli útúrdúra að virðast tilviljanakenndir – þannig hefðu Vincent og Jules aldrei lent í „The Bonnie Situation“ í Pulp Fiction (1994) ef ekki væri fyrir óheppilega hraðahindrun – og þar kann einmitt þematískt viðfangsefni nýja verksins að vera að finna: Tilviljunin sem fyrirbæri, verufræðilegt spursmál og heimspekileg ráðgáta – og frelsandi frásagnartæki fyrir handritshöfund myndarinnar. Jafnvel þeir sem ekki hafa séð myndina vita margir hverjir að Charles Manson kemur við sögu, og Sharon Tate morðin. Eðlilegt væri að ætla í framhaldinu að þar væri jafnframt um frásagnarlega Pólstjörnu myndarinnar að ræða, að frásagnarformgerðin félli að rökvísi Manson-morðanna. En það er nú öðru nær. Ekkert sem viðkemur þessum hörmulega atburði kemur fyrir sjónir áhorfenda sem annað en helber tilviljun (má þar nefna hvernig Manson-fjölskyldan kynnist Cliff), og það hvernig endalokin spilast má líta á sem hápunkt þessarar tilviljanarunu. Spurningin sem vaknar að lokum er þó sú hvort tilviljanakenndur hliðarveruleiki Tarantino sé full yfirborðskenndur til að virka sem heild – hvort tilviljanirnar séu ekki lýtir á myndinni þótt þær kunni einnig að vera þematískt viðfangsefni hennar.

Lesendur verða hér að leyfa mér að líta aftur til áðurnefndrar Pulp Fiction og atriðisins þegar Vincent fer með Miu (Uma Thurman) á stefnumót, að skipan Marsellus Wallace (Ving Rhames). Mikið hefur verið skrifað um þetta lykilverk Tarantino og þar á meða um þessa senu, og hefur henni m.a. verið lýst sem „kvikmyndalegu þægindateppi“ (e. cinematic warm blanket), og er þar vísað til þeirrar þægilega baðslegu rólyndistilfinningar sem skapast. En þægindateppi sem slík eru jafnan tengd æskunni og örygginu sem börn finna fyrir í faðmi fjölskyldunnar, en glatast svo með fullorðinsárunum. Kvikmyndaleg rökvísi Once Upon a Time … in Hollywood ber allan keim af hugmyndafræði þægindateppisins, og það ber að mínu mati að skilja í samhengi við æskuár leikstjórans og þeirrar tilraunar hans til að snúa aftur til þeirra í sinni nýju mynd.

Once Upon a Time… in Hollywood gerist undir blálok hippatímabilsins; götur Los Angeles eru sneisafullar af klassískum amerískum bílum, útvarpsstöðvarnar spila ekkert nema klassísk rokk- og sálartónlist, og karakterarnir tala með hrynjandi og hreimum sem ríma við þessa veröld og þetta tímabil. Það má reykja inni á veitingastöðum, Playboy-óðalið er hápunktur hedónismans, og spaghettívestrar og hasarmyndir með klassískum Hollywood-stjörnum eru sýndar (á filmu) í öllum þeim fjölmörgu nú niðurrifnu bíóum Los Angeles sem Tarantino kortlagði í æsku sinni og endurskapar hér. Í sjónvarpinu eru sjónvarpsþættir bæði í lit og svarthvítu um löggur, kúreka og önnur klassísk góð- og illmenni.

Hljómar þetta kunnuglega?

Tarantino hefur loksins ákveðið að sviðsetja kvikmynd á tímabilinu sem honum hefur alla tíð verið hugleikið og vísað til í flestum sínum fyrri myndum. Bíómenning tímabilsins, bílarnir, þættirnir, töffaraskapurinn, tískan, talandinn – allt hafa þetta verið mikilvægir þættir í skírskotunarkerfi Tarantino. Hér eiga þeir hins vegar allir heima, þetta er þeirra eðlilega umhverfi og tímabil, ofanverður sjöundi áratugurinn. Og sjálfur var Tarantino ungur drengur á þessu tímabili og hefur lýst því í viðtölum hvernig hann á þeim tíma drakk inn í sig tíðaranda og menningu. Það er í þessum skilningi sem myndin sem heild vísar til senunnar með Vincent og Miu, hún er tilraun leikstjórans til að vefa saman ímyndir svo úr verði æskuteppið sem hann kann einmitt að hafa vafið um sig á sunnudagsmorgnum þegar hann horfði á þá sömu þætti og myndir og eru endurskapaðar hér. Once Upon a Time … in Hollywood er bernsku-öryggisteppið sem Tarantino þæfði í taugaveiklun þegar John Wayne var kominn í þann krappann og saklaust drengjahjartað fyrir framan sjónvarpið sló ört. Myndin er ástaróður hans til eigin fortíðar og æsku og tilraun til þess að gera þann tíma ódauðlegan. Myndin er gerð til þess að færa okkur í draumóralandslag Tarantinos, þar sem allar myndir eru sýndar á filmu, þar sem allar stelpur eru berfættar og allir bílarnir eru kaggar. Myndin er draumur um raunveruleika sem auðvitað var aldrei til, í öllu falli hvergi annars staðar en í huga drengsins sem fór að vinna á vídeóleigu og varð svo konungur bíósins, dálítið eins og Tarzan varð konungur frumskógarins.

Vefsvæði Engra stjarna er hér.

Um höfundinn
Heiðar Bernharðsson

Heiðar Bernharðsson

Heiðar Bernharðsson er með BA próf í kvikmyndafræði og meðlimur Engra stjarna.

[fblike]

Deila