Miðaldatónlist í nýju ljósi: Umbra með útgáfutónleika

Tónlistarhópurinn Umbra heldur útgáfutónleika í Listasafni Íslands þann 12. apríl næstkomandi kl. 20. Um fyrstu plötu hópsins er að ræða en hún ber heitið „Úr myrkrinu“. Tónsköpun Umbru hefur talsverða sérstöðu en meðlimir hópsins sækja efnivið sinn í miðaldatónlist og íslensk þjóðlög og setja þau í nýjan búning, bæði með útsetningum og spuna. Á tónleikunum verður flutt efni af væntanlegri plötu, þar á meðal er frumflutningur á nýju lagi Arngerðar Maríu Árnadóttur sem byggt er á íslensku þjóðlagi. Jafnframt verður nýtt tónlistarmyndband eftir Guðbjörgu Hlín Guðmundsdóttur við verk eftir Hildegard von Bingen frumflutt. Lilja Dögg Gunnarsdóttir, söngkona hópsins, sagði mér ögn frá tilurð Umbru og væntanlegri plötu þeirra.

Tónlistarhópurinn Umbra var stofnaður árið 2014 og er skipaður tónlistarkonum sem allar hafa brennandi áhuga á fornri tónlist jafnt sem nýrri. Samstarf tveggja meðlima hópsins, þeirra Lilju Daggar Gunnarsdóttur söngkonu og Guðbjargar Hlínar Guðmundsdóttur, fiðluleikara og myndlistarkonu, hófst þegar þær stunduðu nám við Listaháskóla Íslands í skapandi tónlistarmiðlun (NAIP). Þar uppgötvuðu þær sameiginlega ástríðu fyrir fornri tónlist og miðlun hennar. Arngerður María Árnadóttir, sem bæði leikur á keltneska hörpu og orgel, og Alexandra Kjeld kontrabassaleikari slógust í för með þeim og Umbra varð til.

En hver skyldi kjarninn í tónsköpun Umbru vera? Þær segjast vinna út frá einföldum lagboðum eða laglínum og leyfa stemmingu tónlistarinnar að leiða sig áfram við sköpunina og taka gjarnan rýmið sem unnið er í með í reikninginn. Þær leitast við að skapa sérstæðan hljóðheim sem lýsa mætti sem „tímalausum“. „Við höfum líka unnið með samtímatónskáldum og erum um þessar mundir að vinna að tveimur verkefnum með tónskáldunum Kristínu Þóru Haraldsdóttur og Finni Karlssyni,“ greinir Lilja frá og bætir jafnframt við: „Bæði verkin eru skrifuð sérstaklega fyrir okkur og eiga það sameiginlegt að daðra við tónleikhúsleg tilþrif.“

Popptónlist miðalda

Lilja lýsir því hvernig þær byrja á að finna elstu varðveittu mynd lagsins og leitast í vinnuferlinu við að skila kjarna tónlistarinnar til áheyrenda með persónulegri nálgun. „Miðaldatónlist er oft og tíðum með grípandi laglínum og takti, það mætti segja að hún pínu poppuð á köflum,“ segir Lilja og heldur áfram: „Tónmálið er líka skýrt og aðgengilegt. Það er svo mikið af grunnelementum í þessari tónlist sem hefur alltaf fylgt tónlistarsköpun, heillandi fegurð og frumleiki sem á erindi í dag jafnt sem þá. Svo skemmir ekki fyrir að þessi veraldlegu yrkisefni eru sammannleg, líf og dauði, ást og sorg, svo fátt eitt sé nefnt.“

En af hverju allt þetta myrkur? Felst ef til vill einhver lækningamáttur í myrkrinu og þjáningunni, hvetur það okkur hugsanlega til að líta inn á við og horfast í augu við okkur sjálf? „Myrkur er gjarnan tengt við miðaldir. Hugtakið má skilja á svo víðan hátt en næsta víst er að myrkur er jafnstór hluti af tilvist mannsins eins og birtan,“ segir Lilja brosandi og heldur áfram: „Draugar, vosbúð, kuldi og myrkur hefur verið vinsælt yrkisefni íslenskra þjóðlaga en það er ef til vill í stíl við þjóðarsálina og dvöl á einangraðri eyju. Myrkrið í evrópskri miðaldatónlist birtist fremur í ofuráherslu á mannlega þjáningu, syndina og breyskleika mannsins. Okkur finnst myrkrið vera eðlislægt okkur. Það er hvíld í myrkrinu, svigrúm til íhugunar og dulúðleiki sem við tengjum allar við,“ segir Lilja. „Ljós skín ávallt fram út myrkrinu,“ segir hún jafnframt og við látum það verða lokaorðin nú þegar páskahátíðin er nýliðin og landinn við það að skríða úr vetrarham og inn í vorið.

Þessi umfjöllun var hluti af verkefnavinnu í námskeiðinu „Loksins, loksins: Vinnustofa í menningarblaðamennsku“ á vorönn 2018.

Um höfundinn
Hafdís Vigfúsdóttir

Hafdís Vigfúsdóttir

Hafdís Vigfúsdóttir er meistaranemi í hagnýtri menningarmiðlun.

[fblike]

Deila