Ósungnar hetjur

Í Kvikmyndafræði, Umfjöllun höf. Kjartan Már Ómarsson

Kjartan Már Ómarsson ræðir við leikstjórann Brúsa Ólason um Viktoríu, stuttmynd sem vann Sprettfisksverðlaunin á Stockfish.

Gætirðu sagt okkur svolítið frá myndinni þinni?

Viktoría er stuttmynd um konu sem rekur kúabú og alla erfiðleikana sem fylgja því að gera það ein. Myndin byggir lausleg á móður minni sem hefur rekið kúabú í Litlu-Sandvík að miklu leyti ein. Ég fékk fyrst þessa flugu í höfðuði árið 2015, þá sem mynd í fullri lengd en ákvað svo að nota þessa grunnhugmynd til að gera annars árs stuttmyndina fyrir námið sem ég stunda í Columbia Universtiy í New York. Þar hef ég á rúmlega 2 árum komið á einn eða annan hátt að gerð hátt í 20 stuttmynda. Þar ber helst að nefna myndirnar sem ég leikstýri sjálfur, Sjáumst (2017) og Víktoría (2018) en einnig Premonicion (Síle, 2017) sem ég skrifaði ásamt vinkonu minni í skólanum, Rabbits (BNA, 2017) sem ég framleiddi og Thick Skin (Ísland, 2017) sem ég klippti. Allar þessar myndir hafa notið einhverrar velgengni á kvikmyndahátíðum og sumar hverjar hlotið verðlaun.

Framleiðsluferlið á Viktoríu frá því að vera hugmynd að stuttmynd um konu með kýr yfir í þessa fullgerðu mynd var í raun ekki nema rétt tæpt ár en ég þurfti að byrja að skila af mér handriti í skólanum á vorönn árið 2017. Ég skrifaði og endurskrifaði alveg fram að tökum um miðjan júlí. Þá tók við eftirvinnslan þar sem myndin breyttist þó nokkuð, þetta var í fyrsta skipti sem ég endurskrifaði mynd að einhverju leyti í klippinu.

Hvernig gekk framleiðslan?

Framleiðslan gekk bara eins og í sögu. Ég var svo snjall að biðja æskuvin minn hann Kára Úlfsson um að framleiða fyrir mig Sjáumst og svo Viktoríu og hann á eftir að verða stjörnuframleiðandi á Íslandi á næst árum. Nú er hann líka kominn hingað út til New York að læra framleiðslu. Okkur tókst að koma saman hóp af frábæru fólki sem var tilbúið að gefa okkur 3 daga af sínum tíma til þess að gera myndina að veruleika. Við reynum alltaf að gera eins vel og við getum við fólkið sem vinnur fyrir okkur svo við fengum smá stuðning frá Árborg um að gefa öllum frítt í sund við upphaf hvers tökudags. Fundirnir á morgnana fara því allir fram í heita pottinum, sem er frábær leið til þess að byrja tökudag.

Hvernig kanntu við stuttmyndaformið? 

Mér þykir mjög þægilegt að vinna í stuttmyndaforminu. Það er einfalt á góðan hátt og leyfir manni að nálgast viðfangsefni á frjálslegri hátt en ég upplifi að sé mögulegt í kvikmynd í fullri lengd. Vissulega er líka hægt að líta á stuttmyndir sem staksteina til þess að feta sig yfir fljótið að myndum í fullri lengd og ég geri það líka upp að vissu leyti. Ég stefni að sjálfsögðu á það að gera myndir í fullri lengd en ég lít svo á að ég þurfi að stíga vel til jarðar á hvern einasta stein sem ég stíg á á leiðinni þangað, leyfa hverri stuttmynd að vera meira en bara augnablik á leiðinni eitthvað annað.

Er hægt að skilgreina myndina þína? 

Eins mikið og ég velti nú kvikmyndagreinum fyrir mér á meðan ég var í Háskólanum þá hef ég einhvern veginn alveg hunsað þær þegar ég fór að gera stuttmyndir. Ég á alltaf í stökust vandræðum með að skilgreina þær innan greinarfræða þegar ég sendi þær inn á kvikmyndahátíðir. Til dæmis hló fólk meira að Sjáumst en ég bjóst við og Viktoría varð mun alvarlegri en ég reiknaði með. Líklega hentar bara best að hugsa um þær sem mannlegar sögur einhvers staðar á milli drama og gríns, hvað svo sem sú kvikmyndagrein heitir.

Kvikmyndaskólinn Columbia er nefndur á aðstandendalista myndarinnar, hver var aðkoma þeirra?

Þetta er í raun skólaverkefni innan skólans. Fyrstu tvö árin gerum við stuttmyndir á sumrin. Svona eiginlegt lokaverkefni fyrsta árs og lokaverkefni annars árs. Aðkoma skólans er í raun ekki svo mikil. Það er enginn fjárhagslegur stuðningur annar en að fá búnað, en að flytja búnað frá New York og til baka yrði ábyggilega svipað dýrt og að fá hann leigðan hjá Kukl. En vissulega hef ég aðstöðu til þess að klippa og marga frábæra kennara til þess að leiðbeina manni á meðan maður er í skólanum.

Námið er byggt upp þannig að fyrstu tvö árin er maður á fullu að mæta í tíma og svo hefur maður 1-3 ár að gera lokaverkefni, sem getur verið burðarmeiri stuttmynd og/eða handrit í fullri lengd. Ég er sem sagt ný byrjaður á því ferli og er byrjaður að þróa næstu stuttmyndir og handrit.

Ég tók strax eftir því að sögusviðið er utan höfuðborgarinnar, alveg eins og í myndinni þinni Sjáumst, sem var sýnd á RIFF í fyrra þar sem Selfoss var mjög áberandi, jafnvel í aðalhlutverki. Sveitaþemað hefur verið nokkuð áberandi bæði í íslenskum bókmenntum og kvikmyndum allt frá upphafi. Ertu að setja mark þitt á hefðina? Er enn þörf á að fjalla um sveitina í íslenskri menningu? Hvað ræður vali þínu á að sögusviðið sé í sveit?

Ætli það sé ekki aðallega það að ég hef aðgang að sveitinni og hún er mjög sjónræn í grunnin. Ég hugsa reyndar alltaf um Sjáumst sem Selfoss-mynd þótt hún byrji þarna aðeins fyrir utan bæinn. En Viktoría er vissulega íslensk sveitamynd og stígur inn í þá hefð. Ég ólst náttúrulega upp í sveit svo sá heimur er mér mjög kær og ég ætla rétt að vona að ég sé ekki of seinn í partíið og þurfi bara að segja sögur af borginni. En að öllu gamni slepptu þá held ég að það sé jafnvel ennþá mikilvægara að segja sögur af sveit í dag þar sem það hefur aldrei verið breiðara bil á milli borgarinnar og sveitarinnar menningarlega. Það er orðið mjög óalgengt að börn fari í sveit yfir sumar og ef það er gert þá er það yfirleitt ekki nema 2 vikur í senn. Það er líka orðið þannig að landsbyggðinni er oftar en ekki stillt upp sem andstæðum menningarheimi við borgina á neikvæðan hátt. Þetta er því að verða menningarheimur sem við í borginni höfum sífellt veikari tengingu við og er því verðugur allri þeirri athygli sem við getum gefið honum.

Tónlist er notuð mjög sparlega og umhverfishljóð verða mjög áþreifanleg fyrir vikið. Þegar henni bregður fyrir er það strengjahljóðfæri, eða mjög organísk og náttúrulegt hljóð. Útvarpið í eldhúsinu staðsetur áhorfendur í tíma og spilar kafla úr tveimur/þremur íslenskum dægurlögum. Gætirðu rætt aðeins notkun þína á tónlist?

Í Viktoríu vann ég með Daða Frey Péturssyni að tónlistinni og við vorum sammála um að þetta væri mynd sem ætti ekki að vera með mjög áberandi kvikmyndatónlist. Við töluðum líka um að við vildum helst hafa sem náttúrulegasta tónlist og sem minnst af raftónlist, þó það sé kannski það sem Daði er hvað þekktastur fyrir. Daða tókst að vinna þessa fallegu og ljúfu tónlist sem slæðist inn á nokkrum vel völdum augnablikum í myndinni þrátt fyrir miklar annir og ég hefði ekki geta beðið um betri tónlist fyrir þessa mynd. Hvað popptónlistina varðar var ég búinn að skrifa popplögin inn í handritið nánast frá fyrsta uppkasti. „Einhvern tíma“ með Villa Vill fannst mér passa því það upphefur á vissan hátt fólkið sem vinnur sig í gegnum lífið án þess að elta draumana en lifir samt sem áður í sátt við lífið. Ég vona að það eigi að einhverju leyti við Viktoríu. „Sólstrandagæi“ fannst mér aðallega fyndið að setja inn sem lag sem fer í taugarnar á Viktoríu á þessum tímapunkti. Hljóðheimurinn fyrir utan tónlistina varð til í samvinnu við Jóhann Vigni Vilbergsson sem sá um alla hljóðvinnu í eftirvinnslunni. Líklega var það í þeirri vinnu sem ég lærði persónulega mest um kvikmyndagerð í þessari mynd þar sem við vorum að skapa upplifun í gegnum hljóð á hátt sem ég hafði aldrei gert áður, svo náðum við líka að setja inn nokkur smáatriði sem engin tekur eftir en ég vona að bæti við heildarupplifunina af myndinni.

Þótt sögusviðið sé kannski smátt í sniðum er söguheimurinn, sem lúrir utan við eiginlega frásögn, nokkuð stærri, nær til Reykjavíkur og jafnvel Bandaríkjanna (þú gerðir svipaða hluti í Sjáumst). Þykir þér mikilvægt að gefa tilfinningu fyrir stærra rými í svona „smárri“ sögu?

Já, ég er hrifinn af því að finna fyrir stærri heiminum. Það er bara einfaldlega raunin í dag vegna hnattvæðingar. Meira að segja kona sem er hugsanlega búin að búa alla sína ævi á sveitabæ er með skýrar tengingar út fyrir Ísland. Þótt myndin fjalli í megin dráttum ekki um hnattvæðingu þá má vissulega finna fyrir henni í heiminum sem umlykur myndina.

Þú skapar eyður í frásögninni. Þykir þér mikilvægt að halda einhverju opnu fyrir áhorfandann til þess að virkja hann, eða þjóna eyðurnar öðrum tilgangi? 

Þetta á mjög vel við í beinu framhaldi af síðustu spurningu því stuttmyndin er á vissan hátt erfið viðeignar. Það er hægt að gera einfalda stuttmynd sem á algjörlega heima innan þess tímaramma sem hún gerist í en þá er hættan að það sitji ekkert eftir þegar myndin er búin. Önnur hætta er að gera stuttmynd sem ætlar sér of mikið innan tímarammans. Þá getur áhorfandinn staðið upp og liðið eins og það sé ekki nægilega sterk eða skýr úrlausn. Mín upplifun er sem sagt sú að maður þarf að reyna að skapa heim sem nær út fyrir það sem einföld saga nær utan um eða segja sögu sem býr til eitthvað stærra samhengi þrátt fyrir að eiga sér stað í frekar smáum heim eða einhverskonar bland af þessum andstæðum. Viktoría býr vissulega til stærri heimi en á sama tíma er sagan aðeins stærri en það sem fyrir augu ber í myndinni. Ég er ekki viss um að þetta gangi fullkomlega upp hjá mér en ég er vissulega sáttur við niðurstöðuna og hlakka til að læra betur inn á frásagnarformið sem stuttmyndin er á meðan ég undirbý mig fyrir stærri verkefni.

Það er eftirtektarvert að þú miðlar miklum upplýsingum myndrænt. Þar má nefna þegar aðalpersónan, Viktoría, skoðar gamlar slæður á meðan hún talar við dóttur sína í síma. Er þetta eitthvað sem þú gerðir sérstaklega í þessu tilfelli eða partur af persónulegri hugmyndafræði að kvikmyndir eiga að vera myndrænn miðill umfram allt?

Fyrsta viðbragðið mitt við þessari spurningu var að segja að það væri kannski ekki persónuleg hugmyndafræði sem stýrði þessu en því meira sem ég hugsaði um þetta því meira fannst mér það raunin. Þó að upplýsingum sé vissulega komið til skila í gegnum samtal þá verður alltaf að vera eitthvað sjónrænt við það í þessum miðli. Í Viktoríu tókst mér til dæmis í þessari senu sem þú minnist á að koma upplýsingum til skila í gegnum samtal mæðgnanna á sama tíma og ég er að bæta við upplýsingum með slæð-umyndunum sem bera fyrir augu. Það er líka ekki hjá því komist að veita upplýsingar um sambönd persóna og/eða ástand eftir því hvernig þú stillir þeim upp. Þannig það er kannski ekki spurning um hvort kvikmyndir eigi að vera myndrænn miðill umfram allt, hann bara er það. Þannig í stuttu máli: jú ætli þetta sé ekki persónulega hugmyndafræði hjá mér.

Í framhaldi af þessari spurningu þá langar mig að spyrja: Það sést á gömlu myndunum sem Viktoría skoðar að þar eru börnin að taka þátt í störfum á bænum, að heyja t.d. og sinna öðrum búverkum. Á sama tíma er hún að tala við dóttur sína sem er greinilega í listnámi í Bandaríkjunum sem tjáir henni að hún muni ekki koma heim að hjálpa til yfir sumarið á bænum. Er þetta þróun sem þú sérð fyrir þér í samfélaginu? Eru börn vinnandi fólks að væflast út um allan heima að leika sér með hugmyndir á meðan búið heima koðnar niður?

Ég ætla nú ekki að alhæfa um það að þetta sé þróun sem ég sé á samfélaginu. Frekar að þetta sé svona framsetningin á minni persónulegu upplifun á því samviskubiti sem ég finn fyrir verandi barn vinnandi fólks sem er úti í heimi að leika sér með hugmyndir á meðan búið er kannski ekki að koðna niður en það er ekki á sama stað og það var áður fyrr. Ég er  því fremur að játa á mig persónulega vankanta en að segja eitthvað um þróun í samfélaginu í þessu tilfelli.

Það eru greinileg kynslóðaskil. Unga parið á næsta bæ hefur svo að segja skipt um búgrein og snúið sér að ferðamennsku. Rekur gisti- og morgunverðarstað sem gefur vel af sér. Þar á bæ eru eins umræður um málverk þar sem skilur á milli gamals sveitaraunsæis og módernískari verka í fagurfræðilegum smekk. Yngri konan vill henda þessu gamla púkó málverki af „gamla bænum“ og fá sér eitthvað nýrra. Er þetta spurning um að yngri kynslóðin sé að svíkja ræturnar eða þörf þeirra eldri að aðlagast breyttum aðstæðum? 

Til að byrja með þá langar mig að minnast á það að þessi þróun að snúa sér að ferðamennsku og/eða stækka búið sem unga parið er að reyna að gera er ákveðin þróun sem ég hef tekið eftir. Það er komin miklu sterkari markaðshugsjón í unga bændur sem gerir þá mun metnaðarfyllri. Aftur á móti er Viktoría föst í fortíðinni að einhverju leyti en á sama tíma er bónda eins og henni kannski ekki ætlað að taka þátt í framtíðinni. Það er ef til vill stóra spurningin í þessari mynd. Getur kona eins og Viktoría haldið áfram að gera það sem hún elskar án þess að breytast og ef hún breytist mun hún enn elska það sem hún er að gera.

Þá er önnur hugmynd sem hefur sótt á mig, sem er að „við“ séum að tapa mennskunni. Þar sem tæki eru að koma í stað fólks. Viktoría og Pawel tala ekki saman til dæmis. Hann fiktar í símanum sínum frekar en að ræða við hana. Fjölskyldan sem hjálpaðist að við búverkin áður er horfin og við eru teknar mjalta- og sláttuvélar. En þá er maðurinn líka háður þessum tækjum og glataður ef þau bila. Gætirðu rætt aðeins hugmyndir þínar með þetta?

Tæknin er mjög tvíeggja sverð þegar kemur að mennskunni. Þegar einhver eins og Viktoría skilur ekki tæknina fyllilega þá einangrast hún í dag því svo stór hluti af okkar samfélagslega lífi á sér stað í gengum Netið. Þessi þróun gerir það samtímis að verkum að við eigum erfiðara með samskipti  í raunveruleikanum og við eigum auðveldara með samskipti langt út fyrir það sem hægt var áður fyrr. Viktoría er ekki með snjallsíma og þess vegna talar hún við dóttur sína í gamlan gsm-síma og sér hana því ábyggilega mjög sjaldan. Pawel er með snjallsíma og er að hlæja að pólskum brandara því hann á líklega í stöðugum samskiptum við vini og vandamenn í Póllandi í gegnum samfélagsmiðla. Vissulega virðist það vera þannig fyrir Viktoríu að við séum að tapa mennskunni en spurningin er kannski hvert hún er farin en ekki hvort hún er horfin.

Þú skrifar handrit, leikstýrir og klippir sjálfur myndir þínar. Þykir þér mikilvægt að koma að sem flestum þáttum framleiðsluferlisins sjálfur?

Ekki mikilvægt nei. En á meðan maður er að byrja finnst mér gott að nýta myndirnar mína til þess að læra sem mest. Ég hef mikinn áhuga á því að klippa og er að klippa mína sjöttu stuttmynd þessa dagana og fannst ekkert annað koma til greina en að nota mín verkefni til þess að þjálfa mig upp í þeirri vinnu samhliða því að ég klippi fyrir aðra. Mér finnst heldur ekki mikilvægt að skrifa handrit sjálfur en það er gott að þjálfa upp þann vöðva líka. Ég kem til dæmis ekki til með að skrifa næstu stuttmynd sem ég leikstýri en þá næstu eftir það er ég byrjaður að skrifa. Ég er líka alveg tilbúin að skrifa fyrir aðra og er nú þegar búinn að fá eitt verkefni í þróun á handriti byggðu á bók heima á Íslandi.

Líturðu fyrst og fremst á þig sem leikstjóra, handritshöfund, klippara, í einhverri ákveðinni röð, eða helst þetta allt í hendur?

Fyrst og fremst er ég leikstjóri. Ég hef heyrt nokkra bekkjarfélaga tala um hvernig það að vera leikstjóri á setti sé hræðilega erfitt en það gæti ekki verið fjarri sannleikanum fyrir mig. Ég upplifi mig aldrei jafn lifandi og þegar ég feri í tökur sem leikstjóri og þarf að vera með hugann við allt. En eins og ég sagði áðan þá finnst mér mjög gaman að klippa og skrifa fyrir sjálfan mig og aðra. Kannski er það bara þannig að mér finnst gaman að vinna með fólki að kvikmyndum, hvernig sem ég kem að þeim.

Aðalpersónan er bóndi. Manni er gjarnt að hugsa um karlmenn þegar maður sér fyrir sér bændur. Var eitthvað sérstakt sem vakti fyrir þér með leikaravalinu, að það væri kona?

Eins og ég sagði í upphafi þá byggir myndin lauslega á móður minni en það er alls ekki eina ástæðan fyrir því að ég skrifaði þennan bónda sem konu. Ég hef alist upp í kringum konur sem hafa ekki látið það stoppa þær í neinni vinnu að þær séu konur. Bæði móðir mín og amma eru hörkuduglegar konur sem hafa verið aðalvinnuaflið í Litlu-Sandvík undanfarin 40 ár, jafnvel frekar en karlarnir á búinu. Mér finnst því konur í sveitabæjum oft vera ósungnar hetjur þeirra.

Viktoría er ekkert betur stödd í lokin heldur en hún var í upphafi myndarinnar. Hún er jafnvel í verri aðstöðu, og maður spyr sig hvort ástæðan sé að henni standa engar lausnir til boða, eða hvort það sé vegna þess að hún sé of stolt til þess að þiggja þá hjálp sem er í boði. Hver var hugsunin á bakvið endinn?

Ég veit nú ekki til þess að henni hafi verið boðin nein hjálp af viti en Viktoría myndi líklega eiga erfitt með að þiggja nokkra hjálp yfir höfuð enda sjálfstæð kona. Mér finnst persónuleg ekki mitt að segja hvort hún sé betur, verr, eða á einhvern hátt öðruvísi stödd eða stemmd í lok myndarinnar en ég vona að það sé eitthvað sem áhorfendur spyrja sig að.

Þá verð ég að fá að spyrja út í lokasenuna. Myndin endar á því að ísbíllinn kemur. Viktoría kaupir kassa af ís og sest á bekk og gæðir sér á einum þeirra. Ísinn sjálfur hefur verið mér hugleikinn. Eina tengingin sem mér dettur í hug er að hún rekur mjólkurbú og þar hefur hún afurð erfiðis síns í höndunum. Eða var bara hugmyndin sú að það sé hægt að gleðjast yfir litlu þótt heimurinn í kringum mann sé að hrynja?

Ísbílasenan öll var skrifuð til þess að opna heimin virkilega fyrir Viktoríu. Þess vegna valdi ég leikara í þá senu sem lítur allt öðruvísi út en aðrir leikarar í myndinni. Tengingin að ís sé í raun afurð sem hún á þátt í að skapa var ekki eitthvað sem ég var meðvitaður um þegar ég var að skrifa myndina, en ég hef heyrt það oft og er í raun ekki mótfallinn þeirri túlkun á endanum. Ég trúi staðfastlega á það að höfundarætlun skipti ekki máli þegar á hólminn er komið. En varðandi ísbílinn þá hef ég sjálfur keyrt ísbíl og ólst upp í sveit þar sem ísbíllinn kom reglulega og það fygldi honum alltaf einhver upplyfting sama hver staðan var þann daginn. Ætli ég hafi ekki bara viljað blekkja áhorfendur til þess að gleyma í stundarkorn öllum áhyggjum Viktoríu og leyfa þeim að kveðja hana í góðu, svo læðist það að þeim að þetta var kannski ekki alveg í lagi hjá henni þegar kredit-textinn rúllar.

Um höfundinn
Kjartan Már Ómarsson

Kjartan Már Ómarsson

Kjartan Már Ómarsson er með MA gráðu í bókmenntafræði. Hann er stundakennari við íslensku- og menningardeild HÍ þar sem hann kennir jöfnum höndum í bókmennta- og kvikmyndafræði.

[fblike]

Deila