Tónlist fyrir klink

Munið þið hvenær þið keyptuð ykkar fyrstu kassettu eða geisladisk? Munið þið hversu oft þið hlustuðuð á diskinn? Munið þið enn alla textana, nema í þessu eina lagi sem þið slepptuð alltaf?

Ég man nákvæmlega eftir því þegar pabbi minn spilaði uppáhaldskassettuna sína í bílnum þegar hann keyrði mig á fótboltaæfingu. Hann hélt svo mikið upp á AC/DC að við hlustuðum á sömu plötuna aftur og aftur, dag eftir dag. Lög eins og „T.N.T“ og „It‘s a long way to the top (if you wanna rock ‘n‘ roll)“ eru jafnfersk í minningunni og lyktin af sumardögum. Ég man líka nákvæmlega eftir því þegar ég fór í plötubúð og keypti mér fyrsta þungarokksgeisladiskinn minn. Ég hlustaði á hann að minnsta kosti milljón sinnum og tók hann með mér í ferðaspilaranum mínum hvert sem ég fór. Nú meira en tíu árum síðar kann ég ennþá öll lögin utan að og veit akkúrat hvenær hvaða partur kemur. Það sama á við um margar aðrar plötur sem komu á eftir þessari því ég keypti bara geisladiska af og til. Oft var maður búinn að bíða eftir ákveðnum disk í langan tíma. Þetta hefur breyst að mörgu leyti.

Frelsi og hraði

Í dag hlusta ég eiginlega mest á tónlist á Spotify. Ég borga rúmlega 1500 krónur á mánuði til að geta hlustað á nánast eins mikla tónlist og ég vil, eins oft og ég vil og til að vera ekki truflaður af auglýsingum á meðan. Ég hlusta að minnsta kosti á tvær til þrjár nýjar hljómsveitir eða plötur á hverjum degi. Spotify bendir mér á alls konar tónlist sem ég gæti haft áhuga á og oft hlusta ég bara á eitt og eitt lag til að sjá hvort mér finnist viðkomandi hljómsveit skemmtileg eða ekki. Þetta er stórbreytt hlustunarhegðun. Í staðinn fyrir að hlusta á eina plötu í nokkrar vikur hlusta ég á margar hljómsveitir á einni viku. Úrvalið er svo mikið að oft þarf eitthvað mjög sérstakt til að ná athygli minni – avantgarde-black-metal-jazz eða stoner-trap-core hljómar núna næstum því eins og venjuleg tónlist.

Spotify vs. fýsísk útgáfa.

180 krónur á ári

Hlustar fólk á tónlist á yfirborðskenndari hátt í dag en áður fyrr? Það gæti verið. Hlustunin verður hraðari og hraðari eins og annað í samfélagi nútímans. Við getum hlustað á hvaða tónlist sem er, hvenær sem er og hvar sem er í snjallsímunum okkar. Maður þarf ekki sérstakt tæki, bara símann sem við erum alltaf með hvort sem er. Spotify er ókeypis ef þú nennir að hlusta á auglýsingar sem poppa upp á nokkurra laga fresti. Að borga 1500 krónur til að losna við þær virðist alls ekki mikið. En hvað með tónlistarmennina?

Í grein eftir Lizzie Plaugic  kemur fram að Spotify borgar hljómlistarmönnum venjulega á bilinu 0,006 til 0,0084 dollara fyrir hverja spilun. Ef þú hlustar á eitt lag 300 sinnum á ári, þá fær hljómsveitin 1,8 dollara eða 180 íslenskar krónur. Þessu er svo skipt milli allra sem hafa unnið að laginu – að meðtöldum framleiðanda og plötuútgáfu(fyrirtæki). Mér finnst tvímælalaust að það sé mjög rangt að borga svona lítið fyrir menningu. Þar að auki fá hljómsveitir oft ekki borgað fyrir tónleika – enda eiga þeir að vera ókeypis auglýsing. Þetta er eins ósanngjarnt og það getur verið, að mínu mati.

Á hinn bóginn er nú auðveldara fyrir fólk að finna nýja tónlist og borga fyrir hana. Ef ég finn plötu sem mér finnst mjög góð þá kaupi ég hana, oftast ásamt einhverjum varningi, til að styrkja hljómsveitina. Til dæmis geta hljómsveitir á síðunni bandcamp.com sett lágmarksverð á plötur sínar og kaupandanum er frjálst að borga það eða jafnvel meira. Þetta hentar bæði þeim sem hafa ekki efni á að borga mikið og hinum sem geta eytt meiru.

Hlustunartölur á Spotify.

Að borga fyrir menningu

Ég er nokkuð viss um að ég kaupi fleiri plötur núna en fyrir tíu árum. Í gegnum Spotify hef ég uppgötvað margar hljómsveitir, sem ég hefði annars örugglega aldrei heyrt um, og í framhaldinu keypt plöturnar þeirra. Og ég hef svo hlustað á þessar plötur aftur og aftur – á vínyl og á Spotify. Þær eru jafn einstakar og fyrstu plötur lífs míns. Þær eru nokkrar af mörg þúsund plötum sem mér hafa fundist svo merkilegar að ég keypti þær.

Tónlistaráhuginn er ekki minni nú en hann var fyrir tíu árum. Ég hugsa að hann sé jafnvel meiri en fyrir tíma Spotify. En ég hvet ykkur til að styrkja tónlistarmennina sem ykkur líkar við og þið hlustið mest á – hugsið bara um hversu langan tíma það tekur að semja tónlist fyrir plötu, taka hana upp og gefa hana út. Þessi vinna er jafnmikilvæg og öll önnur vinna. Kannski er hún jafnvel enn mikilvægari, því hvar værum við án tónlistar, án lista? Hvað væri samfélagið án menningar?

Þessi umfjöllun var hluti af verkefnavinnu í námskeiðinu „Loksins, loksins: Vinnustofa í menningarblaðamennsku“ á vorönn 2018.

Um höfundinn
Phil Uwe Widiger

Phil Uwe Widiger

Phil Uwe Widiger er meistaranemi í blaða- og fréttamennsku.

[fblike]

Deila